Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Meirihluti barna og unglinga skoðar samskiptasíður daglega

SAFTstóð nýverið fyrir könnun á netnotkun barna og unglinga hér á landi. Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar til vitundarvakningar um möguleika netsins og örugga netnotkun barna og unglinga.

Skyndiskilaboðum fjölgar með aldri
Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að meirihluti íslenskra barna og unglinga skoði samskiptasíður daglega eða næstum daglega. Eftir því sem börnin eru eldri því oftar skoða þau samskiptasíður en rétt rúm 20% barna í 4. bekk skoðuðu samskiptasíður daglega eða næstum daglega á meðan sambærilegt hlutfall barna í 9. og 10. bekk var um 90%.  Um 42% barna og unglinga sögðust hafa sent skyndiskilaboð, t.d. á Snapchat, Facebook chat eða Skype chat, og þar hefur aldurinn einnig mikið að segja.  Fimmtungur barna í 4. bekk segist senda skyndiskilaboð daglega eða næstum daglega en ríflega helmingur 4. bekkinga segist hins vegar aldrei senda skyndiskilboð. Þegar horft er til barna á unglingastigi grunnskóla fer hlutfall þeirra sem senda skyndiskilaboð daglega eða næstum daglega hæst upp í rúm 60% hjá börnum í 9. bekk.

Svör foreldra borin saman við svör barna
Þegar svör foreldra eru borin saman við svör barna kemur í ljós að foreldrar vanmeta notkun barna á sumum þáttum en ofmeta á öðrum. Í mörgum tilfellum er mat þeirra á netnotkun þó á pari við svör barnanna. Þegar kemur að þáttum eins og að horfa á myndbönd eða hlusta á tónlist, t.d. á Youtube, eru svör barna og foreldra áþekk. Eins virðast foreldrar hafa ágæta mynd af notkun samskiptasíðna. Rúmlega 77% foreldra svöruðu því til að barnið skoði samskiptasíður á netinu en 82% barna sögðust hafa skoðað samskiptasíður a.m.k. 1 sinni á sl. mánuði. Meiri munur er á svörum foreldra og barna þegar kemur að þáttum eins og að skoða fréttasíður en svör barna benda til þess að þau skoði fréttasíður í meira mæli en foreldrar telja.

Netnotkun eykst
Tæplega 67% íslenskra barna og unglinga sögðust nota netið nokkrum sinnum á dag og 14% einu sinni á dag. Þannig má segja að 81% íslenskra barna og unglinga í 4.- 10. bekk noti netið a.m.k. einu sinni á dag. Þetta hlutfall hefur aukist töluvert frá því árið 2009 en þá sögðust 45,5% nota netið nokkrum sinnum á dag og samtals 66,4% a.m.k. einu sinni á dag. Tíðni netnotkunar eykst marktækt með aldri en 40% barna í 4. bekk segjast fara á netið nokkrum sinnum á dag á meðan sambærilegt hlutfall barna í 10. bekk er 88%.

SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Programme, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af framkvæmdastjórn ESB.

www.saft.is