Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Páll Valur Björnsson hlýtur Barnaréttindaverðlaun ungmennaráða

Verðlaunin veitt þeim þingmanni sem hefur verið ötulastur við að vekja athygli á og berjast fyrir réttindum barna á Alþingi

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, hlaut í dag Barnaréttindaverðlaun ungmennaráða UNICEF á Íslandi, Barnaheilla og ráðgjafarhóps umboðsmanns barna. Verðlaunin falla í hlut þess þingmanns sem ungmennunum þykir hafa staðið sig best í að vekja athygli á og berjast fyrir réttindum barna á Alþingi á ári hverju. Verðlaunin verða veitt árlega og voru afhent í fyrsta skipti í dag. 

Í rökstuðningi ungmennaráðanna kom fram að Páll Valur Björnsson skari fram úr öðrum þingmönnum við að vekja athygli á hagsmunum barna á Íslandi, ekki síst þeirra barna sem standa höllum fæti í samfélaginu. Hann hafi án afláts sett upp „barnagleraugun“ í þeim tilgangi að berjast fyrir réttindum barna á Íslandi. „Barnagleraugun eru tæki sem talsmenn barna á Alþingi eiga að nota til þess að sjá heiminn frá sjónarhorni barns,“ sagði í rökstuðningi ungmennaráðanna.

„Páll Valur gerir sér grein fyrir að börn eiga sín eigin mannréttindi sem þarf að vernda og framfylgja. En allir verða að leggja hönd á plóg til að skapa betri heim fyrir öll börn. Við óskum Páli Vali til hamingju með verðlaunin. Störf hans hafa verið til fyrirmyndar og munu vonandi verða hvatning fyrir samstarfsmenn hans til þess að berjast fyrir réttindum barna.“

Herdís Ágústa Linnet, formaður ungmennaráðs Barnaheilla, hélt ræðu á athöfninni og benti meðal annars á að börn og ungmenni væru stór hópur, sem alltof oft heyrðist lítið í. „Þess vegna viljum við veita þeim viðurkenningu sem berjast fyrir réttindum okkar, hlusta á okkur og bera virðingu fyrir okkur sem einstaklingum,“ sagði hún.

Að lokinni ræðu Herdísar fékk Páll Valur afhent viðurkenningarskjal og verðlaunagrip.

Réttindamál barna

Ungmennaráðin benda á að Páll Valur Björnsson hefur í störfum sínum á Alþingi lagt mikið af mörkum til réttindamála barna. Hann var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu sem samþykkt var í vor, um að 20. nóvember, alþjóðlegur dagur barnsins, verði helgaður fræðslu um réttindi barna í grunnskólum landsins. Hann hefur beitt sér fyrir því að grunnskólanám verði raunverulega gjaldfrjálst, bent á aðstöðuleysi á Litla-Hrauni og að börn geti ekki heimsótt feður sína sem þar eru vistaðir, lagt fram fyrirspurnir til ráðherra um málefni barna, til dæmis um börn með ADHD og skyldar raskanir, barist gegn efnislegum skorti meðal barna og svo mætti lengi telja.

 Auk þess hefur hann verið óþreytandi við að tala fyrir mannréttindum barna í ræðum sínum á Alþingi, skrifað pistla og greinar og verið sérlega duglegur við að þiggja boð á viðburði, fundi og ráðstefnur þar sem vakin er athygli á réttindum barna. Páll Valur hefur síðan árið 2014 verið einn af sex talsmönnum barna á Alþingi.

Mikilvægt að veita verðlaun sem þessi

Ungmennaráð UNICEF á Íslandi, ungmennaráð Barnaheilla og ráðgjafarhópur umboðsmanns barna telja nauðsynlegt að þingmenn taki meira mið af Barnasáttmálanum í þeim stefnumálum sem þeir þeir taka fyrir og fjalla um á Alþingi. Hingað til hefur að þeirra mati verið mikil vöntun á skilningi hinna fullorðnu á réttindum barna.

Ungmennaráðin benda á að almennt miði þingmenn og stjórnmálamenn stefnumál sín og kosningafyrirheit eingöngu út frá fullorðnu fólki. Ef börn eru tekin með í reikninginn, er það alltaf út frá fjölskyldum. Börn hafa ekki kosningarétt og þess vegna eiga þau það til að gleymast sem hagsmunahópur. Börn eiga sín eigin mannréttindi sem þarf að vernda og framfylgja.

Það er von ungmennaráðanna að Barnaréttindaverðlaunin verði þingmönnum hvatning til að berjast fyrir réttindum allra barna á Íslandi. Sömuleiðis er það von þeirra að starf talsmanna barna á Alþingi verði eftirsóknarvert í augum þeirra sem sitja á þingi, að Barnasáttmálinn verði virtur, að hlustað verði á skoðanir barna og réttmætt tillit tekið til þeirra þegar ákvarðanir eru teknar.

 

Mynd: Páll Valur með verðlaunagripinn og viðurkenningarskjal, ásamt fulltrúum úr ungmennaráðunum.

Mynd: Páll Valur með verðlaunagripinn og viðurkenningarskjal, ásamt fulltrúum úr ungmennaráðunum.