15. ágúst 2022

Aðgengi barna að gosstöðvum í Meradölum

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur tekið ákvörðun um að takmarka, að svo stöddu, aðgengi barna yngri en 12 ára að gosstöðvunum í Meradölum. Á vefsíðu lögreglunnar kemur fram að ákvörðunin sé tekin á grundvelli 23. gr. laga um almannavarnir nr. 82/2008 og með hagsmuni barna að leiðarljósi.

Af því tilefni vill umboðsmaður barna árétta að foreldrar og forsjáraðilar eiga að gæta að velferð barna og tryggja öryggi þeirra. Við alla útivist er mikilvægt að foreldrar sjái til þess að börn séu vel útbúin, bæði hvað varðar fatnað og annan nauðsynlegan búnað. Þá þurfa foreldrar að leggja mat á það hvort barnið sé í stakk búið til þess að takast á við aðstæður hverju sinni. Einnig er mikilvægt að huga að loftgæðum og veðráttu. Ef foreldrar eða forsjáraðilar bregðast skyldum sínum og koma börnum í aðstæður þar sem þeim er hætta búin þarf að bregðast við því og í ákveðnum tilfellum getur slíkt athæfi kallað á aðkomu lögreglu og barnaverndaryfirvalda.

Umboðsmaður barna leggur jafnframt áherslu á að ávallt þurfi að tryggja að réttindi barna séu vernduð og virt við töku ákvarðana og innleiðingu aðgerða sem takmarka réttindi þeirra. Takmarkandi ráðstafanir verða aðeins gerðar á grundvelli laga og þegar brýna nauðsyn ber til. Málefnaleg sjónarmið þurfa að liggja til grundvallar öllum ákvörðunum og gæta þarf meðalhófs, bæði hvað varðar val á úrræðum og beitingu þeirra. Þá er mikilvægt að jafnræðis sé gætt þannig að börnum sé ekki mismunað enda eru allir jafnir fyrir lögum. Í áðurnefndri 23. gr. laga um almannavarnir kemur fram, að lögreglustjóra sé heimilt að banna dvöl eða umferð á ákveðnum svæðum á hættustundu. Af orðanna hljóðan má ráða að um sé að ræða heimild, sem beita megi í undantekningartilvikum, þar sem nauðsynlegt reynist að banna alla umferð eða dvöl á tilteknu svæði, en ekki eingöngu umferð eða dvöl tiltekinna hópa. Ákvörðun sem felur í sér takmarkanir á aðgengi barna að náttúrufyrirbærum sem öllum öðrum er heimilt að heimsækja, verða að byggja á skýrri lagaheimild, en slíkar ákvarðanir þarf jafnframt að kynna opinberlega og þá sérstaklega fyrir börnum og foreldrum þeirra.

Umboðsmaður barna hefur á undanförnum árum lagt áherslu á að innleitt verði mat á áhrifum á börn innan stjórnkerfisins. Stjórnvöldum ber skylda til að leggja sérstakt mat á áhrif ákvarðana á börn, en slíkt mat ætti ávallt að fara fram á fyrstu stigum umræðu eða ákvarðanatöku. Mat á áhrifum á börn er liður í því að kanna hvort ákvörðunin samræmist 3. gr. Barnasáttmálans, sem kveður á um að það sem börnum er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang, þegar gerðar eru ráðstafanir sem varða þau. Leiði mat á áhrifum í ljós að um neikvæð áhrif á börn er að ræða, ber stjórnvöldum skylda til þess að leita allra leiða til þess að fyrirbyggja slík áhrif, og grípa til mótvægisaðgerða í þeim tilvikum þar sem það er ekki unnt. Þannig er tryggt að ákvörðun hverju sinni samræmist 3. gr. Barnasáttmálans.

Stjórnvöld eiga jafnframt að veita börnum rými og vettvang til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem þau varðar og þeim ber að taka réttmætt tillit til þeirra í samræmi við aldur og þroska barna, líkt og 12. gr. Barnasáttmálans kveður á um. Virkt samráð við börn um málefni sem snerta þau er lykilatriði í því að komast að niðurstöðu um hvað sé börnum raunverulega fyrir bestu en auk þess búa börn yfir nauðsynlegri innsýn í eigin málefni og sjá oft lausnir sem aðrir koma ekki auga á.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur áréttað mikilvægi þess að settir séu ferlar sem tryggja framkvæmd mats á áhrifum á börn á öllum stigum stjórnsýslunnar. Þann 9. júní sl., birti barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna tilmæli sín til íslenska ríkisins um nauðsynlegar úrbætur sem miða að því að tryggja áframhaldandi innleiðingu Barnasáttmálans á öllum sviðum samfélagsins. Á meðal tilmæla nefndarinnar er að íslenska ríkið innleiði mat á áhrifum á börn við lagasetningu og ákvarðanir stjórnvalda. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica