20. nóvember 2017

Alþjóðlegur dagur barna - afmæli barnasáttmálans

Í dag, á alþjóðlegum degi barna og afmælisdegi barnasáttmálans, er við hæfi að leggja áherslu á þann mikilvæga boð- skap sem barnasáttmálinn felur í sér.

Í dag er alþjóðlegur dagur barna og tuttugu og átta ár síðan barnasáttmálinn leit dagsins ljós. Í því tilefni ritaði   Salvör Nordal, umboðsmaður eftirfarandi grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. 

Hlustum á börn

Í dag, á alþjóðlegum degi barna og afmælisdegi barnasáttmálans, er við hæfi að leggja áherslu á þann mikilvæga boð- skap sem barnasáttmálinn felur í sér. Á sama tíma er mikilvægt að muna að réttindi barna fela ekki í sér hugsjón sem stefna ber að í framtíðinni eða gera á að umtalsefni á tyllidögum, heldur skiptir máli á öllum sviðum samfélagsins alla daga ársins. Með sáttmálanum er viðurkennt að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi og þurfi sérstaka vernd umfram fullorðna. Sáttmálinn leggur áherslu á grundvallarmannréttindi eins og réttinn til lífs og frið- helgi einkalífs; sáttmálinn bannar mismunun milli barna af hvaða ástæðum sem er; í honum kemur skýrt fram að allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varði börn skuli byggðar á því sem er börnum fyrir bestu og þá er í honum lögð rík áhersla á að hlustað sé á sjónarmið barna í öllum þeim málefnum sem þau varða.

Börn eiga sjálfstæð mannréttindi

Þó að staða barna sé sterk hér á landi í al- þjóðlegu samhengi eigum við talsvert í land að tileinka okkur þann breytta hugsunarhátt sem í sáttmálanum felst. Oft virðist gleymast að börn eigi sjálfstæð mannréttindi og rétt til að hafa áhrif á eigið líf og samfélagið almennt. Ekki síst gleymist oft að taka tillit til sjónarmiða barna eða spyrja þau álits á málefnum sem þau varða. Í sáttmálanum eru engin aldursmörk tiltekin í þessu sambandi heldur eiga börn á öllum aldri rétt á að tjá sig og taka skal tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Það er því ekki nóg að hlusta bara á unglinga, heldur eiga ung börn líka rétt á að taka þátt og hafa áhrif.

Of sjaldan hlustað á börn

Allt of sjaldan er leitað eftir sjónarmiðum barna áður en teknar eru ákvarðanir sem varða þau hvort sem um er að ræða mál sem tengjast persónulegum högum þeirra eða samfélagsleg málefni. Sem dæmi má nefna að stærri ákvarðanir sem varða menntamál hjá sveitarfélögum og ríkinu eru oftar en ekki teknar án þess að leitað sé eftir samráði við börn eða fulltrúa þeirra. Á það til dæmis við um ákvarðanir um breytta einkunnagjöf, styttingu framhaldsskólans, breytingu á fyrirkomulagi samræmdra prófa og ákvarðanir um sameiningu skóla. Miklu máli skiptir að veita börnum oftar tækifæri til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt til að mynda innan leikskóla og grunnskóla. Jafnframt er þó mikilvægt að leita eftir skoð- unum barna þegar taka á ákvarðanir sem fyrstu sýn virðast ekki varða börn sérstaklega, en hafa ber í huga að nánast allar ákvarðanir sem teknar eru af ríkisvaldi eða sveitarstjórnum skipta máli fyrir hagsmuni og velferð barna. Á þetta við um skipulagsmál, ráðstöfun opinbers fjár, málefni innflytjenda og hælisleitenda, umhverfismál, öryggismál o.s.frv.

Mikilvægi ungmennaráða

Umboðsmaður barna hefur það hlutverk að vera opinber talsmaður fyrir öll börn á Íslandi, en til þess að geta sinnt því hlutverki þarf hann að vera í góðu sambandi við börn og hlusta á reynslu þeirra og skoðanir. Einn mikilvægasti þáttur í starfi umboðsmanns barna er ráðgjafarhópur embættisins, sem er ungmennaráð fyrir börn undir 18 ára aldri. Ungmennaráð eru góður vettvangur fyrir börn til að koma saman, koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif á mál sem skipta þau máli í samfélaginu. Í æskulýðslögum er mælst til þess að sveitarfélög setji á fót ungmennaráð sem séu þeim til ráðgjafar um málefni sem tengjast börnum. Um helmingur sveitarfélaga hefur orðið við þessum tilmælum en slík ungmennaráð ættu að vera sjálfsögð og hafa mikilvægt hlutverk hjá öllum sveitarfélögum. Þá væri æskilegt að stofnanir á vegum ríkisins væru með ungmennaráð eða leituðu með öðrum hætti markvisst eftir sjónarmiðum barna. Til dæmis má benda á að Menntamálastofnun er með sitt eigið ungmennaráð, sem er ætlað að vera stofnuninni innan handar með ráðgjöf um málefni og verkefni stofnunarinnar sem varða börn. Þetta frumkvæði er til fyrirmyndar að mati umboðsmanns barna og vonar hann að ráðuneytin og aðrar stofnanir fylgi þessu góða fordæmi. Brýnt er að fullorðnir virði réttindi barna og hafi samráð við þau áður en teknar eru ákvarðanir sem varða hagsmuni þeirra.

Áskorun til nýkjörinna fulltrúa

Á síðustu árum hafa mörg jákvæð skref verið tekin í átt að bættum hag barna og ljóst er að börn hafa nú mun fleiri tækifæri til þátttöku en áður. Við þurfum þó að gera mun betur þegar kemur að því að virkja börn og gefa þeim raunveruleg tækifæri til að hafa áhrif, bæði í eigin lífi og samfélaginu almennt. Kosningar til Alþingis eru nýafstaðnar og viðræður standa yfir um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Ég hvet þá sem nú hafa verið kosnir til trúnaðarstarfa á löggjafarþinginu til næstu fjögurra ára og þá sem munu leiða nýja ríkisstjórn að tryggja að réttur barna til að tjá sig og hafa áhrif verði raunverulega virkur í framkvæmd. Þátttaka barna er ekki einungis mikilvæg fyrir börnin sjálf, heldur búa börn yfir einstakri sýn og þekkingu sem nauðsynlegt er að virkja samfélaginu til heilla. 

 

 Börn hafa áhrif - mynd

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu mánudaginn 20. nóvember 2017


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica