Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Áfengi - engin venjuleg neysluvara

Föstudaginn 6. febrúar milli kl. 8:15 og 10 ætla Bindindissamtökin IOGT á Íslandi að halda morgunfund. Yfirskriftin er Áfengi - engin venjuleg neysluvara. Fundurinn verður haldinn í Norræna húsinu og fer skráning fram á www.iogt.is

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, mun flytja erindi á fundinum þar sem fjallað verður um umsögn embættisins um frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak o.fl. (smásala áfengis) sem og um sérfræðihóp umboðsmanns barna en í honum voru börn alkóhólista.

Hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga að vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir fullorðinna af því að geta keypt áfengi með öðrum neysluvörum. Íslenska ríkinu er skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði löggjafar, til þess að vernda börn gegn skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímuefna, sbr. meðal annars 33. gr. Barnasáttmálans sem nú er hluti af lögum.

Hér er hægt að skoða umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak o.fl. (smásala áfengis).

Ofneysla áfengis- og vímuefna er vandamál sem snertir líf margra barna, bæði beint og óbeint. Oft ríkir mikil þöggun um neyslu innan veggja heimilisins og eru börn þeirra sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða oft falinn hópur sem upplifir mikla skömm. Börn alkóhólista eru þrátt fyrir allt venjuleg börn sem hafa upplifað mikla óvissu og álag í tengslum við mikla áfengis- eða vímuefnaneyslu foreldra. Það getur til lengdar haft margar tilfinningalegar og félagslegar afleiðingar fyrir þau og þannig markað líf þeirra til framtíðar.

Hér eru nánari upplýsingar um sérfræðihóp umboðsmanns barna: Börn alkóhólista.