Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Barn í tveimur leikskólum

Frettir Og Frodleikur

Umboðsmanni barna hafa borist erindi sem varða möguleika barna til þess að vera í tveimur leikskólum. Árið 2012 fundaði umboðsmaður barna meðal annars með Sambandi íslenskra sveitarfélaga til þess að ræða þessi mál. Í kjölfarið gaf sambandið út leiðbeinandi álit vegna tvöfaldrar leikskólavistar og getur umboðsmaður tekið undir flest sem þar kemur fram. Álitið má nálgast hér

Álit umboðsmannsbarna á því að börn séu í tveimur leikskólum

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á það sem er barni fyrir bestu alltaf að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Umboðsmaður barna telur það almennt ekki í samræmi við bestu hagsmuni barna að vera á tveimur leikskólum. Þó er ekki útilokað að slíkt geti komið til skoðunar í ákveðnum undantekningartilvikum, en þá aðeins ef báðir foreldrar eru sammála. 

Foreldrar sem fara með sameiginlega forsjá eiga að leitast við að koma sér saman um það hvort og þá hvar sótt er um leikskólapláss fyrir barn. Ef foreldrar eru ósammála getur það foreldri sem barn á lögheimili hjá tekið ákvörðun um val á leikskóla (sjá 28. gr. a. barnalaga). Að jafnaði er gengið út frá því að börn sæki leikskóla í því sveitarfélagi þar sem þau eiga lögheimili (sjá hér viðmiðunarreglur Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna leikskóladvalar utan lögheimilis­sveitarfélags).

Á undanförnum árum hefur jöfn umgengni, þ.e. að barn dvelji hjá foreldrum sínum viku og viku í senn, orðið sífellt algengari. Ljóst er að slíkt fyrirkomulag hentar sumum börnum vel. Hins vegar á það ekki við um öll börn. Þegar ákveðið er hvort barn eigi að dvelja jafnt hjá báðum foreldrum eiga hagsmunir þess að hafa forgang og vega þyngra en sjónarmið um jafnrétti foreldra.

Þegar metið er hvort jöfn umgengni henti barni skiptir samkomulag milli foreldra og búseta þeirra miklu máli. Mikilvægt er að tryggja stöðugleika og samfellu í lífi barns og kemur jöfn umgengni því helst til greina þegar foreldrar geta unnið vel saman og búa nálægt hvor öðrum. Foreldrar verða að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi og ættu ekki að ætlast til þess að barn „skipti lífi sínu í tvennt“ af því það hentar foreldrum betur. Foreldrar verða að setja barnið í fyrsta sæti og sína eigin hagsmuni í annað sæti. Telur umboðsmaður barna því almennt ekki rétt að ætlast til þess að barn sé í tveimur leikskólum, enda getur það raskað námi og félagslegum tengslum barns.

Þó að umboðsmaður barna telji það almennt ekki börnum fyrir bestu að vera í tveimur leikskólum geta verið undantekningar á því, til dæmis vegna tímabundinna erfiðleika í fjölskyldunni. Á það þá einungis við ef foreldrar eru sammála um að slíkt sé til hagsbóta fyrir barnið.