30. maí 2022

Barnamenningarsjóður úthlutar styrkjum

Úthlutun var tilkynnt á degi barnsins við athöfn í skála Alþingis en sjóðurinn styrkir 34 verkefni á þessu ári. Þetta er í fjórða sinn frá stofnun sjóðsins sem veittir eru styrkir til barnamenningar. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra ávörpuðu fulltrúa verkefnanna af þessu tilefni og Drengjakór Reykjavíkur flutti tónlistaratriði.

Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknirnar og forsætisráðherra samþykkti tillögu stjórnar sjóðsins. Sem fyrr hefur fagráðið horft til fjölbreyttra þarfa barna og ungmenna, þar koma til álita þættir á borð við búsetu, aldur, kyn, uppruna og efnahag. Þessar áherslur má finna í reglum sjóðsins og þær eru í góðu samræmi við fjölda þeirra umsókna sem taka til fjölmenningar, jafnrar stöðu stúlkna og drengja, málefna hinsegin ungmenna og verkefna sem tengd eru hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þá má í ár greina fjölgun þverfaglegra verkefna þar sem saman koma listir og vísindi. Einnig eru verkefni tengd kvikmyndum og kvikmyndagerð áberandi þetta árið. Hæstu styrkina fá Listasafn Árnesinga fyrir verkefnið Smiðjuþræðir, þar sem 6 listamenn og hönnuðir vinna með grunnskólanemum í Árnessýslu, og Sviðslistamiðstöð Íslands fyrir verkefnið Sviðslistir fyrir alla, sem er unnið í samvinnu við List fyrir.

Í rökstuðningi fagráðsins segir að umsóknirnar sem bárust beri fagurt vitni ástríðu og hugmyndaauðgi þeirra sem sinna skapandi störfum með börnum og í þágu barna. Þar eru á ferðinni fagmenn og frumkvöðlar sem sinna flóknum verkefnunum af djúpri þekkingu og einlægri sköpunargleði. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá í verkefnunum áhrif alþjóðlegrar stefnumörkunar á borð við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun, sem ber vott um flókið samspil menningarlegra þátta og sem setja mun mark sitt á framtíð þeirra kynslóða sem nú vaxa úr grasi.

Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins með ályktun Alþingis á hátíðarfundi 18. júlí 2018. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica