8. maí 2021

Barnaþing haldið í annað sinn

Á næstu dögum eiga 350 börn um land allt von á bréfi frá umboðsmanni barna. Bréfið inniheldur boð á Barnaþing sem haldið verður í Hörpu í Reykjavík 18. - 19. nóvember nk. Barnaþingið er nú haldið í annað sinn en fyrsta þingið var haldið í Hörpu 2019 og þótti takast einstaklega vel.  

Börnin sem fá boð á þingið voru valin með slembivali úr þjóðskrá til að fá sem fjölbreyttastan hóp til þátttöku en markmið Barnaþings er að efla lýðræðislega þátttöku barna og virkja þau í umræðu um málefni sem varða þau. Niðurstöður umræðunnar verða kynntar ríkisstjórn sem framlag þingsins til stefnumótunar í málefnum barna.

  • Þingið verður sett þann 18. nóvember með formlegri dagskrá en þann 19. nóvember verður umræða meðal barnanna í þjóðfundarstíl og munu fullorðnir einnig koma að umræðunni.
  • Ásamt barnaþingmönnum verður alþingismönnum, fulltrúum stofnana ríkis og sveitarfélaga, aðilum vinnumarkaðarins og frjálsum félagasamtökum boðið á þingið.

Kveðið er á um rétt barna til þess að hafa áhrif í 1. mgr. 12. gr. Barnasáttmálans, en þar kemur fram að tryggja skuli barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varðar, og að tekið skuli tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Embætti umboðsmanns barna hefur á síðustu misserum lagt ríka áherslu á að við mótun stefnu og töku ákvarðana sem varða börn sé ávallt leitað eftir og tekið tillit til sjónarmiða þeirra, enda búa börn yfir einstakri reynslu og þekkingu sem og innsýn í málefni og reynsluheim barna.

  • Barnaþingið er mikilvægur þáttur í samráði við börn á aldrinum 11 – 15 ára sem alla jafna hafa fá tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri við stjórnvöld. Vigdís Finnbogadóttir er sérstakur verndari barnaþingsins en hún hefur unnið ötullega að málefnum barna og barnamenningu.

 

Með fyrsta barnaþinginu hófst nýr kafli í réttindamálum barna og samráði við börn og nú er unnið að því að niðurstöður barnaþings verði nýttar með markvissum hætti við opinbera stefnumótun hjá stjórnvöldum,

segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna.  


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica