9. ágúst 2023

Ársskýrsla 2022

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, afhenti í dag Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra ársskýrslu embættisins fyrir árið 2022.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, afhenti í dag Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra ársskýrslu embættisins fyrir árið 2022.

Í skýrslunni er farið yfir starfsemi embættisins og helstu verkefni þess árið 2022. Fjallað er um samráð við börn og barnaþing sem haldið var í mars á síðasta ári eftir að öllum sóttvarnarreglum var aflétt. Í september var haldin í Hörpu ráðstefna og ársfundur evrópusamtaka umboðsmanna barna (ENOC). Meginefni ráðstefnunnar var loftslagsréttlæti og réttindi barna. Ráðstefnan tókst afar vel og hana sóttu um hundrað manns, meðal annars börn, frá fjölmörgum Evrópuríkjum.

IMG_2103

Embætti umboðsmanns barna hóf á árinu þrjú mikilvæg verkefni sem lúta að stöðu barna í viðkvæmum aðstæðum. Í fyrsta lagi hóf embættið réttindagæslu sem er tilraunaverkefni til tveggja ára sem kveðið er á um í aðgerðaáætlun stjórnvalda um innleiðingu Barnasáttmálans og samþykkt var á Alþingi vorið 2021. Markmið verkefnisins er að börn og/eða foreldrar þeirra geti leitað stuðnings og ráðgjafar hjá aðila sem aðstoði þau við að leita réttar barns hjá stjórnvöldum telji þau brotið gegn réttindum þess. Þá hóf embættið að birta upplýsingar um fjölda þeirra barna sem bíða eftir þjónustu hjá ýmsum aðilum en langir biðlistar eftir greiningum og margvíslegri þjónustu hefur verið viðvarandi vandamál árum saman. Loks beindi embættið sérstaklega sjónum að stöðu barna sem eiga foreldra í fangelsum en það er mjög aðkallandi að bæta aðstöðu barna til að viðhalda tengslum við foreldra sína á meðan á afplánun stendur.

Ársskýrsluna má finna á rafrænu formi.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica