Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Krakkakosningar að baki

Eitt af þeim verkefnum sem umboðsmaður barna er hvað stoltastur af eru Krakkakosningar sem er samstarfsverkefni embættisins og KrakkaRÚV. Krakkakosningar fóru fyrst fram í tengslum við forsetakosningarnar í júní 2016 og svo aftur í kringum Alþingiskosningarnar  sem fram fóru 29. október sl. Teiknuð mynd - að þekkja réttindi sín

Í Krakkakosningum til Alþingis tóku um 2.700 krakkar í 56 grunnskólum þátt í verkefninu og voru niðurstöðurnar kynntar á kosningavöku RÚV á kosningadegi. Helstu niðurstöður eru þær að Sjálfstæðisflokkurinn naut mesta fylgis meðal krakkanna með 24,3 prósent atkvæða og 21 þingsæti. Þar næst komu Píratar með 15,1 prósent og ellefu þingsæti og á eftir þeim Alþýðufylkingin með 13,5 prósent og tíu þingsæti. Það er nokkuð frábrugðið hinu hefðbundnu kosningum fullorðinna því þar var Alþýðufylkingin mjög fjarri því að ná manni á þing. 

Vinstrihreyfingin - Grænt framboð fékk 10,5 prósent atkvæða samkvæmt niðurstöðum Krakkakosninga og sjö þingsæti. Björt framtíð er með 8,5 prósent og 6 þingsæti og Dögun og Framsóknarflokkurinn með fjögur þingsæti hvor og báðir með um 6,1 prósent atkvæða. 

Aðrir flokkar ná ekki fólki á þing en það eru Viðreisn með 4,4 prósent atkvæða, Flokkur fólksins með 3,5 prósent, Samfylkingin með 3,0 prósent, Íslenska þjóðfylkingin með 2,5 prósent og Húmanistaflokkurinn með 2,4 prósent atkvæða.

Hér má sjá innslag á RÚV þar sem niðurstöður Krakkakosninga eru kynntar og þær niðurstöður útskýrðar nánar af fréttamanni og stjórnmálaskýranda.