Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Þekking á högum, líðan og viðhorfum barna

Þegar verið er að taka ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti ber ávallt að hafa það sem er börnum fyrir bestu að leiðarljósi, en þetta kemur meðal annars fram í 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Til þess að meta hvað telst börnum fyrir bestu skipta réttindi barna og skoðanir þeirra miklu máli. Þá er einnig mikilvægt að taka tillit til rannsókna og annarrar faglegrar þekkingar um það hvað sé börnum almennt fyrir bestu. Er því brýnt að reglulega fari fram faglegar og vandaðar rannsóknir sem varða hagi, líðan og viðhorf barna.

Lítið hefur verið um rannsóknir um það hvaða áhrif líðan fósturs á meðgöngu og líðan barna í frumbernsku hafi á börn í framtíðinni. Í rannsóknum á þessum tímaskeiðum í lífi barna geta leynst upplýsingar sem er mikilvægt að við lærum af. Umboðsmaður barna fagnar því að fleiri aðilar séu að beina augum sínum að þessu æviskeiði, en í febrúar er meðal annars fyrirhuguð rannsóknin Lifecourse – Betri líðan barna. Markmiðið með rannsókninni er að auka þekkingu okkar á því hvaða þættir hafa helst áhrif á hegðun, heilsu og líðan barna þegar þau komast á unglingsaldur.

Börn eiga rétt á að tjá sig og það skiptir miklu máli að byggja á reynslu þeirra sjálfra þegar teknar eru ákvarðanir sem varða þau. Umboðsmaður barna vonar að sem flest börn muni taka þátt í þessari rannsókn, til þess að niðurstöðurnar verði sem  áreiðanlegastar og þannig hægt að nýta þær til þess að stuðla að því að stefnumótun og forvarnarstarf sem ætlað er börnum sé raunverulega í samræmi við það sem er þeim fyrir bestu. 

 

3 Hagsmunir Barna I Forgang