Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Hvenær ráða börn sjálf?

Umboðsmaður barna vinnur nú að samantekt sem ber vinnuheitið Hvenær ráða börn sjálf? Í samantektinni er ætlunin að tíunda hvaða lög, reglur og almennu sjónarmið eiga við þegar metið er hvenær börn geta tekið ákvarðanir sjálf og hvenær þau þurfa samþykki foreldra sinna. Ekki verður hægt að gefa endanleg svör í slíkri samantekt, enda þarf oft að meta rétt barna til með- og sjálfsákvörðunar með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni, s.s. aldri, þroska, umhverfi og þörf á vernd. Hér að neðan er birtur til bráðabirgða fyrsti hluti samantektarinnar.

Hvenær ráða börn sjálf?

Reglulega koma upp álitamál um það hvenær börn mega taka sjálfstæðar ákvarðanir um eigið líf og líkama. Lög svara í einhverjum tilfellum spurningum um það hvenær börn ráða sjálf og hvenær ákvörðunarvald er hjá foreldrum. Í öðrum tilvikum gefa lögin ekki afdráttarlaus svör og þarf þá að meta rétt barna til með- og sjálfsákvörðunar með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni. Ýmis sjónarmið geta haft áhrif á þetta mat og ekki er víst að allir séu sammála um það hvernig túlka beri réttindi og ábyrgð barna og foreldra.

Hér fyrir neðan má finna stutta samantekt um það hvaða lög, reglur og almennu sjónarmið eiga við þegar metið er hvenær börn geta tekið ákvarðanir sjálf og hvenær þau þurfa samþykki foreldra sinna. Ekki er hægt að gefa endanleg svör í slíkri samantekt enda koma ýmis sjónarmið til skoðunar s.s. hlutverk foreldra, aldur og þroski barns, umhverfi og þörf á vernd. Samantektin er enn í vinnslu en stefnt er að því að gefa hana út í heild á næstunni. Þar verður reynt að taka saman þau sjónarmið sem helst þarf að hafa í huga í hverjum málaflokki fyrir sig.

1. Réttindi barna

Börn eru einstaklingar á aldrinum 0-18 ára. Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarf að tryggja sérstaka vernd og umönnun, eins og meðal annars kemur fram í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (stjórnarskrá). Börn eiga þó jafnframt rétt á því að vera þátttakendur í samfélaginu og hafa áhrif á eigið líf í samræmi við aldur og þroska. Fullorðnir eiga yfirleitt auðvelt með að viðurkenna rétt barna til þess að njóta umhyggju og verndar. Hins vegar virðist oft erfiðara að viðurkenna rétt barna til þess að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Þannig er það of algengt viðhorf að börn eigi að hafa lítil sem engin áhrif þegar kemur að ákvörðunum sem snerta þau sjálf enda skorti þau bæði þroska og reynslu.

Börn njóta almennt sömu mannréttinda og fullorðnir. Þar sem börn eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu í samfélaginu hefur þó jafnframt verið talið nauðsynlegt að tryggja þeim sérstök réttindi. Má þar helst nefna samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálinn eins og hann er oftast kallaður, sem var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989. Sáttmálinn var fullgiltur á Íslandi árið 1992 og lögfestur árið 2013, sbr. lög nr. 19/2013. Þegar Barnasáttmálinn var samþykktur markaði það mikil tímamót fyrir réttindi barna þar sem hann felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi, óháð réttindum fullorðinna. Barnasáttmálinn tryggir börnum ekki aðeins sérstaka vernd og umönnun heldur endurspeglar hann nýja sýn á hlutverk og stöðu barna í samfélaginu. Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans eiga börn sem myndað geta eigin skoðanir rétt á að láta þær í ljós í öllum málum sem þau varða og þeim fullorðnu ber að taka réttmætt tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Sambærilegt ákvæði er einnig að finna í 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í 13. gr. Barnasáttmálans er tjáningarfrelsi barna einnig veitt sérstök vernd en þar segir að börn eigi rétt á að tjá sig nema það brjóti gegn almennu siðgæði, skaði mannorð eða brjóti gegn réttindum annarra. Sömuleiðis hefur Barnasáttmálinn að geyma ákvæði sem eiga að tryggja börnum rétt á að leita sér upplýsinga, taka við upplýsingum og koma þeim á framfæri.

Af 12. gr. Barnasáttmálans leiðir að börn eiga rétt á því að taka þátt í ákvörðunum sem varða þau sjálf, hvort sem um er að ræða ákvarðanir í þeirra daglega lífi eða ákvarðanatöku í samfélaginu. Börn njóta auk þess friðhelgi einkalífs eins og fullorðnir og er sá réttur meðal annars tryggður í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 16. gr. Barnasáttmálans. Friðhelgi einkalífs nær til alls sem lýtur að persónulegum málefnum einstaklinga og felur það meðal annars í sér að hver og einn á rétt á því að ráða yfir eigin lífi og líkama og njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Á sama tíma er viðurkennt að foreldrar beri ábyrgð á börnum sínum. Samkvæmt 5. gr. Barnasáttmálans ber foreldrum að veita börnum sínum tilhlýðilega leiðsögn eða handleiðslu í samræmi við vaxandi þroska þeirra. Með því að tala um tilhlýðilega leiðsögn og handleiðslu er skírskotað til þess að uppeldisaðferðir foreldra þurfi að vera í samræmi við þau réttindi sem börnum eru tryggð í sáttmálanum. Á það ekki síst við um friðhelgi einkalífs og réttinn til þess að hafa áhrif á eigið líf, en sérstaklega er áréttað í 5. gr. sáttmálans að foreldrar eigi að veita börnum sínum aukið svigrúm með vaxandi þroska.

Í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans er gert ráð fyrir því í íslenskum barnalögum að foreldrar beri ábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna. Sem fyrr segir er börnum jafnframt tryggður réttur til að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif í öllum málum sem þau varða. Ennfremur er sérstaklega tekið fram að foreldrum beri að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Þá skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem það eldist og þroskast, sbr. 6. mgr. 28. gr. barnalaga. Foreldrar eiga því að hlusta á skoðanir barna sinna og taka aukið tillit til þeirra eftir því sem börnin eldast og þroskast. Í öðrum lögum er einnig gert ráð fyrir að börn öðlist stigvaxandi rétt til að taka ákvarðanir sjálf. Sem dæmi um það má nefna að 12 ára barn þarf sjálft að samþykkja nafnabreytingu og ættleiðingu og 16 ára barn getur sjálft samþykkt læknismeðferð eða skráningu í og úr trú- eða lífsskoðunarfélagi. Er því ljóst að þó svo að foreldrar fari með forsjá barna sinna til 18 ára aldurs öðlast börn stigvaxandi rétt til að hafa áhrif á eigið líf og í sumum tilvikum taka sjálfstæðar ákvarðanir um eigin málefni. Hins vegar getur stundum verið erfitt að svara því hversu mikil áhrif börn eiga að hafa á einstaka ákvarðanir og í hvaða tilvikum þau ráða alveg sjálf.

Lengi vel hefur verið talið að foreldrar þurfi að taka allar ákvarðanir fyrir hönd barna sinna nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum. Í ljósi breyttra viðhorfa, aukinnar þekkingar og þróunar í mannréttindamálum er hins vegar í auknum mæli viðurkennt að börn eiga að njóta sjálfstæðra réttinda, óháð vilja eða afstöðu foreldra sinna. Mikilvægt er að börn, foreldrar, þeir sem starfa með börnum eða taka ákvarðanir sem hafa áhrif á börn taki mið af þeim breytingum sem hafa orðið í réttindamálum barna og virði sjálfstæð réttindi þeirra.

2. Grundvallarhugtök og -sjónarmið

Forsjá

Börn eiga rétt á að njóta umönnunar og verndar foreldra sinna. Hugtakið forsjá er notað til þess að lýsa þessu sambandi foreldra og barns í íslenskum lögum, bæði í innbyrðis samskiptum og í samskiptum utan fjölskyldu. Ef foreldrar geta af einhverjum ástæðum ekki sinnt þessu hlutverki sínu þarf að fela öðrum aðilum forsjá barns. Í 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 er að finna leiðbeiningar um inntak forsjár, en þar er bæði mælt fyrir um rétt og skyldu foreldra:

28. gr. Almennt um inntak forsjár.

 Barn á rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja, uns það verður sjálfráða og eru þeir forsjárskyldir við það.

 Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum.
Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn hvers kyns ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.
Foreldrum ber að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði. Foreldrum ber að stuðla eftir mætti að því að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál.
Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Forsjárforeldri fer enn fremur með lögformlegt fyrirsvar barns.
Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.

Samkvæmt 5. mgr. fara foreldrar með lögformlegt fyrirsvar barna sinna og ráða persónulegum högum þeirra. Er því ljóst að forsjá foreldra, eða eftir atvikum annarra fullorðinna, takmarkar í reynd möguleika barna til að taka ákvarðanir upp á eigin spýtur. Þar sem börnum skortir í ákveðnum tilvikum þroska til að taka tillit til allra þátta við ákvörðunartöku þykir réttlætanlegt að takmarka sjálfsákvörðunarrétt þeirra. Á móti hvílir skylda á þeim sem fara með forsjá barna að taka meiriháttar ákvarðanir fyrir þeirra hönd, í samræmi við það sem er hverju einstöku barni fyrir bestu. Almennt er litið svo á að ekki sé hægt að ákvarða hvað telst barni fyrir bestu nema barninu sé veitt tækifæri á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Eftir því sem börn eldast og þroskast ber að veita þeim aukið tækifæri til að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi og þar með aukið svigrúm til að taka sjálf ákvarðanir.

Friðhelgi einkalífs

Friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis eru mikilvæg mannréttindi sem eru meðal annars tryggð í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þessi ákvæði ná jafnt til barna og fullorðinna. Auk þess er börnum tryggður sérstakur réttur til friðhelgi einkalífs í 16. gr. Barnasáttmálans. Hugtakið friðhelgi einkalífs felur meðal annars í sér réttinn til þess að ráða yfir lífi sínu og líkama og til þess að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Þá njóta tilfinningalíf, samskipti og tilfinningasambönd við aðra einnig verndar ákvæðisins. Mikilvægur þáttur í friðhelgi einkalífs felst því í að taka sjálfur ákvarðanir í persónulegum málefnum.

Forsjá foreldra takmarkar í ákveðnum tilvikum friðhelgi einkalífs barna, en börn öðlast þó stigvaxandi rétt til þess að ráða sínum persónulegu málum sjálf. Við fæðingu er réttur barna til friðhelgi einkalífs verulega takmarkaður og þurfa foreldrar að taka allar ákvarðanir fyrir hönd barna sinna. Þó þurfa foreldrar engu að síður að virða einkalíf ungra barna og til dæmis fara varlega í að birta viðkvæmar myndir og upplýsingar um börn sín, t.d. á netinu eða í öðrum fjölmiðlum. Eftir því sem börn eldast og þroskast breytist hlutverk foreldra smátt og smátt. Þegar um stálpuð börn og unglinga er að ræða eiga þau sjálf ríkan rétt til friðhelgi einkalífs. Hlutverk foreldra er þá fremur nokkurs konar leiðbeiningar- og verndarhlutverk. Mikið þarf að koma til svo foreldrar geti haft afskipti af einkalífi unglinga. Foreldrar bera þó áfram ábyrgð á börnum sínum og ber að grípa inn í ef ástæða er til að ætla að börn séu að stefna sjálfum sér eða öðrum í hættu.

Réttur barns til að hafa áhrif

Eins og fram hefur komið bera foreldrar ábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna og er því almennt gengið út frá því að þeir taki meiriháttar ákvarðanir fyrir börn sín. Eftir því sem börn eldast og þroskast fá þau þó aukinn rétt til þess að vera höfð með í ráðum þegar kemur að því að taka ákvarðanir þangað til að lokum er þeim veittur réttur til þess að taka þær að fullu.

Þegar tekin er ákvörðun sem varðar barn með einum eða öðrum hætti hefur barnið sjálft ávallt samráðsrétt, sem felur í sér að barn á rétt á því að vera með í ráðum þegar ákvarðanir eru teknar í persónulegum málum þess. Barn á þá rétt á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif á niðurstöðuna. Foreldrar og aðrir fullorðnir eiga ennfremur að hlusta á barnið og taka tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Mikilvægt er að undirstrika að um er að ræða rétt barns en ekki skyldu. Þannig ber að sjálfsögðu aldrei að þvinga barn til að taka ákvörðun eða bera ábyrgð á einhverju sem það treystir sér ekki til. Í 12. gr. Barnasáttmálans sem og í 3. mgr. 1. gr. og 6. mgr. 28. gr. barnalaga er börnum tryggður samráðsréttur í öllum málum sem varða þau með einum eða öðrum hætti.

Þegar sjónarmið barns er gefið töluvert vægi og ákvörðun ekki tekin án þess samþykkis er talað um að barnið hafi meðákvörðunarrétt. Ákveðnar ákvarðanir eru þannig að rétt þykir að barn hafi mjög mikil áhrif á niðurstöðuna, þannig að vilji þess ráði að mestu leyti úrslitum. Eftir því sem börn eldast og þroskast verða slíkar ákvarðanir algengari. Í sumum tilvikum er jafnframt talið rétt að barn ráði sjálft hvaða ákvörðun er tekin, eða eigi svokallaðan sjálfsákvörðunarrétt. Í lögum er að finna ýmis ákvæði sem skera úr um það hvenær börn eiga meðákvörðunarrétt og sjálfsákvörðunarrétt.

Það sem barni er fyrir bestu

Í barnarétti gildir sú meginregla að allar ákvarðanir sem teknar eru fyrir börn eiga að vera í samræmi við það sem telst viðkomandi barni eða börnum fyrir bestu. Þessa reglu er m.a. að finna í 3. gr. Barnasáttmálans og í 2. mgr. 1. gr. barnalaga. Þegar metið er hvað telst barni fyrir bestu þarf að huga að ýmsum þáttum. Sérstaklega þarf að huga að réttindum barna, svo sem friðhelgi einkalífs og réttinum til að tjá sig og hafa áhrif. Einnig þarf ákvörðun að taka mið af aðstæðum hverju sinni og þeirri þekkingu sem er til staðar. Þar sem börn eiga að njóta sjálfstæðra réttinda sem eru óháð réttindum foreldra sinna eða annarra fullorðinna er sérstaklega mikilvægt að leita eftir skoðunum þeirra og virða þær áður en tekin er ákvörðun um hvað er þeim fyrir bestu.

Verndarsjónarmið

Þegar teknar eru ákvarðanir um málefni barns og engar leiðbeiningar er að finna um það í lögum hversu umfangsmikil þátttaka barnsins skal vera í slíkri ákvörðun eru ýmis sjónarmið sem þarf að hafa í huga. Má þar nefna að ef barn getur ekki tekið ákvörðun, t.d. vegna ungs aldurs eða líkur eru á því að með ákvörðun sinni skaði barn sig eða aðra á einhvern hátt, er endanlegt ákvörðunarvald hjá foreldrum. Þau sjónarmið sem koma til skoðunar í þessu sambandi snúa flest að því að tryggja barninu nauðsynlega vernd. Dæmi um verndarsjónarmið sem hafa þarf í huga eru m.a.:

 • Getur ákvörðun verið skaðleg fyrir velferð eða heilsu barns?
 • Hefur ákvörðun alvarlegar afleiðingar fyrir barn?
 • Eru afleiðingar ákvörðunar varanlegar?
 • Hefur ákvörðun áhrif á velferð, mannorð eða orðspor barns eða annarra?
 • Er ákvörðun bindandi fyrir barn til lengri tíma?

Þó að foreldrar telji að einhver af framangreindum sjónarmiðum eigi við ber þeim engu að síður að virða rétt barna sinna til að tjá sig um ákvörðunina. Hætt er við því að foreldrar leggi ríkari áherslu á skyldu sína til að vernda barn sitt en á skylduna til að virða rétt barnanna til að tjá sig og hafa áhrif. Þessi tilhneiging er skiljanleg enda getur verið erfitt að taka til baka afdrifaríkar ákvarðanir. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að mat fullorðinna á því hvað telst barni fyrir bestu dugar almennt ekki til að réttlæta brot á réttindum þess. Það má því ekki takmarka rétt barna til að tjá sig á þeim grundvelli að það sé þeim fyrir bestu.

Þegar ákvarðanir eru teknar er mikilvægt að foreldrar meti hvert tilvik fyrir sig út frá hagsmunum og vilja barnsins sem og þörfinni á vernd. Ef ástæða er til að ætla að ákvörðun barns geti verið því skaðleg eða sérstaklega mikilvæg eða varanleg eiga foreldrar að tryggja barni sínu nægilega vernd. Þó að foreldrum beri að leitast við að hafa samráð við barn sitt verða þeir ávallt að axla ábyrgð á öllum meiriháttar ákvörðunum.

3. Aldursmörk í lögum og reglum

Sem fyrr segir er börnum tryggður almennur samráðsréttur í barnalögum og Barnasáttmálanum. Ennfremur er að finna ýmis ákvæði sem skera úr um það hvenær börn þurfa sjálf að eiga beina aðild að ákvörðunum og hvenær þau geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Í eftirfarandi listum má sjá dæmi um helstu lagaákvæði í íslenskum lögum þar sem börnum er tryggður samráðsréttur, meðákvörðunarréttur eða sjálfsákvörðunar­réttur.

Barn hefur samráðsrétt um
 • öll mál sem það varðar, í samræmi við aldur og þroska

sbr. 12. gr. Barnsáttmálans, 1.og 28. gr. barnalaga

 • ákvörðun um forsjá og umgengni

sbr. t.d. 34., 43. og 47. gr. barnalaga

 • ákvarðanir barnaverndar

sbr. t.d. 4., 23., 46. og 63. gr. a. barnaverndarlaga nr. 80/2002

 • ákvarðanir félagsþjónustu sveitarfélaga

sbr. 58. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991

 • þjónustu vegna fötlunar

sbr. 5.gr. laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992

 • ættleiðingu ef barn er yngra en 12 ára

sbr. 6.  gr. laga um ættleiðingar nr. 130/1999

 • læknismeðferð og alltaf ef barn er orðið 12 ára

sbr. 26. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997

 • inngöngu eða úrsögn úr trúfélagi frá 12 ára aldri

sbr. 8. gr. laga nr. 108/1999 um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög

 • ákvörðun um íslenskan ríkisborgararétt frá 12 ára aldri

sbr. 2. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt nr. 100/1952

 • ákvörðun um skipun fjárhaldsmanns og alltaf frá 12 ára aldri

sbr. 51. gr. lögræðislaga nr. 71/1997

Barn hefur meðákvörðunarrétt um
 • ákveðnar ákvarðanir barnaverndar frá 15 ára aldri

sbr. 46. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002

 • breytingu á nafni frá 12 ára aldri

sbr. 13. gr. og 14. gr.  laga um mannanöfn nr. 46/1996.

 • ættleiðingu frá 12 ára aldri

sbr. 6.  gr. laga um ættleiðingar nr. 130/1999

Barn hefur sjálfsákvörðunarrétt um
 • hvernig það fer með sjálfsafla- og gjafafé, nema um háar fjárhæðir sé að ræða

sbr. 75. lögræðislaga nr. 71/1997

 • læknismeðferð frá 16 ára aldri

sbr. 26. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997

 • skráningu í eða úr trúfélagi frá 16 ára aldri

sbr. 8. gr. laga nr. 108/1999 um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög

 • fóstureyðingu frá 16 ára aldri

sbr. 13. gr. laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir nr. 25/1975 

Í ákveðnum tilvikum hefur löggjafinn tekið ákvörðun um að ákvarðanir séu þess eðlis að hvorki foreldrar geti tekið slíka ákvörðun fyrir börnin sín né börnin sjálf. Í slíkum tilvikum hefur löggjafinn lögfest ákvæði þar sem einstaklingar þurfa að hafa náð ákveðnum aldri til þess eins að geta tekið ákvörðun og skiptir samþykki foreldra engu máli í því sambandi. Í eftirfarandi lista má sjá dæmi um nokkur slík ákvæði.

Löggjafinn hefur m.a. ákveðið að
 • óheimilt er að selja og afhenda einstaklingum yngri en 18 ára tóbak

sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um tóbaksvarnir nr. 6/2002

 • óheimilt er að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem eru yngri en 20 ára

sbr. 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998

 • einstaklingar undir 18 ára aldri mega ekki nota ljósabekki nema í læknisfræðilegum tilgangi á stöðum sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir

sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 44/2002 um geislavarnir.

 • bannað er að sýna börnum undir 18 ára aldri ofbeldiskvikmyndir og –tölvuleiki, sem og kvikmyndir eða tölvuleiki sem ógna velferð þeirra. Sýning, sala og önnur dreifing á slíku efni er óheimil.

sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 62/2006 um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum

 • börn þurfi að hafa náð 10 ára aldri til þess að geta farið ein í sund

sbr. reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum nr. 814/2010

 • börn yngri en 15 ára skulu nota hlífðarhjálm við hjólreiðar

sbr. 1. gr. reglna um notkun hlífðarhjálms við hjólreiðar barna, nr. 631/1999

 • aðeins þeir sem hafa náð 17 ára aldri megi fá ökuskírteini að uppfylltum ákveðnum skilyrðum

sbr. a-lið 2. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987

 • öll sala á skoteldum til barna yngri en 12 ára er óheimil og óheimilt er að selja eða afhenda skotelda barni sem er yngra en 16 ára sé þess getið í leiðbeiningum með skoteldum

sbr. 32. gr. vopnalaga nr. 16/1998

 • börn 12 ára og yngri mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20 nema í fylgd með fullorðnum og börn á aldrinum 13 til 16 ára skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartíminn um tvær klukkustundir

sbr. 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002

 • börn undir 15 ára aldri má almennt ekki ráða til vinnu nema í undantekningartilvikum. Börn 13–14 ára mega þó vinna létt störf í takmarkaðan tíma á daginn í samræmi við reglur

sbr. X. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð um vinnu barna og unglinga nr. 46/1980

 • frá 15 ára aldri bera öll börn refsiábyrgð á afbrotum sínum, óháð þroska hvers og eins. Það þýðir þó ekki að taka eigi á afbrotum barna á aldrinum 15 til 18 ára með sama hætti og brotum fullorðinna, enda njóta börn sérstöðu

sbr. 14. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

 • það er refsivert að stunda kynlíf með einstaklingi sem er yngri en 15 ára. Þessari reglu er ekki ætlað að refsa fyrir kynlíf jafningja heldur fyrst og fremst að vernda börn fyrir misnotkun þeirra sem eru eldri og vilja nýta sér þroska- og reynsluleysi barnanna.

sbr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

Löggjafinn hefur stundum kosið að fara þá leið að börn verða að afla samþykkis foreldra og verða foreldrar þá að meta í hverju og einu tilviki hvort eðlilegt sé að samþykkja slíkt. Dæmi um lagaákvæði sem fer þessa leið er að finna í 47. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002. Þar segir að ekki sé heimilt að flúra, húðgata eða beita nálarstungu á einstakling undir 18 ára aldri nema með skriflegu leyfi forsjáraðila. Loks þurfa börn í ákveðnum tilvikum að fá sérstakt leyfi frá yfirvöldum. Sem dæmi um það má nefna að börn mega almennt ekki ganga í hjónaband, nema með leyfi frá innanríkisráðuneytinu, sbr. 7. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Áður en slíkt leyfi er veitt þarf að leita umsagnar foreldra eða forsjáraðila, en slík umsögn er þó ekki talin bindandi.

4. Áhrif barna þegar lögum sleppir

Þegar lög skera ekki úr um það hvort barn eigi að hafa áhrif á ákvörðun sem það varðar eða hversu mikil áhrif það á að hafa þarf að meta það út frá aðstæðum, réttindum, þroska og reynslu barns hverju sinni. Börn njóta friðhelgi einkalífs eins og aðrir og er því rétt að þau hafi mikið að segja um persónuleg málefni sín.

Öll börn, sem geta myndað sér sínar eigin skoðanir, eiga rétt á því að tjá sig um ákvarðanir sem varða líf þeirra með einum eða öðrum hætti og að tekið sé tillit til þeirra. Þessi réttur nær þannig bæði til persónulegra og samfélagslegra málefna sem snerta börn. Skoðanir barns fá aukið vægi eftir því sem það eldist og þroskast. Börn eiga því rétt á því að hafa aukin áhrif á ákvörðun eftir því sem þau eldast og þegar þau nálgast 18 ára aldur eiga þau rétt á því að ráða að mestu leyti sjálf yfir eigin lífi og líkama. Þetta má setja upp á myndrænan hátt.

sjalfsakvordun 

Eins og þessi mynd ber með sér þurfa foreldrar að taka allar ákvarðanir fyrir mjög ung börn. Börn geta þó myndað sér skoðanir á eigin málefnum frá unga aldri. Um leið og börn hafa getu til að tjá skoðanir sínar ber foreldrum að hlusta á þær og taka réttmætt tillit til þeirra. Eftir því sem börn eldast og þroskast eykst réttur þeirra til að hafa áhrif á eigið líf og taka ákvarðanir sjálf. Nauðsynlegt er að hafa það í huga hversu afdrifaríkar afleiðingar ákvörðun getur haft í för með sér. Því varanlegri og mikilvægari sem ákvörðun er, því meiri ástæða er til þess að foreldrar beri ábyrgð. Sömuleiðis eykst vægi foreldra eftir því sem þörfin fyrir vernd er meiri, til dæmis ef barn hegðar sér þannig að það getur talist hættulegt sér og umhverfi sínu

Í íslenskum lögum er gjarnan gert ráð fyrir því að börn sem hafa náð 12 ára aldri hafi ríkan rétt til þátttöku og meðákvörðunar. Þó má ekki gleyma því að yngri börn geta haft mikið til málanna að leggja og ber því ávallt að hlusta á þau eftir því sem þroski þeirra og aðstæður gefa tilefni til. Á unglingsárunum hafa börn almennt náð meiri þroska og hafa oftast bæði getu og vilja til að taka þátt í öllum ákvörðunum sem þau varða. Almennt má ganga út frá því að unglingar ráði miklu um daglegt líf og geti tekið flestar minniháttar ákvarðanir sjálfir t.d. varðandi útlit, vini og frístundastarf. Foreldrar gegna þó ennþá mikilvægu leiðbeiningar- og verndarhlutverki þar sem þeir bera enn ábyrgð á velferð barna sinna til 18 ára aldurs. Hafa þeir því rétt og skyldu til þess að grípa inn í ef unglingur tekur ákvarðanir sem stefna heilsu og velferð hans í hættu. Þrátt fyrir það er þó gengið út frá því að unglingar hafi sjálfsákvörðunarrétt í sumum málum, til dæmis hvað varðar ákvarðanir um læknismeðferðir og trúfélög frá 16 ára aldri. Þegar einstaklingur nær 18 ára aldri verður hann lögráða og á þá sjálfsákvörðunarrétt um öll mál sem hann varðar.

Framangreind umfjöllun gefur nokkra mynd af því hvenær börn tekið ákvarðanir sjálf og hvenær endanlegt ákvörðunarvald er hjá foreldrum. Sem fyrr segir gefur samantektin ekki endanleg svör, enda þarf að meta rétt barna til að taka sjálfstæðar ákvarðanir með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni, s.s. aldri og þroska barns og þörfinni á vernd. Rétt er að taka fram að yfirlitið eru einungis til leiðbeiningar og felur alls ekki í sér tæmandi talningu. Þá er mikilvægt að hafa í huga að önnur sjónarmið eiga almennt við um mjög ung börn, þar sem foreldrar þurfa að taka allar ákvarðanir fyrir þeirra hönd. Þannig þarf að líta á aðstæður heildstætt og hafa í huga stigvaxandi rétt barna til þess að hafa áhrif á eigið líf.