8. apríl 2013

Ályktun ráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði, haldin á Egilsstöðum 20. - 22. mars 2013, skorar á íslensk stjórnvöld, jafnt ríki sem sveitarfélög að leita meira til ungmenna og taka tillit til þeirra skoðana á málefnum samfélagsins, einkum þau sem varða ungmennin sjálf. Bestu málsvarar ungmenna eru ungmennin sjálf.

Dagana 20. - 22. mars sl. stóð UMFÍ fyrir ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði á Egilsstöðum. Þema ráðstefnunnar var að þessu sinni þátttaka ungs fólks í skipulagsmálum. Rúmlega sextíu einstaklingar sóttu ráðstefnuna, bæði ungmenni sem starfa í ungmennaráðum víðsvegar um landið og starfsmenn sem sjá um málefni ungmenna í sveitarfélögunum. Fyrirlesarar voru Katrín Karlsdóttir M.Sc. í skipulagsverkfræði og umhverfissálfræði og Margrét María Sigurðardóttir umboðsmaður barna.

Hér er ályktun ungmenna frá ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði. Hún birtist einnig á vefsíðu UMFÍ. 

Ályktun ráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði, haldin á Egilsstöðum 20. - 22. mars 2013, skorar á íslensk stjórnvöld, jafnt ríki sem sveitarfélög að leita meira til ungmenna og taka tillit til þeirra skoðana á málefnum samfélagsins, einkum þau sem varða ungmennin sjálf. Bestu málsvarar ungmenna eru ungmennin sjálf.

Virk lýðræðisþátttaka ungmenna snýst um meira en árlegan fund með bæjarstjórn fyrir framan myndavélar. Hún snýst um samræður og samskipti alla daga ársins. Stjórnvöld verða að hafa ungmenni í huga og með í ráðum þegar þau fjalla um tillögur sínar og að ungmenni séu í stöðu til að hafa áhrif á þau málefni er þau snerta.

Í þessu sambandi minnir ráðstefnan sérstaklega á 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt barna og ungmenna til að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif á öll mál er þau varða og tekið sé réttmætt tillit til þeirra í samræmi við aldur og þroska. Sérstaklega sé höfð í huga 4. grein sáttmálans sem fjallar um ábyrgð ríkis og sveitarfélaga til að tryggja þau réttindi sem Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um. Ráðstefnan bendir einnig á 17. grein um aðgang að upplýsingum sem stuðli að alhliða þroska.

Þátttaka í lýðræði og samfélaginu krefst þjálfunar. Enginn einstaklingur stekkur fullmótaður fram á sjónarsviðið. Ráðstefnan hvetur því öll sveitarfélög landsins til að koma á fót ungmennaráðum. Ráðin hafi sömu stöðu og aðrar nefndir sveitarfélaga, til dæmis hvað varðar vald yfir fjármagni. Ráðin séu sýnileg og framboð í þau opin hverju því ungmenni sem áhuga hefur.

Ráðstefnan fagnar því að stjórnvöld hafi brugðist jákvætt við áskorun hennar frá því í fyrra og fullgilt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Að sama skapi er mikilvægi þess að fullgildingin fái þá umræðu sem hún verðskuldar ítrekað og stjórnvöld virði þá skuldbindingu sem felst í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Ráðstefnan þakkar Ungmennafélagi Íslands fyrir að standa fyrir ráðstefnu á borð við Ungt fólk og lýðræði. Hún gefur ungu fólki færi á að mynda tengsl, ræða sín viðhorf, koma þeim á framfæri og sanna fyrir því að það geti haft áhrif. Við hvetjum til þess að ráðstefna sem þessi verði haldin á hverju ári og megi aðrir taka UMFÍ sér til fyrirmyndar.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica