Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Úrræði fyrir unga fanga

Umboðsmaður barna hefur sent Eygló Harðardóttur, félagsmálaráðherra, bréf þar sem m.a. er spurt hvaða vinna sé hafin við að móta framtíðarlausn fyrir börn sem eru úrskurðuð í gæsluvarðhald eða dæmd í óskilorðsbundið fangelsi.

Bréfið er svohljóðandi:

Félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
101 Reykjavík

Reykjavík, 4. febrúar 2015
UB:1502/8.1.0 

Efni: Úrræði fyrir unga fanga

Eins og ráðherra er eflaust kunnugt um hefur umboðsmaður barna á undanförnum árum haft verulegar áhyggjur af börnum sem stefna eigin velferð í hættu, til dæmis vegna afbrota, hegðunarvanda eða vímuefnaneyslu. Um þetta er meðal annars fjallað í meðfylgjandi bréfum. Umboðsmaður telur jákvætt að brugðist hafi verið við lögfestingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, með því að leitast við að tryggja að börn afpláni ekki fangelsisrefsingar með fullorðnum föngum, sbr. c-lið 37. gr. sáttmálans.

Því hefur verið lýst yfir að samningur við meðferðarheimilið Háholt um vistun ungra fanga sé bráðabirgðalausn og verið sé að vinna að framtíðarlausn í þessum málum. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 83/1994 er stjórnvöldum skylt að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu. Umboðsmaður barna óskar því hér með eftir svörum við eftirfarandi spurningum.

  1. Hvaða vinna er hafin við að móta framtíðarlausn fyrir börn sem eru úrskurðuð í gæsluvarðhald eða dæmd í óskilorðsbundið fangelsi?
  2. Er samhliða þeirri vinnu stefnt að því að byggja upp úrræði fyrir börn sem glíma við alvarlegan hegðunar- og vímuefnavanda?
  3. Hvenær er stefnt að því að sú framtíðarlausn sem unnið er að komi til framkvæmda?

Loks óskar umboðsmaður barna eftir öðrum upplýsingum sem máli kunna að skipta í þessu sambandi.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

Með bréfinu fylgdu afrit af óbirtu bréfi umboðsmanns barna til félagsmálaráðherra og innanríkisráðherra um úrræði fyrir börn með afbrotavanda, dags. 15. maí 2014, afrit af bréfi umboðsmanns barna til velferðarráðuneytisins um úrræði fyrir börn með alvarlegan vímuefna- og afbrotavanda, dags. 6. september 2013 og afrit af bréfi umboðsmanns barna til velferðarráðuneytisins um meðferðarúrræði fyrir börn og stöðu barnaverndarmála á Íslandi dags. 3. júlí 2013 þar sem bréf umboðsmanns barna til fv. velferðarráðherra um tillögur Barnaverndarstofu um aðgerðir til að styrkja meðferð barna og unglinga dags. 20. september 2012 var ítrekað.

Hér má sjá fleiri gögn sem tengjast málefnum barna sem stefna eigin velferð í hættu.