4. september 2006

Auglýst eftir ábendingum vegna heildarendurskoðunar grunnskólalaga

Menntamálaráðuneytið auglýsir eftir athugasemdum og ábendingum frá almenningi þar sem fólki gefst kostur á að koma á framfæri skoðunum sínum á því hvaða meginsjónarmið ætti að hafa að leiðarljósi við endurskoðun grunnskólalaga og hver framtíðarsýn eigi að vera í málefnum grunnskólans.

Í fréttatilkynningu frá menntamálaráðneytinu 31. ágúst segir að nefnd skipuð af menntamálaráðherra vinni nú að heildarendurskoðun laga um grunnskóla nr. 66/1995, með síðari breytingum. Nefndinni er m.a. ætlað að hafa til hliðsjónar nýjustu breytingar á grunnskólalögum, reynsluna af flutningi grunnskólans til sveitarfélaga, áform um breytta námsskipan til stúdentsprófs og aukna samfellu og sveigjanleika í skólastarfi. Lögð er áhersla á að nefndin hafi víðtækt samstarf við ýmsa hagsmunaaðila við endurskoðun laganna.

Nefndin hefur á undanförnum mánuðum haldið fundi með fjölmörgum hagsmunaaðilum þar sem þeim hefur gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Einnig hefur nefndin hitt fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Nefndin hefur haldið fundi víða um land með fulltrúum sveitarstjórna, starfsmanna skóla og foreldrum og einnig kynnt sér sjónarmið grunnskólanemenda.

Þessu víðtæka samráðsferli nefndarinnar er að ljúka um þessar mundir en nefndin hefur ákveðið að auglýsa eftir athugasemdum og ábendingum frá almenningi þar sem fólki gefst kostur á að koma á framfæri skoðunum sínum á því hvaða meginsjónarmið ætti að hafa að leiðarljósi við endurskoðun grunnskólalaga og hver framtíðarsýn eigi að vera í málefnum grunnskólans. Einnig eru allar athugasemdir við grunnskólalögin vel þegnar. Hægt er að koma ábendingum á framfæri við Guðna Olgeirsson starfsmann nefndarinnar, gudni.olgeirsson@mrn.stjr.is fyrir lok september. Nefndin stendur að málþingi um framtíðarsýn í málefnum grunnskólans laugardaginn 11. nóvember nk. og verður það nánar auglýst síðar. Stefnt er að því að nefndin ljúki störfum í byrjun árs 2007.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica