10. nóvember 2018

Bréf til landlæknis vegna barns sem vísað var frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og vistað í fangaklefa

Bréf hefur verið afhent landlækni vegna máls stúlku sem hafði verið vísað frá Sjúkrahúsinu á Akureyri í lok september þar sem hún var sögð of veik til þess að leggjast inn, bæði á geðsvið og barnadeild sjúkrahússins. Var hún því vistuð næturlangt í fangaklefa.

Á fundi með landlækni miðvikudaginn 7. nóvember sl. afhenti umboðsmaður eftirfarandi bréf vegna máls 17 ára stúlku. Henni hafði verið vísað frá Sjúkrahúsinu á Akureyri í lok september þar sem hún var sögð of veik til þess að leggjast inn, bæði á geðsvið og barnadeild sjúkrahússins. Var stúlkan því vistuð næturlangt í fangaklefa.

Í bréfinu óskar umboðsmaður meðal annars eftir að landlæknir skoði málsatvik og geri sjáfstæða athugun á því hvernig sjúkrahúsið hafi brugðist við viðkomandi sjúkling í umræddu tilviki. 

Bréfið er hér birt í heild sinni en viðkvæmar persónuupplýsingar hafa verið fjarlægðar. 

 

 

Landlæknir

Velferðaráðuneytið - heilbrigðisráðherra

 

Reykjavík, 6. nóvember 2018

 

Efni: Fyrirspurn vegna barns í geðrofi sem vísað var frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og vistað í fangaklefa næturlangt.

Í fréttum frá 10. október sl.[1] var fjallað um mál 17 ára stúlku sem hafði verið vísað frá Sjúkrahúsinu á Akureyri í lok september þar sem hún var sögð of veik til þess að leggjast inn, bæði á geðsvið og barnadeild sjúkrahússins. Var hún því vistuð næturlangt í fangaklefa.

 

Þetta er í annað skiptið á árinu sem berast fregnir af því í fjölmiðlum að barn hafi verið vistað í fangaklefa þar sem ekki voru til staðar viðeigandi úrræði, þó dæmin séu vafalaust fleiri. Að mati umboðsmanns barna er vistun barna í fangaklefum algjörlega óásættanleg ráðstöfun og ekki í samræmi við meginreglur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og nauðsynlegt að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að slíkar aðstæður skapist.[2]

 

Með vísan til 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 óskar umboðsmaður barna eftir því að landlæknir kanni málsatvik og geri sjálfstæða athugun á því hvernig sjúkrahúsið hafi brugðist við viðkomandi sjúklingi í umræddu tilviki, hverjar séu ástæður þess að heilbrigðisstarfsmenn sjúkrahússins töldu sér ekki fært um að leggja umræddan sjúkling inn á sjúkrahúsið og hvort að sú lýsing sem kom fram í umræddri frétt um að barnið hafi verið talið „of veikt“ til að leggjast inn eigi við rök að styðjast.

 

[Viðkvæmar persónuupplýsingar um heilsu viðkomandi barns hafa hér verið afmáðar]. Mátti sjúkrahúsið vita að líklega yrði barnið vistað í fangaklefa þar sem sjúkrahúsið var ekki tilbúið til að leggja það inn? Hver eru rétt vinnubrögð að mati landlæknis þegar sú staða kemur upp að heilbrigðisstofnun sér sér ekki fært um að taka á móti barni í geðrofi? Í hvaða tilvikum gæti sjúkrahúsi verið heimilt að vísa veiku barni frá innlögn að mati landlæknis?

 

Að lokum vill umboðsmaður barna vekja athygli á því að stjórnvöldum er skylt að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem hann óskar eftir til að hann geti sinnt hlutverki sínu, sbr. 5. gr. laga um umboðsmann barna nr. 83/1994.

 

Virðingarfyllst,

 

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica