Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Aðbúnaður og öryggi í skólum - Bréf

Umboðsmaður barna hefur sent bréf til foreldraráða og -félaga í leikskólum og grunnskólum þar sem bent er á ýmis atriði sem varða öryggi og aðbúnað barna í leik- og grunnskólum. Tilgangur bréfsins er að stuðla að því að foreldrar verði betur meðvitaðir um aðbúnað og öryggi í leik- og grunnskólum og hvert er hægt að leita til að fá úrbætur og upplýsingar um ástandi þessara mála. 

Skólastjórum var líka sent bréf til kynningar á málinu ásamt afriti af ofangreindu bréfi.

Opna bréf umboðsmanns barna til foreldraráða og foreldrafélaga í leik- og grunnskólum, dags. 26. janúar 2015.

Opna bréf umboðsmanns barna til skólastjóra í leik- og grunnskólum, dags. 26. janúar 2015.

Bæði bréfin eru birt hér að neðan: 

 

 Sent til foreldrafélaga og foreldraráða í leik- og grunnskólum.

Reykjavík 26. janúar 2015
UB: 1501/6.2.6

Efni: Aðbúnaður og öryggi í leik- og grunnskólum

Embætti umboðsmanns barna berast reglulega ábendingar og fyrirspurnir frá börnum, foreldrum og fagfólki vegna öryggis og aðbúnaðar í skólum landsins.  Foreldrar bera mikla ábyrgð þegar kemur að velferð og heilbrigði barna sinna. Til að foreldrar geti sinnt hlutverki sínu enn betur ákvað umboðsmaður barna haustið 2012 að senda bréf til foreldrafélaga í leik- og grunnskólum út um allt land þar sem bent er á helstu lög og reglugerðir sem gilda um þessa málaflokka. Tilgangur bréfsins var að stuðla að því að foreldrar verði betur meðvitaðir um aðbúnað og öryggi í leik- og grunnskólum og hvert er hægt að leita til að fá úrbætur og upplýsingar um ástandi þessara mála. Umboðsmaður telur að nú sé tímabært að senda sambærilegar upplýsingar aftur til að nýir fulltrúar í foreldraráðum og -félögum séu sem best upplýstir um farveg mála.

Auðvitað er eðlilegast að byrja á að bera upp erindi eða lýsa áhyggjum af aðbúnaði barnanna við skólastjórnendur eða á vettvangi skólaráðs. Skólastjóri ber ábyrgð á því að skólinn hagi störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðli að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. Skólastjóri ber einnig ábyrgð á góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda, sbr. markmiðsgreinar laga um leikskóla og laga um grunnskóla. Umboðsmaður barna telur þó mikilvægt að foreldrar þekki þær leiðir sem eru opnar fyrir þá innan stjórnsýslunnar.

Fyrst ber að nefna að nýlega komu út öryggishandbækur fyrir leikskóla og grunnskóla. Handbækurnar eru fyrst og fremst ætlaðar sem uppflettirit til að auðvelda notendum að fylgja eftir þeim lögum og reglugerðum sem gilda um leikskólann, grunnskólann og umhverfi. Þessar handbækur geta því verið gagnlegar fyrir foreldra sem vilja fá á einum stað yfirlit yfir það helsta sem huga þarf að í skólastarfi.

Málaflokkar sem helstu ábendingar sem embættinu berast eru eftirfarandi:

Öryggi á leiksvæðum og viðbrögð við slysum

Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af ástandi öryggismála á leiksvæðum barna, t.d. á leikskóla- og grunnskólalóðum og telur mikilvægt er að auka meðvitund þeirra sem málið varðar til þess að koma í veg fyrir slys á börnum. Ljóst er að sveitarfélög fara ekki öll eftir reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim þegar kemur að eftirliti með öryggi leiksvæða. Samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar og viðauka III við hana eiga rekstraraðilar, sem oftast eru sveitarfélög, að fá fagaðila til að framkvæma aðalskoðun árlega auk þess sem framkvæma á rekstrarskoðun á 1-3 mánaða fresti. Þessu er í sumum tilfellum ekki sinnt þrátt fyrir ábendingar heilbrigðiseftirlitsins og virðist sem viðurlögum sé almennt ekki beitt þrátt fyrir brot á þessum ákvæðum. Umboðsmaður barna hvetur því foreldrafélög að óska eftir gögnum eða upplýsingum um aðalskoðun leiksvæða eða aðra skoðun þeirra sem og að spyrja hvort ábendingum heilbrigðiseftirlits sem hægt er að finna í eftirlitsskýrslum hafi verið fylgt eftir. Gott getur verið að birta upplýsingar um eftirlit með leiksvæðum á heimasíðum skólanna eða hengja upp á vegg í skólum þannig að þær séu aðgengilegar þeim sem hafa áhuga á að kynna sér ástand öryggismála. Þá bendir umboðsmaður á að til er reglugerð um öryggi leikfanga sem ágætt er að þekkja til ef upp koma áhyggjur vegna þessa.

Nemandi er á ábyrgð skólans meðan á daglegum starfstíma skólans stendur, þegar hann tekur þátt í skipulögðu skólastarfi innan skólans, á skólalóð eða í ferðum á vegum skólans. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að fagfólk sem vinnur með börnum sé frætt um helstu slysahættur fyrir börn í því umhverfi sem það vinnur í. Þegar slys á sér stað er mikilvægt að ákveðið ferli fari í gang til þess að hægt sé að koma í veg fyrir frekari slys og gera breytingar á aðbúnaði og verklagi. Einnig vill umboðsmaður barna leggja ríka áherslu á að starfsfólk sem vinnur með börnum fari á sérhæft námskeið í skyndihjálp a.m.k. annað hvert ár í samræmi við öryggishandbækur leik- og grunnskóla.  Foreldrar geta óskað eftir upplýsingum um það hvort og hversu reglulega starfsfólk sæki skyndihjálparnámskeið.

Ef slys eiga sér stað í skólum og foreldrar eru óvissir um rétt viðbrögð er gott að fletta upp í Öryggishandbókum leik- og grunnskóla en þar er í kafla 8 farið yfir skráningu slysa, hvenær gera á lögregluskýrslu í kjölfar slysa o.fl.

Um öryggi á leiksvæðum og slysavarnir er m.a. fjallað í eftirfarandi lögum og reglugerðum

Reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim nr. 942/2002 

Reglugerð um öryggi leikfanga og hættulega eftirlíkingar nr. 408/1994 

Reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 (sjá t.d. 35. – 39. gr.) 

Byggingarreglugerð nr. 112/2012 

Reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum nr. 814/2010

Öryggishandbók leikskóla

Öryggishandbók grunnskóla

 Eftirlit með leiksvæðum barna í leik- og grunnskólum er á vettvangi heilbrigðiseftirlita sem starfa undir Umhverfisstofnun. Á landinu eru 10 umdæmi heilbrigðiseftirlita. Öryggissvið Neytendastofu fer með eftirlit með leikföngum og því að leikvallatæki á markaði uppfylli settar reglur um öryggi.   Umboðsmaður barna vill því benda foreldrafélögum á að leita til þessara aðila ef þau telja ástæðu til að óska eftir skýrslum eða leiðbeiningum.

Hjá embætti landlæknis og Miðstöð slysavarna barna er hægt að fá faglegar upplýsingar og ráðgjöf um slysavarnir barna eða benda á slysahættur í umhverfi þeirra.

Brunavarnir

Fyrstu viðbrögð starfsfólks og réttur brunavarnabúnaður getur skipt sköpum ef til bruna kemur. Góð umgengni er besta forvörnin gegn eldsvoðum. Foreldrar geta kannað hvort handslökkvitæki séu til og rétt staðsett í skólum og hafi verið skoðuð, hvort brunaviðvörunarkerfi sé til staðar og tengt vaktstöð, hvort rýming sé æfð og flóttaleiðir merktar. Foreldrafélög geta óskað eftir upplýsingum sveitarfélagsins varðandi það hvort árlegt eldvarnareftirlit hafi farið fram og hvort úrbætur hafi verið gerðar í samræmi við ábendingar þess.

Um brunavarnir í skólum er m.a. fjallað í eftirfarandi reglugerðum:

 Lög um brunavarnir nr. 75/2000 (sjá 12. gr)

Reglugerð um slökkvitæki 1068/2011 (sjá t.d. 8. gr.)

Reglugerð um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði nr. 200/1994 (sjá 3.3. gr.) 

Reglugerð um eldvarnaeftirlit sveitarfélaga með atvinnuhúsnæði sem tekið hefur verið í notkun nr. 198/1994 (sjá 6.4. gr.)

Byggingarreglugerð nr. 112/2012 (sjá kafla 9.4 og 9.5)

Eldvarnaeftirlit sveitarfélaga hefur m.a. það hlutverk að leiðbeina fyrirtækjum og stofnunum eftir atvikum um hvaðeina er varðar brunavarnir og eldsvoða. Mannvirkjastofnun skal tryggja samræmingu á byggingar- og eldvarnareftirliti og starfsemi slökkviliða í samráði við viðkomandi stjórnvöld og hafa yfirumsjón með rafmagnsöryggismálum.

Einelti og annað ofbeldi

Þó að þorra barna líði vel í skólanum er því miður alltaf einhver hópur sem þarf að þola ofbeldi af hendi einhvers nákomins, skólafélaga eða jafnvel starfsfólks skóla. Foreldrar geta óskað eftir upplýsingum um hvernig starfsfólk er þjálfað í að þekkja einkenni eineltis og nota eineltisáætlun viðkomandi skóla. Þá getur foreldrafélag óskað eftir kynningu á eineltisáætlun eða beðið um að foreldrum séu reglulega upplýstir um hvar hana er að finna. Þá væri hægt að óska eftir upplýsingum um þjálfun starfsfólks til að þekkja einkenni annars konar ofbeldis, s.s. kynferðislegs ofbeldis og/eða heimilisofbeldis.

Í eftirfarandi lögum og reglugerðum er fjallað um aðgerðir til að fyrirbyggja og bregðast við ofbeldi og félagslegri einangrun:

Lög um grunnskóla nr. 91/2008 (sjá t.d. 30. gr.)

Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011 (sjá t.d. 7. gr.)

Reglugerð um mat og eftirlit í grunnskólum og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald nr. 658/2009. 

Reglugerð um mat og eftirlit í leikskólum og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald nr. 893/2009.

Sveitarfélög bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins og því hafa skólanefndir (skv. 6. gr. laga um grunnskóla og 4. gr. laga um leikskóla) í sveitarfélögum mikið að segja þegar kemur að stefnumótun. Sveitarfélög setja almenna stefnu um skólahald í sveitarfélaginu og kynna fyrir íbúum þess. Mennta- og menningarmálaráðuneytið fer með yfirstjórn leik- og grunnskóla og hefur eftirlit með gæðum skólastarfs. Þó að sjálfstæði sveitarfélaga í málefnum leik- og grunnskóla sé mikið er hægt að leita til ráðuneytisins til að fá álit og leiðbeiningar. Þá má benda á stutta umfjöllun um framkomu starfsfólks sem vinnur með börnum hér á vef umboðsmanns barna.

 Hávaði í skólum

Hávaði í umhverfi barna er dulið en alvarlegt vandamál. Börn eru mun viðkvæmari fyrir hávaða en fullorðnir og minna þarf til að heyrn þeirra skaðist. Þau hafa styttri hlust þannig að hljóð dempast ekki eins mikið á leið inn til hljóðhimnunnar og hjá fullorðnum. Hávaði hefur m.a. áhrif á heilsu þeirra, líðan, einbeitingu, tal- og lesskilning auk þess sem hann getur valdið streitu, höfuðverkjum og heyrnarskaða. Ýmsir þættir hafa áhrif á hávaða í skólum, t.d. gerð húsnæðis og aðgerðir sem hefur verið farið í til að bæta hljóðvist, fjöldi barna í hóp/bekk, samsetning hópa, agastjórnun, nágrenni skóla og umferð svo eitthvað sé nefnt.

Um hljóðvist í skólum er m.a. fjallað í eftirfarandi lögum og reglugerðum:

Reglugerð um hávaða nr. 724/2008 (sjá 7. gr., 8. gr. og sérstaklega 11. gr.)

Lög um grunnskóla nr. 91/2008 (sjá 20. gr.)

Reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða nr. 657/2009  (sjá 3. gr.)

Lög um leikskóla nr. 90/2008 (sjá 12. gr.)

Reglugerð um starfsumhverfi leikskóla nr. 655/2009 (sjá 3. og 4. gr.)

Byggingarreglugerð nr. 112/2012 (sjá 11. hluta)

Öryggishandbók leikskóla

Öryggishandbók grunnskóla

Eftirlit með hljóðvist barna í leik- og grunnskólum er á vettvangi heilbrigðiseftirlita en á landinu eru 10 umdæmi heilbrigðiseftirlita sem starfa undir Umhverfisstofnun. Umboðsmaður barna vill því benda foreldrafélögum að leita til þeirra ef þau telja ástæðu til  að óska eftir hávaðamælingum eða öðrum upplýsingum um hljóðvist.

Ofangreind umfjöllun um aðbúnað barna í skólum er auðvitað engan veginn tæmandi og líklegt er að foreldrafélög hafi aðrar og mun fleiri áherslur í sínu starfi. En ef ofangreind málefni berast foreldrafélagi finnst umboðsmanni mikilvægt að félögin séu upplýst um mögulegan feril mála þannig að virkara eftirlit og aðhald sé á þessum stöðum. Varla þarf að taka það fram að best er að foreldrafélögin starfi með og í sátt við skólastjórnendur og hrósi því sem vel er gert. Það eru jú allir að vinna að sama markmiði, þ.e. að efla velferð og menntun barnanna. Þess ber að geta að framangreint gæti að mörgu leyti einnig átt við um starfsemi lengdrar viðveru í grunnskólum (frístundaheimila og heilsdagsskóla).

Í lokin vill umboðsmaður taka fram að hann þiggur allar ábendingar og upplýsingar um störf foreldrafélaganna, sérstaklega hvað varðar ofangreind málefni. Þá er öllum velkomið að hafa samband við skrifstofuna til að fá leiðbeiningar eða ráðgjöf. Símanúmerið er 552-8999.

Bréf þetta er að finna á vefsíðu umboðsmanns barna, www.barn.is. Skólastjórar leik- og grunnskóla landsins munu einnig fá afrit af þessu bréfi.

Virðingarfyllst, 
Margrét María Sigurðardóttir, 
umboðsmaður barna

   

Sent til skólastjórnenda í leik- og grunnskólum

Reykjavík 26. janúar 2015
UB: 1501/6.2.6

Efni: Aðbúnaður og öryggi í leik- og grunnskólum

Embætti umboðsmanns barna berast reglulega ábendingar frá börnum, foreldrum og fagfólki vegna ýmissa vandamála sem varða öryggi og aðbúnað í skólum landsins.

Foreldrar bera mikla ábyrgð þegar kemur að velferð og heilbirgði barna sinna og eru helstu hagsmunagæsluaðilar í lífi þeirra. Til að foreldrar geti sinnt hlutverki sínu enn betur ákvað umboðsmaður barna haustið 2012 að senda bréf til foreldrafélaga í leik- og grunnskólum út um allt land. Tilgangur bréfsins var að stuðla að því að foreldrar verði betur meðvitaðir um aðbúnað og öryggi í leik- og grunnskólum og hvert er hægt að leita til að fá úrbætur og upplýsingar um ástand þessara mála. Umboðsmaður hefur nú sent foreldrafélögum sambærilegar upplýsingar aftur til að nýir fulltrúar í foreldrafélögum séu sem best upplýstir um farveg mála.

Skólastjórar hafa veigamiklu hlutverki að gegna þegar kemur að öryggi og aðbúnaði barna og einnig í því að stuðla að árangursríku samstarfi heimilis og skóla. Til að tryggja að skólastjórnendur séu vel upplýstir um þessi mál fylgir þessu bréfi afrit af bréfinu sem sent var til foreldrafélaganna en þar er m.a. fjallað um öryggi og slysavarnir, brunavarnir, forvarnir gegn einelti og annars konar forvarnir, s.s. gegn hávaða. Umboðsmaður barna vonar að bréf þetta stuðli að meiri árvekni þegar kemur að öryggi og aðbúnaði barna í leik- og grunnskólum og að samvinna aðila skólasamfélagsins verði meiri að þessu leyti, með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

Bréfinu til foreldrafélaganna er ekki síður ætlað að styðja við skólastjórnendur í þeirra mikilvæga starfi. Skólastjórnendum er oft þröngur stakkur skorinn þegar kemur að viðhaldi, úrbótum og framkvæmdum á húsnæði og lóð. Því telur umboðsmaður að þrýstingur og umræða fleiri aðila skólasamfélagsins geti stuðlað að því að þessi mál komist í betra horf.

Bréf þetta og bréfið til foreldrafélaganna er að finna á vef umboðsmanns barna, www.barn.is. Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og er skólastjórnendum velkomið að hafa samband við skrifstofu umboðsmanns barna ef frekari upplýsinga er þörf. Símanúmerið er 552-8999.

Virðingarfyllst, 
Margrét María Sigurðardóttir, 
umboðsmaður barna