Árangursríkur samráðsfundur barna og Strætó
Laugardaginn 1. febrúar fór fram samráðsfundur barna og ungmenna, Strætó og kjörinna fulltrúa á höfuðborgarsvæðinu í Hinu húsinu. Fundurinn var samstarfsverkefni umboðsmanns barna, UNICEF á Íslandi og Strætó.
Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna, ungmennaráð UNICEF og Strætó efndu til samráðsfundar með kjörnum fulltrúum sveitarstjórna en markmið fundarins var að koma á formlegum umræðum á milli barna og ungmenna, Strætó og sveitarstjórnum um umbætur á strætókerfinu með hag barna að leiðarljósi.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna, og Hanna Borg Jónsdóttir, verkefnastjóri Barnvænna sveitarfélaga, opnuðu fundinn. Í kjölfarið fluttu Júlíana og Dagur erindi um börn og Strætó fyrir hönd ráðgjafarhóp umboðsmanns barna. Steinn fulltrúi frá starfsfólki Strætó hélt kynningu um starfsemi þeirra.
Eftir erindin var farið í hópaskiptar umræður á sex borðum þar sem börn, ungmenni, forsvarsfólk Strætó og kjörnir fulltrúar ræddu sín á milli hugmyndir um umbætur á þjónustu Strætó fyrir börn og ungmenni. Hvert borð hafði ákveðið þema og þau þemu sem voru fyrir valinu eru eftirfarandi: aðstaða og hreinlæti, leiðarkerfi, gjaldskrá og greiðsluleiðir, fötluð og jaðarsett börn, samskipti og öryggi.
Fundurinn var vel sóttur af ungmennum, Strætó og fulltrúum sveitarstjórna. Umboðsmaður barna þakkar UNICEF og Strætó fyrir samstarfið, og þakkar fyrir góðar mótttökur.