5. janúar 2015

Börn í meðferð á Vogi

Í október 2014 voru haldnir tveir fundir með börnum og ungmennum sem voru í meðferð á Vogi. Sálfræðingur á vegum SÁÁ sat fundina ásamt tveimur starfsmönnum umboðsmanns barna sem ræddu við börnin um reynslu þeirra af neyslu og þeim úrræðum sem þeim standa börnum og unglingum í þeirra stöðu til boða.

Boern Og LydraediUmboðsmaður barna hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á að hlusta á sjónarmið barna og hefur með ýmsum hætti beitt sér fyrir því að börn og ungmenni fái tækifæri til að taka þátt í ákvörðunum sem varða þau sjálf sem og í samfélaginu í heild. Til þess að hægt sé að bæta aðstæður barna og þjónustu við þau skiptir miklu máli að taka tillit til skoðana og reynslu þeirra sjálfra.

Ein leið til að ná fram sjónarmiðum barna sem búa yfir sérþekkingu á ákveðnu sviði er að kalla saman hóp barna sem búa yfir sameiginlegri reynslu. Fyrsti sérfræðihópur umboðsmanns barna voru börn alkóhólista, en nánar má lesa um þann hóp hér á vef umboðsmanns barna.

Börn sem eiga við vímuefnavanda að stríða

Á undanförnum árum hefur umboðsmaður barna haft verulegar áhyggjur af stöðu barna sem stefna eigin velferð í hættu vegna vímuefnaneyslu og hefur hann meðal annars bent á að úrræði fyrir þessi börn skorti sárlega. Umboðsmaður barna taldi því ástæðu til þess að ræða sérstaklega við börn sem eru í þessari stöðu og heyra sjónarmið þeirra um það hvers vegna þau byrjuðu í neyslu, hvaða aðstoð og þjónusta hafi reynst þeim vel og hvað þurfi helst að bæta. Umboðsmaður barna óskaði því eftir samstarfi við SÁÁ til þess að ræða við börn sem voru í meðferð á unglingadeildinni á Vogi

Í október 2014 voru haldnir tveir fundir með börnum og ungmennum sem voru í meðferð á Vogi. Sálfræðingur á vegum SÁÁ sat fundina ásamt tveimur starfsmönnum umboðsmanns barna. Alls voru sjö ungmenni á aldrinum 16 til 19 ára í meðferð á þessum tíma, sex drengir og ein stúlka.  Tveir úr hópnum voru að koma í meðferð í fyrsta sinn en aðrir höfðu farið í meðferð áður. Flest höfðu þau reynslu af öðrum úrræðum, til dæmis Stuðlum og BUGL. 

Á fundunum deildu þátttakendur persónulegri reynslu sinni og sögðu frá mjög viðkvæmum málum sem tengjast þeim og fjölskyldum þeirra. Umboðsmaður barna er þakklátur fyrir það traust sem honum var sýnt. Þessar frásagnir hafa nýst í störfum embættisins og munu tvímælalaust gera það áfram. Til þess að vernda viðkomandi einstaklinga verður í þessari samtekt einungis fjallað stuttlega um nokkur almenn atriði sem rædd voru á fundinum.

Reynsla af barnavernd og meðferðarúrræðum

Þegar starfsmenn umboðsmanns barna hittu hópinn í fyrsta sinn fóru sumir þátttakendur í vörn vegna þess að þeir héldu að heimsóknin væri á vegum barnaverndar. Allir þátttakendur höfðu einhverja reynslu af barnavernd. Nokkrir þátttakendur voru með verulega neikvætt viðhorf til barnaverndar og vildu einungis tjá sig eftir að hafa gengið úr skugga um að umboðsmaður barna væri ekki hluti af barnaverndarkerfinu. Einungis einn þátttakandi taldi sig hafa átt góð samskipti við barnavernd, en hann nefndi að ráðgjafi á vegum barnaverndar hefði hjálpað sér mikið og veitt mikilvægan stuðning. 

Þátttakendur virtust almennt hafa jákvæða reynslu af meðferðinni. Þeir töldu skipta miklu máli að ungmenni vildu sjálf fara í meðferð, frekar en að vera þvinguð af foreldrum eða barnavernd.

„Þú lendir bara í neyslu“

Þátttakendur töldu erfitt að svara því hvers vegna börn og ungmenni byrja í neyslu, eða eins og einn þátttakandi sagði: „Þú lendir bara í neyslu, það er einhvern veginn óhjákvæmilegt“. Margir þátttakendur voru með fjölþættan vanda, svo sem ADHD, þunglyndi, kvíða og reiðivandamál.

Allir þátttakendur töluðu um kannabisneyslu, en hluti hafði einnig notað sterkari efni. Þeir nefndu að grasið deyfði alla löngun og að það væri eiginlega sjálfgefið að maður stundar ekki íþróttir eða tómstundir í slíkri neyslu.

Vinir, fyrirmyndir, líðan, einelti og skólaganga eru meðal þeirra atriða sem þátttakendur töldu hafa haft áhrif á sína neyslu. Þar að auki nefndu þátttakendur hópamyndun og hópþrýsting sem sérstakan áhættuþátt neyslu. Þeir töluðu um hversu mikilvægt það væri að vera viðurkenndur af hópnum, þ.e. vera hluti af honum en ekki utan hans.

„Skólinn hefur aldrei gert neitt“

Allir þátttakendur nema einn höfðu slæma reynslu af skólakerfinu og töldu sig ekki hafa fengið stuðning við hæfi. Meirihluti þátttakenda voru þolendur eineltis í grunnskóla en þar að auki hafði einn þátttakandi verið gerandi. Tveir þátttakendur tengdu neyslu sína beint við eineltið og neikvæðar afleiðingar þess. Flestir töldu að skólinn hefði ekki gert neitt til að hjálpa þeim og voru þeir mjög sárir vegna þess. Þeir voru vissir um að leið þeirra hefði orðið önnur ef þeir hefðu fengið einhverja aðstoð fyrr, t.d. frá skólanum.

Einn þátttakandi nefndi sérstaklega neikvætt viðhorf starfsfólks skólans í sinn garð. Hann sagði að honum hefði alltaf verið kennt um allt og aldrei gefið tækifæri til að bæta sig. Þá sagði hann að það hafi verið ákveðinn hræðsluáróður gegn honum, sem gerði það að verkum að aðrir nemendur voru hræddir við hann. Honum fannst skólinn bregðast sér.

Þátttakendur ræddu mikið um mikilvægi skólans. Að þeirra mati þarf að auðvelda aðgengi að fagaðilum og ráðgjöfum fyrir nemendur sem líður illa.

Þátttakendur töldu ákveðna breytingu eiga sér stað í framhaldsskóla, þar sem ekki væri eins mikil áhersla á að allir væri steyptir í sama mótið. Einn þáttakandi sagði: „Enginn þarf að vera einn í menntó, það falla allir inn í einhvern hóp í framhaldsskólanum. Það er allt öðruvísi en í grunnskólanum.“ Meirihluti þátttakanda höfðu þó annaðhvort ekki byrjað í framhaldsskóla eða hætt fljótlega vegna mætingar eða af öðrum ástæðum.

„Fjölskyldan veit ekkert hvað hún á að gera í þessum aðstæðum“

Flestir þátttakendur töluðu vel um fjölskylduna sína og töldu hana hafa stutt vel við bakið á sér. Þó var einn þátttakandi sem taldi fjölskylduna hafa brugðist sér, en hann var búin að vera í fóstri og ýmsum öðrum úrræðum á vegum barnaverndar.

Þátttakendur töluðu um þau áhrif sem neyslan hefur á alla fjölskylduna og mikilvægi þess að veita henni stuðning. Einn þátttakandi var sérstaklega ósáttur við að barnavernd hefði látið eins og það væri foreldrum hans að kenna að hann væri í neyslu, en hann taldi svo ekki vera.

„Eru óbeint að biðja um hjálp“

Þátttakendur töldu þörf á að hlusta betur á  börn og ungmenni sem eru í þeirra stöðu. Starfsfólk skóla og annað fagfólk þarf að vera vakandi fyrir hegðun og líðan barna, því það er erfitt að biðja beint um hjálp. Unglingar grípa því frekar til annarra leiða til þess að líða betur. Þau töldu börn og ungmenni í raun vera biðja óbeint um hjálp með því að hegða sér illa eða byrja í neyslu.

Einn þátttakandi sagði frá því að hann hafi sjálfur ákveðið að leita sér aðstoðar, einungis fjórum mánuðum áður en hann varð 18 ára. Þrátt fyrir að hann leitaði sjálfur eftir aðstoð fannst honum ekkert vera aðhafast í sínum málum. Stutt var í að hann yrði 18 ára og hann vissi að eftir það gæti barnavernd ekki veitt honum aðstoð. Honum fannst þetta erfitt ferli og upplifði það sterkt að ekki hafi verið hlustað á sig.

Mikilvæg skilaboð

Umboðsmaður barna tekur undir þau mikilvægu skilaboð sem komu frá þeim ungmennum sem hann ræddi við. Ljóst er að það þarf að ræða mun oftar við börn og ungmenni og taka tillit til sjónarmiða þeirra og reynslu af kerfinu.

Ein mikilvægasta forvörnin gegn áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna er að stuðla að því að öllum börnum líði vel, bæði heima hjá sér og í skólanum. Jákvæður skólabragur og umhverfi þar sem allir nemendur upplifa jákvætt viðhorf og virðingu er því ein öflugasta forvörnin. Ennfremur þarf að tryggja að allir nemendur fái þann stuðning sem þeir þurf. Þó að þróunin í þessum málum hafi að mörgu leyti verið jákvæð á undanförnum árum er ljóst að enn eru of margir nemendur sem líður illa í skólanum og fá ekki stuðning við hæfi, eins og meðal annars kemur fram í frásögnum þátttakenda.

Mikilvægt er að auðvelda aðgengi barna að barnavernd. Af umræðum í hópnum sem og skilaboðum frá öðrum börnum sem hafa leitað til umboðsmanns barna er ljóst að börnum finnst oft erfitt að leita til barnaverndar. Eins og staðan er núna er of mikið álag á barnavernd og hver starfsmaður með of mörg mál. Er því hætta á að barnavernd geti ekki sinnt öllum málum eins vel og best væri á kosið.

Loks telur umboðsmaður barna þörf á nýju úrræði fyrir börn sem eiga við alvarlegan vímuefnavanda að stríða þar sem verklag og aðstæður taka sérstaklega mið af þörfum barna, sjá nánar hér á vef umboðsmanns barna.  


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica