28. janúar 2011

Árið 2010 tileinkað börnum í Reykjavík - Upplýsingar frá Reykjavíkurborg

Í byrjun árs 2010 tileinkaði borgarstjórn Reykjavíkur árið 2010 velferð barna. Í desember sama ár óskaði umboðsmaður barna eftir upplýsingum um þær aðgerðir sem gripið hafi verið til, til að tryggja velferð barna í borginni. Nú hefur svarbréf borist og er það birt hér.
 Á fundi borgarstjórnar þann 5. janúar 2010 var samþykkt einróma tillaga borgarfulltrúa um að árið 2010 yrði tileinkað velferð barna í Reykjavík. Í greinargerð með tillögunni sagði að velferð barna væri viðvarandi verkefni sveitarstjórna, en við núverandi aðstæður væri ástæða til að leggja enn sterkari áherslu á það. Einnig kom fram að allir flokkar hefðu gert sitt besta til að forgangsraða í þágu barna og velferðar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010.  Þá sagði orðrétt: „Brýnt er að áfram verði unnið á þeirri vegferð, þannig að starf á vegum borgarinnar í þágu menntunar, uppeldis og velferðar barna verði sérstaklega í forgrunni á nýju ári. Lagt er til að Aðgerðarhópi um málefni barna verði falið að útfæra tillöguna og gera tillögur til borgarráðs.“
 
Umboðsmaður barna fagnaði þessu framtaki Reykjavíkurborgar á sínum tíma. Með bréfi dags. 8. desember 2010 óskaði umboðsmaður svo upplýsinga um hvernig Aðgerðarhópur um málefni barna hafi útfært tillöguna. Einnig var óskað eftir upplýsingum um til hvaða aðgerða hafi verið gripið til að tryggja velferð barna.
 
Svar barst frá Reykjavíkurborg hinn 27. janúar sl. þar sem greint er frá ýmsum verkefnum borgarinnar sem varða börn á einn eða annan hátt. Hér má lesa bréfið sem dagsett er 21. janúar 2011.
 
 

Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica