12. febrúar 2013

Ábendingar ráðgjafarhóps um menntamál - Bréf til ráðherra

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna boðaði mennta- og menningarmálaráðherra á sinn fund í byrjun árs til að ræða málefni grunn- og framhaldsskóla. Í lok janúar ritaði ráðgjafarhópurinn svo bréf til ráðherra með samantekt af helstu atriðum sem rædd voru á fundinum.

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna boðaði mennta- og menningarmálaráðherra á sinn fund í byrjun árs til að ræða málefni grunn- og framhaldsskóla. Í lok janúar ritaði ráðgjafarhópurinn svo bréf til ráðherra með samantekt af helstu atriðum sem rædd voru á fundinum. Bréfið er birt hér í heild:

Mennta- og menningarmálaráðherra
Katrín Jakobsdóttir
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík, 29. janúar 2013

Efni:  Ábendingar ráðgjafarhóps umboðsmanns barna um menntamál

Á fundi með mennta- og menningarmálaráðherra fyrr í þessum mánuði komum við ýmsum ábendingum til ráðherra um menntamál.  Hér fyrir neðan má finna helstu atriðin sem við ræddum á fundinum.

1. Þátttaka barna í ákvarðanatöku
Við teljum mikilvægt að börnum og ungmennum sé ávallt gefið tækifæri til að tjá sig og að tekið sé tillit til skoðana þeirra þegar teknar eru ákvarðanir sem varða þau með einum eða öðrum hætti. Á þetta til dæmis við um allar ákvarðanir sem varða menntakerfið. Þetta er þó ekki alltaf gert. Til dæmis vitum við ekki til þess að nemendur hafi verið spurðir álits áður en samræmdu prófin voru afnumin eða þegar tekin var ákvörðun um hverfaskiptingu framhaldsskóla. Nú höfum við heyrt að stefnt sé að því að taka upp nýtt einkunnakerfi – svokallað ABC kerfi – en áður en það er  gert teljum við mikilvægt að ræða við fulltrúa nemenda.
Þátttaka nemenda í ákvörðunum er einnig mikilvægt til þess að þeir læri um lýðræði. Ef börn fá að taka þátt í ákvarðanatöku frá því í leikskóla og vita hvaða ábyrgð fylgir lýðræðislegum ákvörðunum er líklegra að þeir verði betri og ábyrgari þjóðfélagsþegnar.
Það er einnig eðlilegt að okkar mati að nemendur hafi meira að segja um það hvernig kennari er að standa sig. Við teljum til dæmis að það ætti að vera kennslumat á kennurum og öðru starfsfólki í öllum grunn- og framhaldsskólum. Þá gæti skólinn brugðist við ef kennari fær ítrekað kvartanir t.d. um andlegt ofbeldi.
?
Loks viljum við hvetja menntamálaráðherra til að tryggja að úrræði barna til að tjá sig samkvæmt lögum séu virk, t.d. að starfandi séu nemendafélög og skólaráð í öllum skólum. Það þarf sérstaklega að tryggja að nemendur fái raunverulega að taka þátt í skólaráði og fái fræðslu um það hvað það þýðir að vera í skólaráði.

2. Umburðarlyndi
Við teljum mjög mikilvægt að auka umburðarlyndi í skólum. Við þurfum að læra meira um það, bæði í leikskóla og grunnskóla, að það þurfa ekki allir að vera eins.
Við teljum til dæmis mikilvægt að það séu haldnar kynningar í grunnskólum um mismunandi hópa t.d. fatlaða, samkynhneigða, önnur trúarbrögð o.s.frv.  Núna virðist það undir hverjum og einum skóla komið hvort og þá hvaða kynningar eru haldnar en þetta ætti að vera skylda fyrir alla skóla.
Það er samt ekki nóg að fjalla bara um mismunandi hópa í kennslustundum heldur þarf að sýna og fagna fjölbreytileikanum. Of mikið um það í kennslubókum að allir séu hvítir, gagnkynhneigðir, kristnir einstaklingar í hefðbundnum kynjahlutverkum. Það er mikilvægt að ganga ekki út frá því að allir séu gagnkynhneigðir og sýna ekki bara hina týpísku ímyndi af karli og konu – strákar geta líka verið í ballett. Ekki nóg að segja frá þessu heldur þarf að sýna það í námsgögnum og kennarar og annað starfsfólk þarf að gera ráð fyrir alls konar nemendum!
Aukið umburðarlyndi getur líka dregið úr einelti. Þó að margt hafi breyst til hins betra í þarf áfram að leggja áherslu á einelti. Það þarf líka að gera krökkum grein fyrir ábyrgð sinni og hvernig einelti getur litið út.

3. Einstaklingsmiðað nám
Við teljum mikilvægt að skólar séu raunverulega með einstaklingsmiðað nám. Það þarf að taka ríkt tillit til nemenda með fötlun og aðrar sérþarfir og tryggja aðgengi þeirra í skólum. Við teljum til dæmis að það þurfi að vera mun fleiri stuðningsfulltrúar og sérkennarar. Það þarf líka að auka sérkennslu í framhaldsskólum.
Að okkur mati ætti maður ekki að þurfa vera með greiningu til að fá þá aðstoð sem maður þarf. Nú er allt of mikið lagt upp úr greiningum og nemendur sem þurfa mikla aðstoð fá hana ekki ef þeir eru ekki með „rétta“ greiningu. Hluti af því að virða fjölbreytileikann í skólum er að þurfa ekki skipta þeim í einhverja fyrirfram ákveðna hópa.
Hluti af einstaklingsmiðuð námi er líka að sinna þeim sem eiga auðvelt með nám og hafa áhuga. Kennarar eiga líka að kenna þeim sem hafa áhuga á að læra en ekki bara þeim sem eru með læti eða hafa ekki áhuga.  Það þarf að gefa þeim nemendum sem gengur vel í námi kost á að njóta sín og fá nám við sitt hæfi. T.d. nám innan framhaldsskóla.
Til að koma í veg fyrir að kennari sinni bara erfiðum nemendum og tryggja að allir fái nám og kennslu við hæfi þurfa bekkir að vera minni. Það þarf að vera hámark í lögum. Við teljum að það ættu að vera í mesta lagi 20 nemendur í bekk í grunnskólum!

4. Lífsleikni
Mörg af þeim atriðum sem við nefndum hér að framan gætu verið kennd í lífsleikni. Það er ýmislegt áhugavert sem á að kenna í lífsleikni en er ekki gert. Oft er bara spilað í tímum eða tekið á einhverju öðru. Við teljum því mikilvægt að efla lífsleiknikennslu í grunnskólum.
Við teljum til dæmis mikilvægt að kenna hluti í lífsleikni sem við munum nota í framtíðinni og mun gera okkur virkari og betri samfélagsþegna. Eins og kemur fram að framan þurfum við líka að læra meira um mismunandi hópa og umburðarlyndi.
Við nefndum einnig á fundinum að það vantaði meiri fjármálafræðslu og vorum ánægð að heyra að menntamálaráðuneytið sé að vinna að slíkri fræðslu fyrir grunnskóla.

5. Samræmi á milli skóla
Við teljum mikilvægt að það sé meira samræmi á milli skóla t.d. varðandi námsgögn og einkunnir. Það þarf einnig að vera meiri framþróun í námsgögnum, til dæmis hafa þau á rafrænu formi.

Að lokum viljum við þakka kærlega fyrir fundinn og það tækifæri að koma skoðunum okkar á framfæri. Við vonum að menntamálaráðherra muni hafa ofangreindar ábendingar í huga og muni framvegis ávallt leita eftir skoðunum barna og ungmenna þegar hann tekur ákvarðanir sem varða börn með einhverjum hætti.

Virðingarfyllst,
f.h. Ráðgjafarhóps umboðsmanns barna

Ásta Margrét Helgadóttir, Anna Margrét Sverrisdóttir, Unnur Helgadóttir, Kristinn Jóhannsson og Bjartur Thorlacius


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica