14. maí 2014

Börn og innheimta

Umboðsmaður barna hefur sent tölvupóst til banka og innheimtufyrirtækja þar sem hann minnir á að það má ekki beina innheimtu að börnum. Einnig er óheimilt að beina kröfu að fullorðnum einstaklingum vegna skulda sem stofnað var til fyrir 18 ára aldur.

Umboðsmaður barna hefur sent tölvupóst til banka og innheimtufyrirtækja þar sem hann minnir á að það má ekki beina innheimtu að börnum. Einnig er óheimilt að beina kröfu að fullorðnum einstaklingum vegna skulda sem stofnað var til fyrir 18 ára aldur.

Bréfið er svohljóðandi:

 

Til banka og innheimtufyrirtækja

Reykjavík 12. maí 2014
UB:1405/7.9.2

Efni: Börn og innheimta

Umboðsmanni barna berast reglulega ábendingar um að innheimtu hafi verið beint til barna undir 18 ára aldri. Slíkum ábendingum hefur þó sem betur fer fækkað á undanförnum árum, sem bendir til þess að innheimtuaðilar séu almennt meðvitaðir um lagaákvæði um fjármál barna. Þó eru enn dæmi um að innheimtu sé beint annars vegar að börnum og hins vegar að fullorðnum einstaklingum vegna viðskipta sem áttu sér stað þegar þeir voru börn.

Samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 eru börn ófjárráða til 18 ára aldurs og mega ekki stofna til skulda. Fyrirtækjum og stofnunum er því almennt óheimilt að eiga viðskipti við börn, sem fela í sér fjárhagslega skuldbindingu fyrir þau.

Í samræmi við þetta er einstaklingum og lögaðilum óheimilt að beina kröfu að barni til innheimtu skuldar. Sömuleiðis er óheimilt að beina innheimtu til fullorðins einstaklings vegna skuldar sem stofnað var til fyrir 18 ára aldur. Kröfu, t.d. vegna frístundastarfs, skólagjalda eða heilbrigðiskostnaðar, má því ekki beina að barninu sjálfu heldur skal beina innheimtu hennar til forsjáraðila, enda hafi þeir veitt samþykki sitt fyrir skuldbindingunni.

Umboðsmaður barna hvetur innheimtuaðila til þess að vanda til verka og tryggja að innheimtu sé ekki beint að börnum.

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica