14. janúar 2009

Börn sem þátttakendur í pólitísku starfi

Vandasamt er að svara því með algildum hætti hvenær börn mega taka þátt í pólitísku starfi og mótmælum. Nauðsynlegt er að meta það út frá aðstæðum hverju sinni sem og aldri og þroska barnsins. Ávallt þarf að hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi og gæta þess að velferð þeirra sé tryggð.

Vandasamt er að svara því með algildum hætti hvenær börn mega taka þátt í pólitísku starfi og mótmælum. Nauðsynlegt er að meta það út frá aðstæðum hverju sinni sem og aldri og þroska barnsins. Ávallt þarf að hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi og gæta þess að velferð þeirra sé tryggð.

Umboðsmaður barna hefur lagt mikla áherslu á rétt barna til þess að láta skoðanir sínar frjálslega í ljós og að tekið sé réttmætt tillit til þeirra í samræmi við aldur barnsins og þroska sbr. 12. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Auk þess njóta börn sama tjáningarfrelsis og fullorðnir sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 13. gr. barnasáttmálans. Meginreglan er því sú að börn eiga að fá tækifæri til þess að tjá sig um öll málefni sem þau varða og eiga rétt á því að hafa áhrif á ákvarðanir í samfélaginu.

Mikilvægt er að virða skoðana- og sannfæringarfrelsi barna og ber því að leggja áherslu á rétt barna til þess að tjá sínar eigin skoðanir. Aldrei ber að nota börn til þess að koma skoðunum annarra á framfæri.

Í ljósi framangreindra meginreglna eiga börn almennt rétt á því að taka þátt í pólitískum umræðum og mótmælum. Hins vegar er nauðsynlegt að hafa í huga að börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarf á sérstakri vernd að halda. Foreldrar bera meginábyrgð á velferð barna sinna og hafa ákveðið svigrúm til þess að ráða högum þeirra. Foreldrum ber þó ávallt að tryggja að hagsmunum barna sé ekki stefnt í voða og vernda þau fyrir hættulegum aðstæðum, svo sem óeirðum. Þörf barna fyrir vernd eykst eftir því sem aðstæður eru hættulegri. Eftir því sem börnin verða eldri og þroskaðri ber þó að veita þeim aukinn sjálfsákvörðunarrétt, m.a. varðandi þátttöku í pólitísku starfi.

Að lokum má benda á mikilvægi þess að huga sérstaklega að velferð barna á þeim tímum sem við nú lifum. Æskilegt er að foreldrar ræði við börnin um það sem þau eru að upplifa og það sem er að gerast á yfirvegaðan hátt. Einnig er mikilvægt að valda börnum ekki óþarfa áhyggjum og streitu. Þann 10. október 2008 sendu ýmsir opinberir aðilar tilkynningar í tengslum við bankahrunið sem gott er að hafa í huga í þessu sambandi. 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica