5. desember 2007

Börn með fötlun - Fréttatilkynning

Föstudaginn 7. des. kl. 8:30 verður umboðsmaður barna í Öskuhlíðarskóla. Þá koma nemendur skólans saman á söngsal og synja jólalög og í framhaldi af því kemur Möguleikhúsið og sýnir jólaleikrit. Fjölmiðlar eru velkomnir að koma á staðinn og fyljast með hvað er að gerast í Öskjuhlíðarskóla þennan dag.

5. desember 2007
Fréttatilkynning frá umboðsmanni barna

Börn með fötlun

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun ásamt valfrjálsri bókun við hann var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 13. desember 2006. Þessi samningur markar tímamót í réttindabaráttu þeirra 650 milljóna manna sem búa við fötlun í heiminum. Tilgangur hans er að efla mannréttindi og persónufrelsi fatlaðs fólks og stuðla að virðingu fyrir manngildi þeirra.  Þó réttindi fatlaðra séu víða tryggð formlega er reyndin sú að fötluðu fólki er oft ýtt út á jaðar samfélagsins og því mismunað á mörgum sviðum.  Hinum nýja samningi er ætlað að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks í reynd. Valfrjálsa bókunin kveður á um kæruleið fyrir einstaklinga.

Samningurinn var undirritaður við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna þann 30. mars 2007 og jafnhliða því gátu aðildarríki staðfest hann og var það af hálfu íslenska ríkisins gert samdægurs og án fyrirvara.

Þann 20.-21. sept. s.l var haldinn árlegur fundur umboðsmanna barna í Evrópu (ENOC). Meginþema fundarins að þessu sinni voru málefni barna með fötlun. Á fundinum var samþykkt ályktun þar sem umboðsmennirnir skora á stjórnvöld í sínu heimalandi að fullgilda sáttmálann um réttindi fólks með fötlun ásamt valfrjálsu bókuninni og gera allar tiltækar ráðstafanir til þess að sá réttur sem samningurinn kveður á um sé tryggður. Auk þess vilja umboðsmenn barna í Evrópu að stjórnvöld grípi til aðgerða til að knýja á um rétt barna með fötlun. Auk sameiginlegrar ályktunar var lagt til að umboðsmenn barna í Evrópu, myndu vekja sérstaklega athygli á málefnum barna með fötlun fyrstu vikuna í desember í ljósi þess að alþjóðlegur dagur fatlaðra er haldinn hátíðlegur 3. desember ár hvert.

Vegna þessa mun umboðsmaður barna á Íslandi í þessari viku heimsækja Safamýrarskóla, Öskjuhlíðarskóla, Brúarskóla og Hlíðaskóla. Þrír fyrstu skólarnir eru sérskólar fyrir börn með fötlun eða sérþarfir en sá síðastnefndi er með sérdeild fyrir börn með fötlun innan skólans. Umboðsmaður barna vill því benda á að við verðum að muna að börn með fötlun eru fyrst og síðast börn, en að auki eru þau fötluð. Þau eiga líkt og önnur börn, sem ekki búa við fötlun, rétt til að þroskast og vera virkir þátttakendur í samfélaginu og rétt til að njóta virðingar og verndar. Við berum því öll skyldur í þessum efnum. 

Föstudaginn 7. des. kl. 8:30 verður umboðsmaður barna í Öskjuhlíðarskóla. Þá koma nemendur skólans saman á söngsal og synja jólalög og í framhaldi af því kemur Möguleikhúsið og sýnir jólaleikrit. Fjölmiðlar eru velkomnir að koma á staðinn og fyljast með hvað er að gerast í Öskjuhlíðarskóla þennan dag. Á staðnum verður auk umboðsmanns barna, Dagný Annasdóttir skólastjóri Öskjuhlíðarskóla.
 
Nánari upplýsingar veita Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna s. 8620414 og Dagný Annasdóttir, skólastjóri Öskjuhlíðarskóla, s. 6648405.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica