Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Peningagjafir til fermingarbarna

Fullordinn HjalparÍ 72. gr. íslensku stjórnarskrárinnar er kveðið á um friðhelgi eignarréttar. Börn njóta sömu mannréttinda og fullorðnir og er eignarréttur engin undantekning.

Börn eru ófjárráða upp að 18 ára aldri og er meginreglan því sú að þau ráða ekki yfir fé sínu. Þó er að finna undantekningar frá þessari reglu í 75. gr. lögræðislaga. Börn ráða nefnilega sjálf yfir peningum sem þau hafa unnið sér fyrir eða fengið að gjöf, þ.m.t. peningar sem fermingarbörn fá að gjöf. Hins vegar ber lögráðamönnum, sem í flestum tilfellum eru foreldrar, að varðveita þær eignir á tryggilegan hátt og ávaxta þær eins og best verður á kosið á hverjum tíma í samráði við sýslumann, sem kallast líka yfirlögráðandi, ef peningaeign barns verður meiri en 500.000 kr. Þetta verða foreldrar samt að gera í samráði við barnið sjálft. Gefanda er þó heimilt að gefa peningagjafir með skilyrðum, t.d. þannig að peningar skuli lagðir inn á bankabók til 18 ára aldurs eða bundið gjöfina skilyrði um að kaupa skuli ákveðinn hlut eða hluti.

Þó svo að börn ráði ekki sjálf yfir fé sínu ber að leyfa þeim að tjá sig um ráðstöfun þess og taka réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans. Foreldrum eða lögráðamönnum er óheimilt að ráðstafa peningum barna sinna í eigin þágu eða í þágu fjölskyldunnar nema í samráði við barnið sjálft.