Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Geðheilbrigðisþjónusta við börn óviðunandi

Í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar er staðfest að geðheilbrigðisþjónusta við börn hér á landi er algjörlega óviðunandi, en skýrsluna í heild sinni má nálgast hér. Eins og staðan er í dag þurfa börn að bíða í allt að eitt og hálft ár eftir nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu, en slíkt felur í sér alvarlegt brot á grundvallarmannréttindum barna og getur haft verulega neikvæð áhrif á velferð þeirra til lengri tíma. Umboðsmaður barna tekur undir með Ríkisendurskoðun, að brýnt sé að taka á markvissan hátt á geðheilsuvanda barna um leið og hans verður vart með því að takmarka biðtíma barna eins og hægt er. Er því mikilvægt að skilgreina og innleiða hlutlæg viðmið um biðtíma barna sem þarfnast geðheilbrigðisþjónustu.

Umboðsmaður barna, ýmis frjáls félagasamtök og ungmennaráð hafa ítrekað bent á þörfina á úrbótum þegar kemur að geðheilbrigðismálum barna, sjá til dæmis hér. Þá lýsti Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna yfir áhyggjum sínum af löngum biðlistum eftir greiningu og meðferð hér á landi í lokaathugasemdum sínum um framkvæmd Barnasáttmálans á Íslandi árið 2011.

Umboðsmaður barna skorar á löggjafann og stjórnvöld að taka athugasemdir Ríkisendurskoðunar alvarlega og vinna markvisst að því að bæta geðheilbrigðisþjónustu við börn. Samkvæmt 24. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, er það lögbundin skylda ríkisins að sjá til þess að öll börn njóti besta mögulega heilsufars sem hægt er að tryggja. Umboðsmaður barna hefur margoft bent á að opinberum aðilum er skylt að setja hagsmuni barna í forgang, sbr. meðal annars 3. gr. Barnasáttmálans, og tryggja öllum börnum þá þjónustu sem þau eiga rétt á. Aðstæður í ríkisfjármálum geta ekki réttlætt brot á grundvallarmannréttindum barna. Það kostar samfélagið mjög mikið til lengri tíma að veita börnum ekki þá þjónustu sem þau eiga rétt á, fyrir utan þá þjáningu sem það hefur í för með sér fyrir börnin og fjölskyldur þeirra.  Er því ljóst að það skilar sér margfalt til baka að fjárfesta í geðheilbrigði barna og ungmenna.