23. september 2015

Barnakot á Litla-Hrauni

Umboðsmaður barna hefur sent Fangelsismálastofnun bréf þar sem spurst er fyrir um lokun Barnakots um helgar.

Börn sem eiga foreldri í fangelsi þurfa sérstakan stuðning til þess að geta notið umgengni við foreldri sitt. Í Barnakoti á Litla-Hrauni,  er boðið upp á sérstaka aðstöðu fyrir börn sem heimsækja foreldri sitt sem situr inni á Litla-Hrauni. 

Sú ákvörðun að takmarka opnunartíma Barnakots hefur mikil áhrif á börn fanga og möguleika þeirra til þess að njóta samvista við foreldra sína í sem bestu umhverfi miðað við aðstæður

Umboðsmaður barna hefur sent Fangelsismálastofnun bréf þar sem spurst er fyrir um lokun Barnakots um helgar. Bréfið er birt hér að neðan:

Fangelsismálastofnun
Austurströnd 5
170 Seltjarnarnes

 

Reykjavík, 18. september 2015

 

Efni: Barnakot

Umboðsmaður barna hefur fengið ítrekaðar ábendingar vegna þeirrar ákvörðunar að loka Barnakoti, heimsóknaaðstöðu fyrir börn fanga á Litla-Hrauni, um helgar.

Öll börn eiga rétt á því að njóta samvista við báða foreldra sína og er þessi réttur meðal annars tryggður í 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013 og 46. gr. barnalaga nr. 76/2003. Auk þess nýtur gagnkvæmur umgengnisréttur barns og foreldris verndar ákvæða um friðhelgi fjölskyldunnar, sbr. meðal annars 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Skylt er að tryggja þessi réttindi án mismununar á grundvelli stöðu barns eða foreldra þess, sbr. 2. gr. Barnasáttmálans og 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Börn sem eiga foreldri í fangelsi þurfa sérstakan stuðning til þess að geta notið þessara réttinda til jafns við önnur börn. Hefur umboðsmaður barna því lagt sérstaka áherslu á að öll fangelsi hér á landi bjóði upp á barnvæna aðstöðu til heimsókna, sbr. til dæmis bls. 8 í skýrslu umboðsmanns barna til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2010, sem er aðgengileg á vef embættisins, barn.is.  

Umboðsmaður barna fagnaði því framtaki að opna Barnakot á Litla-Hrauni, enda er þar boðið upp á aðstöðu sem tekur sérstakt tillit til hagsmuna og þarfa barna. Umboðsmaður gagnrýnir þó þá ákvörðun að loka Barnakoti um helgar. Leiðir það til þess að börn þurfa að taka frí frá skóla til þess að þau geti notið aðstöðunnar í Barnakoti. Þá er líklegt að forsjáraðili barns þurfi að taka sér frí frá vinnu til þess að geta fylgt því í heimsóknina. Þessar hindranir samræmast illa réttindum barna og eru líklegar til þess að draga úr möguleikum þeirra til þess að heimsækja foreldri á Litla-Hrauni.

Samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans og 2. mgr. 1. gr. barnalaga á það sem er börnum fyrir bestu ávallt að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Ljóst er að sú ákvörðun að takmarka opnunartíma Barnakots hefur mikil áhrif á börn fanga og möguleika þeirra til þess að njóta samvista við foreldra sína í sem bestu umhverfi miðað við aðstæður. Á umboðsmaður barna því erfitt með að sjá að sú ákvörðun geti talist í samræmi við fyrrnefnd ákvæði. Má í því sambandi benda á að ávallt ber að leita annarra leiða til hagræðingar en að skerða þjónustu við börn.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 83/1994 er stjórnvöldum skylt að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu. Óskar hann því eftir svörum við eftirfarandi spurningum.

1)      Var sérstakt fjármagn ætlað í opnun og rekstur Barnakots við gerð síðustu fjárhagsáætlunar?
a. Ef svo er, hefur það fjármagn að öllu leyti verið nýtt?

2)      Hvaða ástæður lágu að baki þeirri ákvörðun að takmarka opnunartíma Barnakots? Var sérstaklega metið hvaða áhrif sú ákvörðun myndi hafa á hagsmuni og réttindi barna?

Að lokum óskar umboðsmaður barna eftir öðrum upplýsingum sem máli kunna að skipta í þessu sambandi. Endilega hafið samband í síma 552-8999 ef frekari upplýsinga er óskað.

 

Virðingarfyllst,

_____________________________________

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna 

 

Afrit:
Innanríkisráðuneytið.
Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður fangelsisins Litla-Hrauns. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica