20. nóvember 2009

Æska Íslands! Til hamingju með daginn

Í dag eru 20 ár liðin frá því að allsherjarnefnd Sameinuðu þjóðanna samþykkti Barnasáttmálann. Af því tilefni gefur umboðsmaður barna út bók sem er afrakstur verkefnisins „Hvernig er að vera barn á Íslandi?"

Frá umboðsmanni barna:

Æska Íslands!
Til hamingju með daginn

Í dag eru 20 ár liðin frá því að allsherjarnefnd Sameinuðu þjóðanna samþykkti Samninginn um réttindi barnsins eða Barnasáttmálann.  Flestar þjóðir heims hafa staðfest hann, enginn annar mannréttindasamningur hefur verið staðfestur af jafnmörgum þjóðum. Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu hópur sem þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu og að réttinda þeirra hafi ekki verið nægilega gætt í þeim mannréttindasamningum sem áður hafa verið gerðir. Jafnframt felst í honum viðurkenning á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi, þau eigi sjálfstæð réttindi – óháð réttindum hinna fullorðnu. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur haft umtalsverð áhrif hér á landi enda er hann hafður að leiðarljósi í öllu starfi umboðsmanns barna.

Barnasáttmálinn fjallar um réttindi sem varða öll börn í heiminum undir 18 ára aldri og er hann mjög víðtækur. Hann kveður á um vernd tiltekinna grundvallarmannréttinda barna. Jafnframt leggur hann þær skyldur á aðildarríkin að þau grípi til aðgerða sem tryggja velferð barna á ýmsum sviðum. Segja má að í honum séu fjórar grundvallarreglur. Þær eru í fyrsta lagi að öll börn eigi sömu réttindi, séu jafn rétthá og ekki megi mismuna þeim á neinn hátt. Í öðru lagi kemur fram að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar verið er að gera ráðstafanir er varða börn. Þá á hvert barn rétt til að lifa og þroskast. Loks eiga börn rétt til að mynda sínar eigin skoðanir og að láta þær í ljós í öllum málum sem þau varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Síðast liðinn vetur fór umboðsmaður barna af stað með verkefni sem ber yfirskriftina „Hvernig er að vera barn á Íslandi? Við fengum yfir 1000 svör frá grunnskólum og leikskólum víðsvegar af landinu. Í dag gefum við út bók sem er afrakstur verkefnisins. Ég skora á Íslendinga að kynna sér innihald hennar en þar eru mikilvæg skilaboð frá þeim „sem erfa skulu land“. Mér finnst því viðeigandi að enda kveðju þessa með eftirfarandi ljóði eftir Jóhann Helgason, sem Vilhjálmur Vilhjálmsson gerði ógleymanlegt í flutningi sínum.


Ég held við ættum stundum að hlusta aðeins betur
á hugrenningar þeirra, sem erfa skulu land,
því kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur
komið fram með svörin, þar sem sigldum við í strand.

 

Loks vil ég enda þetta hér í dag með að óska öllum börnum hvar sem þau eru í heiminum til hamingju með daginn.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica