Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Samningur um tannlæknaþjónustu við börn

Í gær, 11. apríl 2013, var undirritaður samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands um tannlæknaþjónustu fyrir börn og unglinga yngri en 18 ára.

Tannheilsu barna á Íslandi hefur hrakað mikið á síðustu árum vegna aukins kostnaðar sem foreldrar hafa þurft að bera vegna meðferðar barna hjá tannlæknum. Umoðsmaður barna hefur í mörg ár beitt sér fyrir því að endurgreiðsla ríkisins sé í  samræmi við raunkostnað þjónustunnar og að börnum sé tryggð sú þjónusta sem þau eiga rétt á samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Umboðsmaður fagnar því að loksins sé biðinni eftir samningi lokið þó að hann hefði kosið að gengið hefði verið enn lengra með því að láta samninginn taka gildi strax fyrir alla aldurshópa. Þó er mjög jákvætt að samningurinn taki einnig til barna í bráðavanda sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður þótt þau falli ekki undir aldursmörkin.

Framvegis munu öll börn hafa sinn eigin heimilistannlækni. Hlutverk heimilistannlæknis er meðal annars að boða börn í reglulegt eftirlit, sjá um forvarnir og aðrar nauðsynlegar tannlækningar þeirra. Tannlæknar munu senda reikninga sína beint til Sjúkratrygginga Íslands þannig að foreldrar munu einungis greiða gjald sem ákveðið verður með reglugerð.

Tannlæknaþjónusta barna verður innleidd í eftirfarandi áföngum:
Þann 15. maí 2013 mun samningurinn taka til 15, 16 og 17 ára barna.
Þann 1. september 2013 bætast við 3, 12, 13 og 14 ára börn.
Þann 1. janúar 2014 bætast við 10 og 11 ára börn.
Þann 1. janúar 2015 bætast við 8 og 9 ára börn.
Þann 1. janúar 2016 bætast við 6 og 7 ára börn.
Þann 1. janúar 2017 bætast við 4 og 5 ára börn.
Þann 1. janúar 2018 tekur samningurinn til allra barna yngri en 18 ára.

Sjá nánar í frétt, dags. 11.04.2013 á vef velferðarráðuneytisins.