7. september 2023

Borðstjórar á barnaþing

Umboðsmaður barna auglýsir eftir borðstjórum á aldrinum 18 - 30 ára til að taka þátt á þjóðfundi barnaþings.

Umboðsmaður barna auglýsir eftir um það bil 30 borðstjórum á þjóðfund barnaþings sem haldinn verður í Hörpu föstudaginn 17. nóvember frá 09:00 - 17:00. Þátttakendur barnaþings eru á aldrinum 11-15 ára sem valdir voru með slembivali úr Þjóðskrá og mun fjölbreyttur hópur tæplega 150 barna af landinu öllu taka þátt. Tilgangur barnaþings er að skapa rými og tækifæri fyrir börn til að koma saman og ræða málefni að eigin vali sem varða þau. Niðurstöður þingsins verða afhentar forsætisráðherra og nýttar í stefnumótun umboðsmanns barna og stjórnvalda í málefnum barna. Á þinginu gefst þátttakendum tækifæri til þess að ræða sín hugðarefni við önnur börn en einnig við alþingismenn, fulltrúa stofnana ríkis og sveitarfélaga og vinnumarkaðarins.

Skráning borðstjóra

Barnaþing er haldið á tveggja ára fresti en þar fara m.a. fram umræður með þjóðfundarfyrirkomulagi undir stjórn borðstjóra. Borðstjórarnir sjá um að umræðan á borðunum gangi vel fyrir sig, taka saman niðurstöður borðsins, og tryggja að allir sem það kjósa fái tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri.

Borðstjórar þurfa að uppfylla eftirfarandi hæfniskröfur:

  • Vera á aldrinum 18 - 30 ára. 
  • Hafa góða samskiptahæfni og jákvætt viðhorf.
  • Hafa reynslu af starfi með börnum og/eða ungu fólki.
  • Vera tilbúin/n/ð til þess að hlusta á fjölbreytt sjónarmið barna og tryggja að samræður barnanna fari fram á jafningjagrundvelli. 

Haldnir verða tveir undirbúningsfundir fyrir barnaþingið, þar sem verður farið ítarlega yfir þjóðfundinn og hlutverk borðstjóranna. Á fundunum verður fræðsla og farið yfir hagnýt atriði um það hvernig hægt er að grípa inn í umræðu sem er í neikvæðum farvegi. Þar gefst einnig tækifæri fyrir borðstjórana að spyrja spurninga um það sem kann að vera óljóst. Allir borðstjórar verða að mæta á þessa fundi.

Aðilar innan félagasamtaka, félagsmiðstöðva, ungmennaráða og aðrir sem starfa með börnum eða málefnum tengdum þeim eru sérstaklega hvattir til að senda umsókn með því að fylla út eyðublaðið hér að neðan, fyrir 1. október næstkomandi. Umsækjendur verða upplýstir fljótlega um það hvort þeir hafa verið valdir sem borðstjórar. Umsækjendur þurfa að vera með hreint sakavottorð.

Hvað fá borðstjórar út úr því að taka þátt?

  • Taka þátt í því að efla lýðræðislega þátttöku barna á Íslandi.
  • Styrkja eigið tengslanet.
  • Fá reynslu af fundarstjórn í þjóðfundarfyrirkomulagi með börnum.
  • Fá víðtæka reynslu í umræðustjórn sem nýtist víða.
  • Öðlast þekkingu á verkefnum umboðsmanns barna.
  • Vera þátttakandi í uppbyggingu barnaþings til framtíðar.

Borðstjórar fá sérstaka viðurkenningu frá umboðsmanni barna fyrir sitt framlag. Einnig fá þeir gjafakort sem hægt er að nota í öllum verslunum landsins.

Skráðu þig til leiks!


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica