19. maí 2008

Ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna komin á veggspjöld

Umboðsmaður barna, Barnaheill og UNICEF á Íslandi hafa gefið út tvö veggspjöld með ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í styttri útgáfu.

Fréttatilkynning  frá Barnaheillum, umboðsmanni barna og UNICEF á Íslandi

Ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna komin á veggspjöld

Umboðsmaður barna, Barnaheill og UNICEF á Íslandi hafa gefið út tvö veggspjöld með ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í styttri útgáfu. Veggspjöldin eru ætluð til notkunar í skólastarfi  og mun Námsgagnastofnun sjá um dreifingu til grunnskólanna. Einnig stendur til að dreifa  veggspjöldunum víðar.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hefur verið staðfestur af flestum þjóðum heims. Ísland er skuldbundið að þjóðarétti til að virða og uppfylla ákvæði Barnasáttmálans.

Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu hópur sem hafi sjálfstæð réttindi óháð foreldrum eða forsjáraðilum og að þau þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu.

Svo virðist sem börn og fullorðnir þekki lítið til Barnasáttmálans og þýðingu hans. Með útgáfu veggspjaldanna er ætlunin að bæta úr því og stuðla þannig að aukinni vitund almennings um Barnasáttmálann og þau réttindi sem hann kveður á um. 

Í tilefni af Degi barnsins sem haldinn verður hátíðlegur í fyrsta sinn á Íslandi hinn 25. maí nk. verða veggspjöldin kynnt við morgunsöng í Laugarnesskóla föstudaginn 23. maí kl 8:45.  Félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, ávarpar börnin og aðra gesti og umboðsmaður barna kynnir samstarfsverkefnið, veggspjöldin og þýðingu þeirra. Þá munu börn úr  Laugarnesskóla lesa texta af veggspjaldinu sem ætlað er yngri nemendum og gleðja gesti með söng sínum.  Allir sem áhuga hafa á réttindum og velferð barna eru hjartanlega velkomnir.

Hægt er að nálgast veggspjöldin hér.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica