8. febrúar 2011

Áfengisauglýsingar íþróttafélaga

Áfengisauglýsingar eiga aldrei rétt á sér á viðburðum sem börn sækja. Hagsmunir barna og unglinga af því að njóta verndar gegn áfengisauglýsingum eiga alltaf að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir íþróttafélaga. Vegna ábendinga um áfengisauglýsingar íþróttafélaga sendi umboðsmaður bréf til ÍSÍ. Hér er innihald þess birt sem og svarbréf ÍSÍ.

Áfengisauglýsingar eiga aldrei rétt á sér á viðburðum sem börn sækja. Hagsmunir barna og unglinga af því að njóta verndar gegn áfengisauglýsingum eiga alltaf að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir íþróttafélaga.

Vegna ábendinga sem bárust umboðsmanni barna í haust vegna áfengisauglýsinga á viðburðum sem haldnir eru á vegum aðildarfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) sem og í tímaritum sem gefin eru út af þeim ákvað umboðsmaður barna að bregðast við með því að senda ÍSÍ bréf til að vekja athygli á málinu og kanna viðbrögð sambandsins. Svar frá ÍSÍ barst nú í byrjun febrúar og er birt neðst á þessari síðu.

Í bréfi umboðsmanns barna til ÍSÍ, dags. 7. janúar 2011, segir:

Annars vegar er um að ræða auglýsingar á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sem Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) stóð fyrir í ágúst 2010. Á aðalsviðinu í Herjólfsdal var að finna stórar auglýsingar á Tuborg og fóru þær auglýsingar ekki fram hjá neinum sem fylgdist með dagskrá á því sviði. Hins vegar er um að ræða auglýsingar sem birtust í tímaritinu Golf á Íslandi, nánar tiltekið í 4. tbl. 2010. Um var að ræða heilsíðu auglýsingu á Egils Gull öli og hálf síðu auglýsingu á Stellu Artois.

Í öllum tilvikum er um að ræða auglýsingar á „léttöli“ og má því deila um hvort brotið sé gegn 1. mgr. 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Hins vegar er ljóst að um er að ræða auglýsingar sem fara í bága við stefnuyfirlýsingu ÍSÍ frá 2. nóvember 1997 um forvarnir og fíkniefni. Í stefnuyfirlýsingunni eru aðildarfélög hvött til þess að festa í lög sín ákvæði þar sem tekin er einörð afstaða gegn neyslu á áfengi, tóbaki og fíkniefnum. Hvorki Golfsamband Íslands né ÍBV hafa sett slík ákvæði í lög sín. Auk þess má benda á að auglýsingarnar eru ekki í samræmi við 2. gr. reglugerðar ÍSÍ um auglýsingar.

Umboðsmaður barna hefur undanfarin ár vakið athygli á nauðsyn þess að takmarka dulbúnar áfengisauglýsingar með virkum hætti. Bann við áfengisauglýsingum hefur forvarnargildi og er ætlað að draga úr áfengisneyslu. Auglýsingum er almennt ætlað að hafa þann tilgang að hvetja til neyslu og stuðla að jákvæðu viðhorfi til þeirrar vöru sem auglýst er. Umboðsmaður bendir á að stór hluti íþróttaiðkenda eru börn, þ.e. einstaklingar undir 18 ára aldri. Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem á rétt á sérstakri vernd, sbr. m.a. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Börn eru auk þess sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og hafa auglýsingar því almennt meiri áhrif á þau en aðra. Áfengisauglýsingar hafa áhrif á viðhorf barna til áfengis og stuðla að aukinni neyslu unglinga. Ljóst er að áfengi hefur ýmis skaðleg áhrif á líffæri og þroska barna. Auk þess er heili ungs fólks ennþá að vaxa og þroskast fram yfir 20 ára aldur. Áfengisneysla á mótunartíma heilans getur því skaðað ákveðnar stöðvar hans fyrir lífstíð. Íþróttafélög spila stóran þátt í uppeldi þeirra barna sem sækja íþróttir. Það samræmist því engan veginn heilsueflandi og uppeldislegu hlutverki íþróttafélaga að hvetja til aukinnar neyslu áfengis.

Umboðsmaður barna vill leggja áherslu á að áfengisauglýsingar eiga aldrei rétt á sér á viðburðum sem börn sækja. Hagsmunir barna og unglinga af því að njóta verndar gegn áfengisauglýsingum eiga alltaf að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir íþróttafélaga, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um að það sem er börnum fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn.

Á undanförnum árum hefur ÍSÍ unnið gott starf varðandi íþróttaiðkun barna og unglinga og ýmis konar forvarnir. Að mati umboðsmanns barna er mikilvægt að ÍSÍ haldi því góða starfi áfram og leitist við að tryggja að aðildarfélög þess séu meðvituð um hlutverk sitt í lífi barna. Umboðsmaður barna hvetur því ÍSÍ að sjá til þess að aðildarfélög þess framfylgi stefnuyfirlýsingu ÍSÍ frá 1997 og taki einarða afstöðu gegn neyslu áfengis, tóbaks og fíkniefna og tryggi að slík efni séu ekki auglýst á vegum þeirra, hvort sem auglýsingarnar eru dulbúnar með léttölsmerkingu eða ekki.

Í ljósi þess sem að framan greinir óskar umboðsmaður barna  eftir upplýsingum um hvernig ÍSÍ framfylgir stefnuyfirlýsingu sinni um forvarnir og fíkniefni og hvernig ÍSÍ tekur á því þegar aðildarfélög þeirra auglýsa áfengi eða léttöl.

Hér má lesa svarbréf frá framkvæmdastjóra ÍSÍ, dags. 1. febrúar 2011, þar sem ÍSÍ greinir frá því að ÍSÍ leggi áherslu á það við sambandsaðila sína að þeir fylgi lögum og taki afstöðu gegn neyslu vímuefna auk þess sem fjallað er um fyrirmyndarfélög ÍSÍ.

Umboðsmaður barna hvetur ÍSÍ til að fylgja þessu máli eftir með virkum hætti með réttindi barna að leiðarljósi.

Hér má lesa umsögn umboðsmanns barna um frumvarp um breytingu á áfengislögum nr. 75/1998, með síðari breytingum, 293. mál en í frumvarpinu er lagt til að 3. mgr. 20. gr. áfengislaga verði breytt þannig að óheimilt verði að auglýsa vörur sem hægt er að rugla saman við áfengi, vegna nafns, umbúða eða annarra einkenna.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica