Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Skólaráð og þátttaka nemenda í grunnskólum

Umboðsmaður barna sendi nýlega bréf til allra grunnskóla landsins um skólaráð og lýðræðislega þátttöku nemenda í skólum. Þar benti hann meðal annars á einblöðung sem embættið hefur gefið út um skólaráð.  Hér fyrir neðan má lesa bréfið í heild sinni. 

 

Skólaráð og þátttaka nemenda í grunnskólum


Umboðsmaður barna vill vekja athygli á miklilvægi þess að tryggja rétt nemenda til þess að hafa áhrif á allar ákvarðanir sem varða þá með einum eða öðrum hætti. Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 kemur fram að skólaráð skuli vera starfandi vð hvern grunnskóla. Skólaráð á að vera skipað níu einstaklingum, þar af tveimur fulltrúum nemenda. 

Umboðsmaður barna hefur gefið út einblöðung um skólaráð. Hann var unnin í samstarfi við Ráðgjafarhóp umboðsmanns barna og ungmennaráð Árbæjar og Grafarholts, sem lögðu mikla áherslu á að hann væri einfaldur og hnitmiðaður. Hægt er að nálgast hann með því að smella á tengilinn hér að neðan. 

Einblöðungur um skólaráð á vefsíðu umboðsmanns barna

Það er von umboðsmanns barna að starfsfólk grunnskóla prenti einblöðunginn út fyrir nemendur eða kynni innihald hans á annan hátt, sérstaklega fyrir þeim fulltrúum nemenda sem nú sitja í skólaráði. Mikilvægt er að þeir nemendur sem taka þátt í skólaráði fái fræðslu við hæfi þannig að þeir geti raunverulega tekið þátt í þeim umræðum sem eiga sér stað í skólaráði og komið tillögum á framfæri fyrir hönd nemenda.

Þá er mikilvægt að aðrir nemendur í skólanum séu meðvitaðir um hverjir séu þeirra fulltrúar í skólaráði og hvernig hægt er að koma tillögum á framfæri við þá.  Mikilvægur liður í því er að efla tengsl milli nemendafélagsins og fulltrúa í skólaráði, en samkvæmt lögum um grunnskóla er það hlutverk nemendafélags hvers skóla að setja reglur um kosningu fulltrúa nemenda í skólaráð. Þar að auki á skólastjóri að boða til sameiginlegs fundar skólaráðs og stjórnar nemendafélags að minnsta kosti einu sinni á ári. Umboðsmaður barna hvetur skóla til þess að vinna í samræmi við ákvæði laganna og efla eins og hægt er samstarf milli skólaráðs og nemendafélags skólans.

Víða í skólum er unnið framúrskarandi starf í þágu lýðræðis og viljum við gjarnan heyra dæmi af þeim góðu verkefnum sem hafa verið unnin. Ef þinn skóli getur nefnt dæmi um vel heppnaða tillögu eða málsmeðferð fulltrúa nemenda í skólaráði eða sagt frá öðrum góðum dæmum um lýðræðisleg vinnubrögð væri gaman að heyra af þeim.

Ef frekari upplýsinga er óskað er ykkur velkomið að senda okkur tölvupóst á netfangið ub@barn.is eða hringja í síma 552-8999.

 
Kær kveðja,  
Margrét María Sigurðardóttir
umboðsmaður barna