15. október 2018

Aðstaða nemenda sem ekki eru í mataráskrift

Í lok mars barst erindi frá barni varðandi aðstæður í skólamötuneyti þar sem bent var á að nemendur sem ekki eru í mataráskrift fái ekki að sitja við hlið samnemenda í matsal skólans. Bréfið má lesa hér í heild sinni.

Í lok mars barst erindi frá barni varðandi aðstöðu í skólamötuneyti. Í erindinu var bent á að nemendur sem ekki eru í mataráskrift fái ekki að sitja við hlið samnemenda sem eru í mataráskrift í matsal skólans. 

Þetta fannst umboðsmanni þörf ábending og sendi því eftirfarandi bréf til bæjarstjórans í Hafnarfirði, skóla- og frístundasviðs Hafnarfjarðarbæjar auk skólatjóra viðkomandi skóla þann 7. júní  og ítrekað með tölvupósti  þann 27. ágúst sl. 

Engin viðbrögð hafa borist við erindinu að svo stöddu. Umboðsmaður barna skorar á Áslandsskóla og Hafnarfjarðarbæ að bæta úr aðstöðunni sem allra fyrst enda eru matarhlé nauðsynleg nemendum til félagslegra samskipta og tengslamyndunar. 

 

Hér er bréfið í heild sinni:  

Hafnarfjarðarbær

Ráðhús Hafnarfjarðar, Strandgötu 6

220 Hafnarfjörður

b.t. bæjarstjóra

 

Reykjavík, 7. júní 2018

 

Þann 21. mars 2018 barst umboðsmanni barna erindi frá ungmenni sem stundar nám við Áslandsskóla í Hafnarfirði. Í bréfinu var greint frá því að nemendur sem ekki eru í mataráskrift í skólanum fá ekki að sitja með félögum sínum í matsal skólans í matarhléum, heldur sé gert að borða nestið sitt á annarri hæð skólans, aðskildum frá þeim sem eru í mataráskrift. 

 

Umboðsmaður barna hefur átt samskipti vegna málsins við skólastjóra Áslandsskóla, skólaskrifstofu Hafnarfjarðarbæjar og fráfarandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar þar sem gerðar voru athugasemdir við framangreint fyrirkomulag.

 

Í 2. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013, kemur fram sú meginregla að tryggja skuli öllum börnum þau réttindi sem samningurinn kveður á um, án mismununar af nokkru tagi og án tillits til trúarbragða, skoðana, uppruna, félagslegrar stöðu, eigna, fötlunar eða annarra aðstæðna barns eða foreldris þess. Þá er það önnur meginregla Barnasáttmálans að það sem er barni fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar opinberir aðilar gera ráðstafanir sem varða börn, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans.

 

Ber til þess að líta að ýmsar ástæður geta legið að baki því að barn sé ekki í mataráskrift í skóla svo sem vegna trúar- eða lífsskoðana. Eins geta þar legið að baki heilsufarsástæður eins og mataróþol eða matarofnæmi og þá eru dæmi um að fjárhagsstaða foreldra komi í veg fyrir að nemendur geti verið í mataráskrift. Að mati umboðsmanns barna felst bein mismunun í ráðstöfun þar sem nemendum er gert að sitja í mismunandi rýmum skóla í matarhléi eftir því hvort þeir eru í mataráskrift eða ekki. Samkvæmt upplýsingum umboðsmanns barna er þetta fyrirkomulag eingöngu við lýði í Áslandsskóla en ekki öðrum grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar.

 

Í 2. gr. grunnskólalaga. nr. 91/2008, segir að hlutverk grunnskóla sé að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Þá segir í sömu grein að starfshættir grunnskóla skulu mótast af m.a. umburðarlyndi, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.

 

Þá segir jafnframt í 3. mgr. 24. gr. grunnskólalaga að starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna m.a. uppruna, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti.

 

Í aðalnámsskrá grunnskóla segir að allt skólastarf eigi að stuðla markvisst að velferð og vellíðan barna og ungmenna sem verja þar stórum hluta dagsins. Þá þurfi að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum.

 

Þá er það jafnframt sérstaklega áréttað í aðalnámsskrá að skólar þurfi að leggja áherslu á „uppeldis- og félagslegt gildi máltíða“. Af því leiðir að grunnskólum ber að skipuleggja matarhlé þannig að öllum nemendum skólans sé tryggður tími og svigrúm til að nærast og jafnframt veitt nauðsynleg tækifæri til félagslegra samskipta og tengslamyndunar.

 

Með vísan til framangreinds óskar umboðsmaður barna eftir því að Hafnarfjarðarbær bregðist skjótt við og taki til skoðunar hvernig bæta megi skipulag og aðstöðu Áslandsskóla þannig að skólinn geti tryggt öllum nemendum þann rétt til samverustunda í matarhléum sem leiðir af ákvæðum aðalnámsskrár, grunnskólalaga og Barnasáttmálans.

 

 

Virðingarfyllst,

 

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica