3. maí 2010

Börn yfir kjörþyngd

Í frétt á vefsvæði Lýðheilsustöðvar dags. 16. apríl 2010 segir frá nýútkominni skýrslu sem Lýðheilsustöð og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafa tekið saman og gefið út. Í skýrslunni, sem ber titilinn „Líkamsþyngd barna á höfuðborgargsvæðinu - Er hlutfall barna yfir kjörþyngd hætt að aukast?", er komið á framfæri nýjum tölum og stuttri útlistun á lykilhugtökum sem notuð eru um líkamsþyngd barna.

Undanfarin misseri hefur víða verið rætt um líkamsþyngd grunnskólabarna. Í slíkri umræðu er mikilvægt að tekið sé mið af bestu fáanlegu upplýsingum á hverjum tíma en nokkuð hefur borið á ónákvæmni í meðferð bæði talna og hugtaka.

Í frétt á vefsvæði Lýðheilsustöðvar dags. 16. apríl 2010 segir frá nýútkominni skýrslu sem Lýðheilsustöð og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafa tekið saman og gefið út. Í skýrslunni, sem ber titilinn „Líkamsþyngd barna á höfuðborgarsvæðinu - Er hlutfall barna yfir kjörþyngd hætt að aukast?", er komið á framfæri nýjum tölum og stuttri útlistun á lykilhugtökum sem notuð eru um líkamsþyngd barna.

Skoða skýrsluna Líkamsþyngd barna á höfuðborgarsvæðinu - Er hlutfall barna yfir kjörþyngd hætt að aukast?

Fyrri rannsóknir, sem byggja á mælingum á hæð og þyngd 9 ára barna á höfuðborgarsvæðinu, sýna að hlutfall barna sem flokkast yfir kjörþyngd jókst mikið frá árinu 1958 til 1998 en nýjar mælingar sýna ekki afgerandi breytingar á síðustu árum á hlutfalli barna sem eru yfir kjörþyngd.

Heilsuvernd skólabarna á höfuðborgarsvæðinu hefur frá vetrinum 2002–2003 skráð rafrænt í Ískrá mælingar á hæð og þyngd nemenda í 1., 4., 7. og 9. bekk grunnskóla. Mælingar í 4. bekk benda til þess að hlutfall barna sem er yfir kjörþyngd sé líklega hætt að aukast eftir mikla aukningu á seinni hluta 20. aldar. Mikilvægt er að hafa í huga að þrátt fyrir traustar mælingar á hæð og þyngd barna þá eru engir árgangar eins og Íslendingar eru ennþá fámenn þjóð. Þess vegna mælast oft breytingar á hlutfalli á milli tveggja ára sem endurspegla ekki endilega langvarandi, undirliggjandi breytingar.

Að lokum
Í umræðum um börn er mikilvægt að hafa í huga að mikil áhersla á holdafar getur valdið börnum vanlíðan. Þannig telja ýmsir að of mikil áhersla á holdafar í fjölmiðlum sé hluti af flókinni orsakakeðju átröskunar þó auðvitað hafi fleiri þættir áhrif þar á. 

Margir telja að í opinberri umræðu ætti frekar að leggja áherslu á mikilvægi þess að börn og fullorðnir hreyfi sig nægjanlega mikið og neyti fjölbreyttrar hollrar fæðu í hæfilegu magni í stað þess að einblína á líkamsþyngd. Það ætti að vera ófrávíkjanleg krafa að ef fjallað er um málið á opinberum vettvangi þá sé farið rétt með hlutfallstölur og hugtök.

Tekið af vefsvæði Lýðheilsustöðvar


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica