27. ágúst 2025

Ársskýrsla 2024

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, afhenti í gær Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, ársskýrslu embættisins fyrir árið 2024.

Í skýrslunni er farið yfir starfsemi embættisins og helstu verkefni þess árið 2024. Fjallað er um bið barna eftir þjónustu en umboðsmaður barna hefur frá árinu 2022 birt með reglubundnum hætti yfirlit yfir fjölda barna sem bíða eftir þjónustu hjá opinberum stofnunum.

Í skýrslunni eru einnig rakin tíð bréfaskipti á árinu við mennta- og barnamálaráðuneytið vegna skorts á úrræðum fyrir börn sem eru í miklum vanda vegna áhættuhegðunar og fíknivanda og þess neyðarástands sem skapast hefur í þeim málaflokki. Brýnt er að stjórnvöld leiti allra leiða til að tryggja þessum börnum þá nauðsynlegu þjónustu sem þau eiga rétt á lögum samkvæmt. 

Þá voru leiðbeiningar umboðsmanns barna um það hvernig framkvæma skuli mat á því sem er barni fyrir bestu uppfærðar árið 2024. Leiðbeiningarnar byggja að mestu á fyrirmynd frá umboðsmanni barna í Noregi. Mikil áhersla var lögð á að hafa leiðbeiningarnar skýrar og aðgengilegar. Embættið hefur lagt ríka áherslu á að innleitt verði slíkt mat þegar ráðist er í aðgerðir sem varða börn með beinum eða óbeinum hætti.

Í skýrslunni er einnig fjallað sérstaklega um fund umboðsmanns barna með börnum frá Grindavík sem haldinn var í mars í Laugardalshöll og var samstarfsverkefni embættisins við bæjaryfirvöld Grindarvíkur. Markmið fundarins var að gefa börnunum tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri og fá þeirra hugmyndir um hvernig stjórnvöld gætu staðið betur vörð um þeirra réttindi en Grindvíkingum var gert að yfirgefa heimili sín undir lok árs 2023 vegna jarðskjálfta og eldgosa. Rúmlega 300 börn sóttu fundinn og tóku þar virkan þátt. Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra, ávarpaði fundinn og svaraði spurningum barnanna.

Árið 2024 fóru fram tvær krakkakosningar en krakkakosningar eru samstarfsverkefni umboðsmanns barna og KrakkaRÚV. Fyrst voru krakkakosningar haldnar í tengslum við forsetakosningar og fóru fram í maí 2024. Alls tóku 5.394 nemendur frá 55 grunnskólum þátt í kosningunum. Í nóvember fóru fram krakkakosningar í tengslum við Alþingiskosningar. Alls tóku 76 grunnskólar þátt og um 6100 nemendur. Þetta er mesta þátttaka frá upphafi Krakkakosninga en þær fóru fyrst fram árið 2016.

Ársskýrslan er gefin út rafrænt og er hægt að nálgast hér


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica