28. september 2012

Barnasáttmálinn - frá réttindum til raunveruleika - Námskeið

Umboðsmaður barna stendur fyrir námskeiði um innleiðingu Barnasáttmálans fimmtudaginn 18. október næstkomandi kl. 9-11. Fyrirlesari er Hjördís Eva Þórðardóttir, meistaranemi í mannréttindum barna við Háskólann í Stokkhólmi.

Umboðsmaður barna stendur fyrir námskeiði um innleiðingu Barnasáttmálans fimmtudaginn 18. október næstkomandi. Fyrirlesari er Hjördís Eva Þórðardóttir, meistaranemi í mannréttindum barna við Háskólann í Stokkhólmi. Hjördís er á lokastigum námsins og hún vinnur að meistararitgerð sinni ásamt því að sinna verkefnastjórnun við innleiðingu Barnasáttmálans í Garðabæ.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um hagnýta nálgun við Barnasáttmálann, innleiðingu hans og erindi við íslenskt samfélag. Skoðaðar verða hinar siðferðislegu, uppeldisfræðilegu og pólitísku hliðar sem sáttmálinn hefur og mikilvægi þeirra ef innleiða á réttindi Barnasáttmálans í íslenskt samfélag. Jafnframt verður skoðað með hvaða hætti hægt er að nýta Barnasáttmálann sem verkfæri til að auka þátttöku barna í samfélaginu.

Til að sáttmálinn geti orðið að veruleika á Íslandi er nauðsynlegt að fræða börn og fullorðna um réttindi barna á markvissan hátt. Auk þess er mikilvægt að tryggja að allir þeir sem bera ábyrgð á börnum á einn eða annan hátt þekki til og skilji hina einstöku sýn á stöðu barna í samfélaginu sem sáttmálinn boðar. En hvernig náum við því markmiðið og hvers vegna er það mikilvægt? Með hvaða hætti getum við tryggt að þau réttindi sem Barnasáttmálinn kveður á um verði að veruleika fyrir börn á Íslandi? Þátttakendum gefst kostur á að ræða þessi mál og skiptast á skoðunum um ýmis álitamál og taka virkan þátt á námskeiðinu.

Námskeiðið á erindi til allra sem hafa áhuga á réttindum barna og er sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem vinna með börnum eða taka ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti.

Námskeiðið verður haldið í Norræna húsinu fimmtudaginn 18. október kl. 09:00-11:00. Aðgangur er ókeypis er mikilvægt er að þátttakendur skrái sig með því að senda tölvupóst á netfangið ub@barn.is.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica