22. mars 2010

Aðfarargerðir á börnum

Umboðsmaður barna hefur sent dómsmála og mannréttindaráðherra bréf, dags. 15. mars 2010, þar sem umboðsmaður hvetur ráðherra til þess að hlutast til um að gerðar verði verklagsreglur um framkvæmd aðfarargerða og þær unnar í samstarfi við þá aðila sem koma að slíkum gerðum.

Frá því að núgildandi barnalög nr. 76/2003 tóku gildi hefur verið hægt að koma umgengni á með beinni aðfaragerð. Umboðsmaður barna telur beitingu slíks þvingunarúrræðis mjög vandasama með hliðsjón af hagsmunum barnsins og einungis réttlætanlegt að grípa til hennar í sérstökum undantekningartilvikum. Í þessum málum sem öðrum leggur umboðsmaður ríka áherslu á að tekið sé tillit til vilja barnsins, með hliðsjón af aldri þess og þroska.

Umboðsmanni barna hafa borist athugasemdir um framkvæmd aðfarargerða á börnum þar sem bent hefur verið á að ekki væri nægilega vel hugað að hagsmunum barna við slíkar gerðir. Umboðsmaður barna ákvað í framhaldi af þessum athugasemdum að gera heildarúttekt á beitingu úrræðisins frá gildistöku barnalaga nr. 76/2003.

Athugun umboðsmanns barna leiddi í ljós að aðfarargerðir á börnum eru fátíðar. Í þeim tilvikum sem slíkar gerðir fara fram er þó um að ræða umtalsvert inngrip í líf barna. Er því mikilvægt að fara varlega við framkvæmd slíkra gerða og gæta þess að þær valdi börnum sem minnstu álagi. Í framkvæmd virðist skorta upp á að slíkar gerðir séu nægilega vandaðar og að þeir aðilar sem koma að framkvæmd þeirra þekki hlutverk sitt.

Eftir að hafa fundað með þeim aðilum sem koma að aðfarargerðum á börnum var niðurstaðan sú að þörf væri á verklagsreglum um framkvæmd aðfarargerða, þar sem hlutverk hvers aðila sem er viðstaddur gerðina er skilgreint.

Af þessu tilefni sendi umboðsmaður barna Rögnu Árnadóttur, dómsmála og mannréttindaráðherra, bréf dags. 15. mars 2010 þar sem umboðsmaður hvetur ráðherra til þess að hlutast til um að gerðar verði verklagsreglur um framkvæmd aðfarargerða og þær unnar í samstarfi við þá aðila sem koma að slíkum gerðum.

Bréfið er svohljóðandi:

Dómsmála- og mannréttindaráðherra
Ragna Árnadóttir
Skuggasundi
150 Reykjavík

Reykjavík, 15. mars 2010

 

Efni: Verklagsreglur um framkvæmd aðfarargerða á börnum

Frá því að núgildandi barnalög nr. 76/2003 tóku gildi hefur verið hægt að koma umgengni á með beinni aðfaragerð. Umboðsmaður barna telur beitingu slíks þvingunarúrræðis mjög vandasama með hliðsjón af hagsmunum barnsins og einungis réttlætanlegt að grípa til hennar í sérstökum undantekningartilvikum. Í þessum málum sem öðrum leggur umboðsmaður ríka áherslu á að tekið sé tillit til vilja barnsins, með hliðsjón af aldri þess og þroska.

Í lok sumars árið 2009 bárust umboðsmanni barna athugasemdir um framkvæmd aðfarargerða á börnum þar sem bent var á að ekki væri nægilega vel hugað að hagsmunum barna við slíkar gerðir. Umboðsmaður barna ákvað í framhaldi af þessum athugasemdum að gera heildarúttekt á beitingu úrræðisins frá gildistöku barnalaga nr. 76/2003 og kanna hvort líkur væru á því að athugasemdin ætti við rök að styðjast.

Þann 2. september 2009 óskað umboðsmaður barna eftir upplýsingum og gögnum um aðfarargerðir á börnum frá sýslumannsembættum, barnaverndarnefndum sem og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, á grundvelli 5. gr. laga nr. 83/1994 um umboðsmann barna. Samkvæmt svörum aðila hafa sjö aðfarargerðir verið framkvæmdar í gildistíð núgildandi barnalaga. Af þeim voru sex gerðir framkvæmdar af sýslumanninum Reykjavík en ein af sýslumannsembætti á landsbyggðinni.

Af umræddri athugun umboðsmanns barna má sjá að aðfarargerðir á börnum eru fátíðar. Í þeim tilvikum sem slíkar gerðir fara fram er þó um að ræða umtalsvert inngrip í líf barna. Er því mikilvægt að fara varlega við framkvæmd slíkra gerða og gæta þess að þær valdi börnum sem minnstu álagi. Í framkvæmd virðist skorta upp á að slíkar gerðir séu nægilega vandaðar og að þeir aðilar sem koma að framkvæmd þeirra séu meðvitaðir um hlutverk sitt.

Í kjölfar þessarar niðurstöðu var ákveðið að boða þá aðila sem koma að slíkum gerðum til fundar, sem var haldinn 11. febrúar 2010 í húsakynnum umboðsmanns barna. Á fundinn mættu fulltrúar frá dómsmálaráðuneytinu, Barnaverndarstofu, Barnavernd Reykjavíkur, sýslumanninum í Reykjavík, Sýslumannafélagi Íslands, Lögreglustjórafélagi Íslands og Hrefna Friðriksdóttir, lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Aðilar fundarins voru sammála um að þörf væri á verklagsreglum um framkvæmd aðfarargerða, þar sem hlutverk  hvers aðila sem er viðstaddur gerðina er skilgreint. Slíkar reglur eru sérstaklega mikilvægar vegna þess hversu fátíðar þessar gerðir eru og þar af leiðandi miklar líkur á að aðilum skorti reynslu af framkvæmd þeirra.

Í ljósi niðurstöðu fundarins vill umboðsmaður barna hvetja dóms- og mannréttindaráðherra til þess að hlutast til um að gerðar verði verklagsreglur um framkvæmd aðfarargerða og þær unnar í samstarfi við þá aðila sem koma að slíkum gerðum.

Virðingarfyllst,

_____________________________________

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica