18. ágúst 2008

Börn sem virkir þátttakendur í samfélaginu

Réttur barna til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu hefur verið umdeildur og er enn. Umboðsmaður barna vill vekja athygli á nýjasta hefti tímaritsins „The International Journal of Children´s Rights“ (Volume 16, No. 3. 2008) en í þessu tölublaði er sérstök áhersla lögð á umfjöllun um lýðræðislega þátttöku barna.

Rétt barna til velferðar, þ.e. verndar og umönnunar, má telja óumdeildan en sá réttur er nátengdur grunnþörfum þeirra og því auðvelt fyrir fullorðna að viðurkenna hann. Hins vegar hefur réttur barna til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu verið umdeildur og er enn.

Umboðsmaður barna vill vekja athygli á nýjasta hefti tímaritsins „The International Journal of Children´s Rights“ (Volume 16, No. 3. 2008) en í þessu tölublaði er sérstök áhersla lögð á umfjöllun um lýðræðislega þátttöku barna. Bæði er fjallað um lýðræðislega þátttöku barna frá fræðilegu sjónarhorni en einnig eru tekin nokkur dæmi frá mismunandi löndum. 

Í þessu samhengi má einnig benda á áhugaverða grein eftir Stefan Olsson í Háskólanum í Uppsölum um kosningarétt barna. Í greininni, sem heitir „Children's Suffrage: A Critique of the Importance of Voters' Knowledge For the Well-Being of Democracy“, dregur höfundur í efa þær meginröksemdir sem eru notaðar til að réttlæta það að börn hafi ekki kosningarétt, þ.e. að börn skorti á skilning á pólitískum málefnum og hafi því ekki hæfni til að taka upplýstar ákvarðanir.  Greinin er birt í fyrsta tölublaði „The International Journal of Children´s Rights“ árið 2008 (Volume 16, No. 1. 2008).

Barnasáttmálinn kallar á ný viðhorf til barna og stöðu þeirra í samfélaginu. Samkvæmt 12. gr. sáttmálans eiga börn sem myndað geta eigin skoðanir rétt á að láta þær í ljós í öllum málum sem þau varða og stjórnvöldum ber að taka réttmætt tillit til skoðana barnanna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Ástæða er til að undirstrika að hér er um rétt barna að ræða en ekki skyldu. Skylda hvílir aftur á móti á stjórnvöldum að tryggja börnum raunveruleg tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegri ákvarðanatöku á þeirra eigin forsendum. Stjórnvöldum, þ.á m. sveitarstjórnum og skólayfirvöldum, ber að hlusta á skoðanir barna og virða þær. Þessi réttur nær til allra mála er varða börn á einn eða annan hátt, s.s. málefni skólans, æskulýðs- og tómstundamál, forvarnir, skipulag og umhverfismál.

Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér ofangreint lesefni er velkomið að hafa samband við skrifstofu umboðsmanns barna.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica