2. mars 2022

Barnaþing

Barnaþing hefst á morgun með hátíðardagskrá sem hefst klukkan 15. 

Hátíðardagskráin er öllum opin og er enn hægt að skrá sig á hlekknum hér. Á hátíðardagskránni verður boðið upp á lifandi dagskrá með virkri þátttöku barna og fullorðinna. Ráðherrar munu eiga óformlegt spjall við fundarstjóra sem verða úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna og nokkrir einstaklingar sem eru jákvæðar fyrirmyndir munu rifja upp æskuminningar og ræða leiðir til að hafa áhrif á samfélagið. Þá mun Bogi Ágústsson, fréttamaður, ræða við fundarstjóra um mikilvægi lýðræðisins. Búast má við fjörugri dagskrá með loftfimleikum, söng- og dansatriðum, og þá munu þeir Sveppi og Villi leika á als oddi, en þeir unnu kosningu meðal barnaþingfulltrúa um skemmtiatriði hátíðardagskrár. Verndari barnaþings er Vigdís Finnbogadóttir.

Þann 4. mars fara svo fram umræður með þjóðfundarfyrirkomulagi í Silfurbergi í Hörpu. Fundinn setur Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Ríflega 120 börn á aldrinum 11-15 ára munu hefja umræðuna um morguninn á vinnuborðum en strax eftir hádegi mæta fullorðnir boðsgestir til að taka þátt í áframhaldandi umræðu um þau umfjöllunarefni sem börnin hafa valið.

Barnaþing er nú haldið í annað sinn en samkvæmt lögum um umboðsmann barna er honum ætlað að halda þing um málefni barna á tveggja ára fresti og bjóða til þingsins alþingismönnum, fulltrúum sveitarfélaga, stofnana, félagasamtaka og atvinnulífsins. Í aðdraganda þessa barnaþings hafa barnaþingmenn valið þrjá málaflokka sem þau hyggjast leggja áherslu á: Mannréttindi, umhverfismál og menntun.

Barnaþingi er ætlað að efla börn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu um málefni sem snerta þau og veita sjónarmiðum þeirra farveg inn í almenna stefnumótun og þjóðfélagsumræðu í samræmi við 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hér er um einstæðan viðburð að ræða á heimsvísu enda börnin valin með slembivali úr þjóðskrá með það að markmiði að ná til sem fjölbreyttasts hóps barna frá ólíkum stöðum á landinu. Einnig er lögð áhersla á að tryggja þeim börnum stuðning sem á því þurfa að halda sem og táknmálstúlkun og túlk á pólsku. Þá er embætti umboðsmanns barna í samvinnu við Þroskahjálp um sérstakan stuðning við fötluð börn á þinginu.

Í þingsályktunartillögu um barnvænt Ísland sem Alþingi samþykkti síðast liðið vor er kveðið á um að niðurstöður barnaþings verði nýttar markvisst við opinbera stefnumótun hjá stjórnvöldum og eftirfylgni með niðurstöðunum innan stjórnarráðsins verði tryggð. Barnaþing er því einn mikilvægasti samráðsvettvangur fyrir börn hér á landi og þar fer fram mikilvæg samræða barna og fullorðinna um þau mál sem á börnum brenna.

Barnaþing er einstakur vettvangur fyrir börn sem er nú að festast í sessi. Síðustu tvö ár hafa reynt mikið á börn þar sem mikil röskun hefur orðið á skólagöngu, tómstundum og félagslífi þeirra. Það hefur því sjaldan verið jafn mikilvægt að hlusta á sjónarmið barna eins og einmitt núna

segir umboðsmaður barna, Salvör Nordal um þingið. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica