Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Úttekt á stöðu barna í leit að alþjóðlegri vernd - bréf til dómsmálaráherra

Umboðsmaður barna hefur sent bréf til dómsmálaráðherra. Tilgangur bréfsins er að lýsa áhyggjum umboðsmanns barna á stöðu þeirra barna sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd. Þá mun embættið standa fyrir úttekt á stöðu þeirra og var ráðherra upplýstur um það. 

 

Bréfið er svohljóðandi: 

 

Dómsmálaráðherra

Sigríður Á. Andersen

Sölvhólsgötu 7

101 Reykjavík

 

Reykjavík, 13. september 2017

 

Efni: Úttekt á stöðu barna í leit að alþjóðlegri vernd

 

Eins og fram kom á fundi okkar 11. september s.l. hefur embætti umboðsmanns barna á undanförnum árum haft verulegar áhyggjur af stöðu þeirra barna sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd, hvort sem þau eru fylgdarlaus eða koma í fylgd foreldra sinna. Embættið hefur margoft komið þessum áhyggjum sínum á framfæri, meðal annars í nýlegri skýrslu um helstu áhyggjuefni 2017. Einnig má benda á sameiginlega yfirlýsingu umboðsmanns barna, Barnaheilla, Rauða krossins og UNICEF vegna barna sem leita alþjóðlegrar verndar hér á landi frá síðasta ári.

Embættið hefur margoft fengið upplýsingar um að börn og fjölskyldur þeirra telji að ekki sé nægilega vel hugað að sjálfstæðum mannréttindum barna þegar metið er hvort veita eigi alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Eins og kynnt var á fundi okkar mun umboðsmaður barna á næstu mánuðum standa fyrir úttekt á þessum málum, fara yfir rök þau sem yfirvöld hafa sett fram fyrir brottvísun og meta hvort nægilegt tillit hafi verið tekið til réttinda barna. Í þessari úttekt verður leitast við að kanna hvort mál séu raunverulega metin út frá því sem er börnunum fyrir bestu, í samræmi við 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þá verður sérstaklega kannað hvort réttur barna til að tjá sig og hafa áhrif sé nægilega tryggður, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans. 

Embætti umboðsmanns barna væntir þess að stjórnvöld muni aðstoða eftir föngum við framkvæmd þessarar úttektar þannig að heildstæð greining liggi fyrir um stöðu barna sem leita alþjóðlegrar verndar hér á landi. Slík greining gæti orðið grundvöllur vandaðra verklagsreglna sem setja hagsmuni og réttindi barna í öndvegi.

 

Virðingarfyllst,

 

________________________________

Salvör Nordal,
 umboðsmaður barna