20. nóvember 2013

Afmælisdagur Barnasáttmálans

Í dag eru 24 ár liðin frá því að allsherjarnefnd Sameinuðu þjóðanna samþykkti Samninginn um réttindi barnsins eða Barnasáttmálann. Til að fagna deginum og vekja athygli á réttindum barna var haldinn morgunverðarfundur í dag undir yfirskriftinni „Öll börn eru mikilvæg. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna lögfestur á Íslandi“. Nú standa íslensk stjórnvöld frammi fyrir mikilvægri áskorun um innleiðingu Barnasáttmálans.

Í dag eru 24 ár liðin frá því að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti Samninginn um réttindi barnsins eða Barnasáttmálann. Flestar þjóðir heims hafa staðfest hann, enginn annar mannréttindasamningur hefur verið staðfestur af jafnmörgum þjóðum. Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu hópur sem þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu og að réttinda þeirra hafi ekki verið nægilega gætt í þeim mannréttindasamningum sem áður hafa verið gerðir. Jafnframt felst í honum viðurkenning á því að börn séu fullgildir einstaklingar með eigin réttindi, þau eigi sjálfstæð réttindi – óháð réttindum hinna fullorðnu.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur haft umtalsverð áhrif hér á landi enda er hann hafður að leiðarljósi í öllu starfi umboðsmanns barna. Alþingi Íslendinga lögfesti Barnasáttmálann í febrúar síðastliðnum þannig að nú er hann lög nr. 19/2013. Það var mikið fagnaðarefni að mati umboðsmanns barna. Lögfestingin var mikilvæg til að tryggja að honum verði í auknum mæli beitt í framkvæmd og réttindum barna þannig gefið aukið vægi. Umboðsmaður barna vonar ennfremur að lögfesting Barnasáttmálans muni fela í sér kynningu á sáttmálanum og verða til þess að börn og fullorðnir þekki betur þau réttindi sem hann hefur að geyma. Er þetta ekki síst mikilvægt í ljósi þess að nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hefur gert athugasemdir við fræðslu og kynningu á sáttmálanum hér á landi. Góð þekking á Barnasáttmálanum eykur líkurnar á því að réttindi barna séu virt og að brugðist sé fyrr við þegar brotið er á þeim.

Til að fagna deginum og vekja athygli á réttindum barna var haldinn morgunverðarfundur í dag undir yfirskriftinni „Öll börn eru mikilvæg. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna lögfestur á Íslandi“. Á fundinum voru flutt nokkur áhugaverð erindi. Að fundunum stóðu Teymi um málefni innflytjenda, umboðsmaður barna, Barnaheill - Save the Children á Íslandi, UNICEF á Íslandi, Námsgagnastofnun, Reykjavíkurborg, Samtökin Móðurmál og Samtök kvenna af erlendum uppruna.

Nú standa íslensk stjórnvöld frammi fyrir mikilvægri áskorun um innleiðingu Barnasáttmálans. Til að sáttmálinn geti orðið að veruleika á Íslandi er nauðsynlegt að fræða börn og fullorðna um réttindi barna á markvissan hátt. Auk þess er mikilvægt að tryggja að allir þeir sem bera ábyrgð á börnum á einn eða annan hátt þekki til og skilji hina einstöku sýn á stöðu barna í samfélaginu sem sáttmálinn boðar.

Í lokin er við hæfi að vitna í brot úr ljóði eftir Jóhann Helgason, sem Vilhjálmur Vilhjálmsson gerði ógleymanlegt í flutningi sínum.

Ég held við ættum stundum að hlusta aðeins betur
á hugrenningar þeirra, sem erfa skulu land,
því kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur
komið fram með svörin, þar sem sigldum við í strand.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica