Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Réttur til menntunar - bréf til ráðuneytis

Umboðsmaður barna hefur sent bréf til mennta- og menningarmálaráðuneytisins vegna máls fatlaðra drengja sem ekki hafa fengið inngöngu í framhaldsskóla. 

Bréfið er svohljóðandi:

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið
Sölvhólsgötu 4
101 Reykjavík

  

 

Reykjavík, 12. október 2017
UB:1710/6.6

 

Efni: Réttur til menntunar

Vísað er í fyrri samskipti umboðsmanns barna við mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna máls tveggja fatlaðra drengja sem hafa enn ekki fengið inngöngu í framhaldsskóla.

Samkvæmt 28. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013 eiga öll börn rétt á framhaldsmenntun við hæfi. Þá er fræðsluskylda stjórnvalda lögfest í 32. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 en þar segir að öll börn sem lokið hafa grunnskólanámi eða náð 16 ára aldri eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Rökin fyrir því að kveða á um fræðsluskyldu fyrir börn á þessum aldri fremur en skólaskyldu voru þau að virða stigvaxandi rétt barna til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um áframhaldandi nám eða starfsþjálfun. Hins vegar var ætlunin ekki að gera minni kröfur til stjórnvalda þegar kemur að menntun barna á framhaldsskólaaldri. Þvert á móti er áréttað í athugasemdum með fyrrnefndu ákvæði að fræðsluskyldan leggi þá skyldu á menntamálaráðuneytið að tryggja að svigrúmið sé þannig að öll börn eigi möguleika á námsvist í framhaldsskóla. Er því ljóst að það er skýrt brot á réttindum barna ef þau komast ekki inn í framhaldsskóla. Skortur á fjármagni, aðstöðu eða starfsfólki getur ekki réttlætt brot á grundvallarmannréttindum barna.

Umboðsmaður barna telur það með öllu óásættanlegt að börnum sé synjað um skólavist á þeim grundvelli að sérþarfir þeirra séu það miklar að framhaldsskólar séu ekki í stakk búnir að taka við þeim, enda ber ráðuneytinu sem fyrr segir að tryggja að slíkt svigrúm sé ávallt til staðar. Má í því sambandi benda á 2. gr. Barnasáttmálans, en þar er kveðið á um skyldu ríkisins til þess að tryggja öllum börnum réttindi sín, án mismununar, m.a. með tilliti til fötlunar. Réttur fatlaðra barna til menntunar til jafns við aðra er enn fremur sérstaklega tryggður í 23. gr. sáttmálans og 24. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Umboðsmaður barna ítrekar áskorun sína til  mennta- og menningarmálaráðuneytisins um að virða réttindi barna og útvega drengjunum viðeigandi framhaldsmenntun sem fyrst. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 83/1994 á embættið rétt á öllum þeim upplýsingum sem það telur nauðsynlegar til þess að sinna hlutverki sínu. Er því jafnframt óskað eftir því að fá að fylgjast með gangi mála og fá upplýsingar um það hvenær drengirnir munu komast inn í framhaldsskóla. Loks óskar umboðsmaður eftir upplýsingum um það hvaða ráðstafanir ráðuneytið hyggst grípa til til þess að tryggja að samskonar staða komi ekki upp aftur. 

 

Virðingarfyllst,

 

 

________________________________

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna