21. janúar 2011

Bann við auglýsingum í barnatímum ekki brot gegn tjáningarfrelsi

Í sameiginlegri umsögn sinni andmæla talsmaður neytenda og umboðsmaður barna því sjónarmiði ýmissa hagsmunaaðila að fjölmiðlafrumvarp feli í sér brot gegn tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Í sameiginlegri umsögn sinni andmæla talsmaður neytenda og umboðsmaður barna því sjónarmiði ýmissa hagsmunaaðila að fjölmiðlafrumvarp feli í sér brot gegn tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda sendu nýverið menntamálanefnd Alþingis sameiginlega umsögn um frumvarp til laga um fjölmiðla. Þar er m.a. tekið undir tillögu mennta- og menningarmálaráðherra um bann við auglýsingum í dagskrá sem er ætluð börnum yngri en 12 ára sem og 5 mínútum fyrir og eftir slíka útsendingu.

Spornað gegn auglýsingum á óhollustu
Í frumvarpinu kemur m.a. fram að óheimilt sé að hvetja börn til neyslu á óhollum matvælum; í umsögn umboðsmanns barna og talsmanns neytenda segir um það nýmæli:

Í 38. gr. frumvarpsins er að finna sambærilegt ákvæði og er nú að finna í núgildandi útvarpslögum nr. 53/2000. Þó er að finna þá nýjung í c-lið að sérstaklega er fjallað um það að ekki skuli hvetja börn til neysla á matvælum og drykkjarvörum sem ekki er mælt með að börn neyti í óhóflegum mæli, svo sem matvæli sem innihalda mikla fitu, transfitusýru, salt/natríum og sykur. Embættin fagna sérstaklega þessari nýjung, enda er hún í samræmi við fyrrnefndar leiðbeinandi reglur um neytendavernd barna. Í því sambandi hafa umboðsmaður barna og talsmaður neytenda hvatt til þess að stjórnvöld taki upp opinbert hollustumerki sem hægt væri að miða við.

Tekið skal fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur enn ekki brugðist við umræddri tillögu embættanna frá mars 2009 um opinbert en valfrjálst hollustumerki.

Ekki brot gegn tjáningarfrelsi að takmarka auglýsingar í barnatímum
Í umsögn sinni andmæla embættin því sem fram kemur í umsögn SÍA um að með frumvarpinu sé brotið gegn tjáningarfrelsi - með þessum röksemdum:

Í því sambandi má benda á að skylt er í lögum að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í athugasemdum í greinargerð með ákvæðinu kemur m.a. fram að ákvæðið geti réttlætt undantekningar frá öðrum reglum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar - ef slíkar undantekningar eru nauðsynlegar til verndar börnum. Á það m.a. við um tjáningarfrelsi. Er því ljóst að takmarkanir á auglýsingum til verndar börnum teljast ekki brot á tjáningarfrelsi auglýsenda.

Í greinargerð með þessu stjórnarskrárákvæði segir m.a. að um sé að ræða nýmæli með fyrirmynd í alþóðasamningum en í því felist skylda Alþingis ...

... til að setja lög til að veita börnum fyrrnefnda tryggingu. Þetta ákvæði getur þó einnig falið í sér öllu veigameiri efnisreglu því unnt gæti verið að sækja stoð eða áréttingu til þess fyrir heimild til undantekninga frá öðrum reglum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar ef slíkar undantekningar eru nauðsynlegar til verndar börnum.

Lög nauðsyn ef leiðbeiningar duga ekki
Bæði þessi atriði og fleira í frumvarpinu er í samræmi við leiðbeinandi reglur um mörk við markaðssókn gagnvart börnum sem embættin gáfu út fyrir tveimur árum eftir víðtækt samráð við um 100 aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig varða málefni barna og hagsmuni og réttindi neytenda. Í umsögninni segir að talsmaður neytenda og umboðsmaður hafi

ávallt tekið fram að lagabreytingar í því skyni að auka neytendavernd barna kynnu einnig að vera nauðsynlegar - einkum ef leiðbeiningar næðu ekki markmiði sínu.

Skoða umsögn umboðsmanns barna og talsmanns neytenda, dags.18. janúar 2011.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica