4. apríl 2011

Aukin neytendavernd barna með hollustumerki

Í umsögn um þingsályktunartillögu um norrænt hollustumerki, Skráargatið, segja talsmaður neytenda og umboðsmaður barna að með því ykist neytendavernd barna þar sem þá tækju gildi leiðbeiningarákvæði frá embættunum um að halda ekki öðrum matvælum að börnum.

Í umsögn um þingsályktunartillögu um norrænt hollustumerki, Skráargatið, segja talsmaður neytenda og umboðsmaður barna að með því ykist neytendavernd barna þar sem þá tækju gildi leiðbeiningarákvæði frá embættunum um að halda ekki öðrum matvælum að börnum.

Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda hafa sent Alþingi umsögn um tillögu að þingsályktun um að ...

„sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beiti sér fyrir því að unnt verði að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið á matvörur sem framleiddar eru hérlendis.“

Í umsögninni er tekið undir þingsályktunina - sem er í samræmi við tillögu sem talsmaður neytenda og umboðsmaður barna sendu ráðherra fyrir réttum tveimur árum en þar var lagt til að merkið yrði tekið upp ekki seinna en 1. janúar 2010. Embættin leggja nú til að það dragist ekki lengur en til 1. janúar 2012.

Yki neytendavernd barna
Einn ávinningurinn við slíkt merki er að þannig yrðu leiðbeiningar talsmanns neytenda og umboðsmanns barna um neytendavernd barna virkari en þar segir að ef opinbert hollustumerki verði tekið upp skuli leitast við að aðeins matvæli, sem uppfylla kröfur þess, séu nærri búðarkössum, auglýst eða markaðssett fyrir börn eða í íþróttamannvirkjum og sundlaugum.

Valfrjálst og jákvætt...
Í röksemdum embættanna fyrir þingsályktunartillögunni - og þar með eigin tillögu - segir m.a.:

„Helstu rök fyrir jákvæðu, valfrjálsu hollustumerki felast í því að þannig er hægt að leiðbeina með skjótum hætti í hraða hversdagsins þeim neytendum og foreldrum – leikum sem lærðum – sem vilja velja holl matvæli óháð þekkingu á næringarfræði eða tungumálum o.s.frv. Þá er merkið þess eðlis að einfalt er að kenna börnum hvað felst í því. Rannsóknir sýna að neysluvenjur mótast snemma og því heppilegt að hafa einfaldar leiðbeiningar á því sviði sem auðvelda börnum og fullorðnum að velja holla matvöru.

Neytendur eiga rétt á vali og upplýsingum. Fleira en verð skiptir neytendur máli, svo sem gæði, öryggi og hollusta matvöru. Með hollustumerki er það upplýsta valfrelsi neytenda gert virkara.“

... en ekki kvöð eða kostnaðarsamt
Einnig segir í umsögninni:

„Enginn sjálfkrafa kostnaður felst í því að taka upp slíkt merki. Vitneskja liggur yfirleitt fyrir um innihald matvæla hvað varðar sykur, salt, fitu, transfitusýru og trefjar. Sjáum við fyrir okkur að samkeppnislögmál og þrýstingur á þróun á hollum valkosti mun leiða markaðinn áfram í þessu efni.“

***

Lesa umsögnina.

Lesa tillögu embættanna.

Lesa þingsályktunartillöguna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica