8. nóvember 2012

Á degi gegn einelti

Í tilefni dagsins vill umboðsmaður barna vekja athygli á mikilvægi vináttunnar og benda á myndefni um einelti og vináttu á netinu

Verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti hefur ákveðið að helga  8. nóvember ár hvert baráttunni gegn einelti.  Slíkur baráttudagur var fyrst haldinn í fyrra. Markmiðið með deginum er að vekja sérstaka athygli á málefninu.

Í tilefni dagsins vill umboðsmaður barna vekja athygli á mikilvægi vináttunnar og benda á myndefni um einelti og vináttu á netinu.

Hurdaspjal Verum Vinir Spjald 2 Hlid 1 2010Hurðarspjöldin VERUM VINIR 
Einelti getur bæði verið afleiðing og orsök ýmissa annarra vandamála en með því að bæta skólabrag og efla vináttu og kærleika fyrir náunganum er hægt að vinna gegn einelti og vinaleysi og bæta líðan barna almennt. Hurðarspjöldin VERUM VINIR voru útbúin til að vekja athygli á mikilvægi vináttunnar og því að allir þurfa á samkennd og kærleika að halda. Með hurðarspjöldunum vill umboðsmaður barna beina því til barna, foreldra og þeirra sem vinna með börnum að það er mikilvægt að vera vakandi fyrir velferð hvors annars og að allir geta gert eitthvað til að hjálpa þeim sem þurfa, t.d. með því að reyna að vera góður vinur og láta einhvern fullorðinn sem maður treystir vita þegar málin verða flókin.

Það er ekki jafnauðvelt fyrir alla að eignast vini og þeir sem eru óöruggir og hræddir við að vera hafnað eiga það skiljanlega til að láta það líta svo út að þeir hafi ekki áhuga á félagsskap eða að vera ónáðaðir. Fyrir þessa krakka getur það þó reynst sem himnasending að vera heilsað, spurðir um daginn og veginn, boðnir með hópnum í sund, bíó eða út í bakarí. Þeir sem eru félagslega færir og vinamargir geta líka lent í því að upplifa vanlíðan eða að eitthvað komi uppá sem veldur kvíða og erfitt er að glíma við. Mikilvægt er að brýna fyrir börnum að þau gæti þess að taka ekki þátt í því að koma illa fram við aðra og að þau láti vita þegar eitthvað er sagt eða gert sem skaðar eða særir einhvern. Það er auðvitað ekki hægt að gera kröfu á börn að þau verði „besti vinur allra“ en það er mikilvægt að undirstrika það að allir geta lagt sitt af mörkum til hjálpa og að láta fólki finnast það mikilvægt. Nánar um hurðaspjöldin VERUM VINIR.

Myndefni á netinu
Á degi gegn einelti mælir umboðsmaður með eftirfarandi myndefni sem finna má á netinu:

Ósýnileg
Stutt myndband frá Friends samtökunum í Svíþjóð um stúlku sem finnst hún vera ósýnileg í skólanum þangað til einhver sest hjá henni og segir "hæ". Sjá hér. Friends samtökin hafa gert mörg önnur góð myndbönd, sem hægt er að skoða hér.

Take a stand against bullying
Stutt myndband um það hvað viðbrögð eins einstaklings við einelti geta verið áhrifarík. Sjá hér.

Hulduheimar
Myndband um einelti sem var útbúið fyrir nemendur grunnskóla til að vekja hjá þeim samkennd og kærleika fyrir náunganum. Myndbandið var sérstaklega gert til að sýna nemendum hinar ýmsu birtingarmyndir eineltis, fá þá til að ræða og íhuga efni myndbandsins og til að vekja nemendur til umhugsunar um alvarleika eineltis og hræðilegar afleiðingar þess. Sjá hér.

In a heartbeat
Myndband um barn sem líður illa heima hjá sér og er einangrað í skólanum. Barnið kemur þó öllum á óvart þegar það tekur afstöðu í máli þar sem enginn þorir. Sjá hér. Lykilorðið er artiofilms.

Vegurinn heim
Heimildarmynd, byggð á viðtölum við fimm börn innflytjenda á Íslandi sem lýsa upplifun sinni af því að vera á mörkum ólíkra menningarheima. Allir grunnskólar landsins hafa aðgang að myndinni og kennsluleiðbeiningum sem henni fylgja á vef námsgagnastofnunnar, www.nams.is. Upplýsingar um verkefnið er að finna hér.

Pro Infirmis Get closer (bangsamyndband)
Myndbandið er tilraun til að vekja athygli á málefnum fatlaðra. Fáir finna ekki til samkenndar með fötluðum en þó stríðir Fabian við það á hverjum degi að hann situr einn í strætó vegna þess að fólk þorir ekki að setjast við hliðina á honum. Tilraunin heitir Pro Infirmis og var þetta myndband gert til að vekja fólk til umhugsunar. Sjá hér.

Make your influence positive
Myndband um áhrif foreldra og annarra fyrirmynda á hegðun barna og unglinga. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Sjá hér.

Sálarkvöl
Tónlistarmaðurinn Orri Err samdi lagið Sálarkvöl (Barátta gegn einelti). Textinn er byggður á viðtölum við þolendur eineltis. Sjá hér.

Fyrirmyndir
Myndband sem unnið var í vinnusmiðju umboðsmann barna um vináttu og samkennd í lok árs 2010. Það fjallar um áhrif hinna fullorðnu á börn. Sjá hér.

Hæ!
Myndband sem unnið var í vinnusmiðju umboðsmann barna um vináttu og samkennd í lok árs 2010. Það fjallar um einmana ungling sem er við það að gefast upp á lífinu þegar kveðja á Facebook breytir öllu. Sjá hér.

 

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica