15. ágúst 2014

Ábyrgð foreldra framhaldsskólanema

Foreldrum er skylt samkvæmt 28. gr. barnalaga að sjá til þess að börn njóti menntunar og starfsþjálfunar í samræmi við hæfileika þeirra og áhugamál og nái þannig að þroska hæfileika sína á þann máta sem best hentar hverju barni.

Hlutverkumbodsmanns 1 Réttur til menntunar og framfærslu 

Nú styttist í skólabyrjun í framhaldsskólum landsins. Af því tilefni vill umboðsmaður barna minna foreldra og aðra á réttindi barna í framhaldsskólum. Eftir að skyldunámi lýkur eiga öll börn rétt á menntun eða starfsþjálfun við hæfi og er sá réttur m.a. tryggður í 28. gr. Barnasáttmálans og  lögum um framhaldsskóla. 

Þó að börn ráði sjálf hvort og þá hvaða framhaldsskóla þau sækja um bera foreldrar samt sem áður mikla ábyrgð á framhaldsskólagöngu barna sinna. Foreldrum er skylt samkvæmt 28. gr. barnalaga að sjá til þess að börn njóti menntunar og starfsþjálfunar í samræmi við hæfileika þeirra og áhugamál og nái þannig að þroska hæfileika sína á þann máta sem best hentar hverju barni. Bera foreldrar því ábyrgð á því að veita börnum sem eru í framhaldsskóla þann stuðning og þá hvatningu sem þau þurfa. Foreldrar bera einnig ábyrgð á framfærslu barna sinna til 18 ára aldurs. Í því felst að foreldrum ber að sjá börnum sínum fyrir því sem þau þurfa til þess að lifa, þroskast og njóta réttinda sinna.

 Foreldrar bera ábyrgð á kostnaði við skólagöngu

Námi í framhaldsskóla getur fylgt mikill kostnaður, bæði vegna innritunargjalda og bókakaupa. Dæmi eru um að foreldrar láti börn sín taka þátt í þessum kostnaði. Telur umboðsmaður barna því mikilvægt að árétta að foreldrar bera ábyrgð á því að tryggja börnum sínum menntun við hæfi og ber þeim því að greiða innritunargjöld í almenna framhaldsskóla sem og bækur, ritföng og annan nauðsynlegan kostnað fyrir börn sín. Ef foreldrar geta ómögulega staðið undir þessum kostnaði er hægt að leita eftir aðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaga eða hjálparstofnunum.

Þegar nemendur eru orðnir 18 ára eru þeir fullorðnir og bera ábyrgð á sér sjálfir. Foreldrar ungmenna á aldrinum 18 til 20 ára bera þó enn vissa ábyrgð á því að stuðla að menntun barna sinna. Má í því sambandi benda á að samkvæmt 62. gr. barnalaga er hægt að úrskurða foreldri til að greiða barni sínu framlag til menntunar eða starfsþjálfunar þar til það nær 20 ára aldri. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica