7. apríl 2011

Börn sem ósjúkratryggðar konur ganga með

Umboðsmaður barna hefur sent Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra bréf þar sem bent er á að börnum sem ósjúkratryggðar konur ganga með er mismunað þegar kemur að eftirliti með meðgöngu.

Umboðsmaður barna hefur sent Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra bréf þar sem bent er á að börnum sem ósjúkratryggðar konur ganga með er mismunað þegar kemur að eftirliti með meðgöngu. Bréfið er svohljóðandi:

Velferðarráðherra
Guðbjartur Hannesson
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
150 Reykjavík

Reykjavík, 31. mars 2011
UB:1103/8.3.8

Efni: Börn sem ósjúkratryggðar konur ganga með

Umboðsmaður barna hefur fengið ábendingar um bága stöðu erlendra kvenna sem fá dvalarleyfi hér á landi. Þegar einstaklingar frá ríkjum utan EES flytja til landsins og fá dvalarleyfi eru þeir ósjúkratryggðir fyrstu sex mánuðina eftir að dvalarleyfið er gefið út. Því þurfa þeir að kaupa sér sjúkrakostnaðartryggingu fyrir þann tíma sem líður þar til dvalarleyfi er gefið út og fyrstu sex mánuðina eftir útgáfu þess. Að þeim tíma liðnum eru þeir sjúkratryggðir eins og aðrir sem búa hér á landi.

Sjúkrakostnaðartrygging sem fólk er skyldað til að kaupa hefur þann alvarlega annmarka að hún tekur ekki til kostnaðar vegna meðgöngu, fæðingarhjálpar eða sjúkdóma sem rekja má til meðgöngu eða fósturláts. Mál þetta er að mati umboðsmanns barna alvarlegt enda eru um 76% kvenna sem fá dvalarleyfi hér á landi á aldrinum 20-39, en á þeim aldri ala konur um 95% af þeim börnum sem fæðast á Íslandi. Ein helsta ástæða þess að konur leita til heilsugæslunnar á umræddum aldri er vegna meðgöngu eða fæðingar barna þannig að um umtalsverða hagsmuni af hálfu þeirra er að ræða. Umboðsmaður barna setur spurningamerki við að slíkt standist jafnréttislög og hefur komið ábendingunni á framfæri við Jafnréttisstofu.

Það sem veldur umboðsmanni barna þó mestum áhyggjum í þessu sambandi er heilsa og velferð barnanna í móðurkviði. Samkvæmt þeim upplýsingum sem embættið hefur fengið eru dæmi um að konur sem eru ótryggðar láti hjá líða að leita til heilsugæslunnar vegna mæðraverndar og heilsufars- og álitamála á meðgöngu út af þeim kostnaði sem fylgir slíkum heimsóknum. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi meðgöngueftirlits fyrir heilsu og þroska hins ófædda barns enda getur ráðgjöf og inngrip heilbrigðisstarfsfólks reynst börnunum lífsnauðsynlegt. Streita og fjárhagsáhyggjur sem rekja má til kostnaðar vegna fæðingar og hugsanlegra inngripa í fæðinguna hljóta einnig að hafa neikvæð áhrif á barnið á meðgöngunni. Ísland er með einna lægstu tíðni í ungbarnadauða og mæðradauða í heiminum og er því óviðunandi að ófædd börn hluta kvenna njóti ekki sömu réttinda og verndar og önnur börn. Ekki er um mörg börn að ræða en engu að síður er brýnt að tryggja að þeim sé ekki mismunað að þessu leyti.

Umboðsmaður barna vill vekja athygli ráðuneytisins á þessu hagsmunamáli og skorar á stjórnvöld að tryggja öryggi og velferð allra barna á meðgöngu, án tillits til stöðu foreldra.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica