Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Mismunandi aldursmörk þegar kemur að gjaldtöku - Bréf

Umboðsmaður barna hefur sent Sambandi íslenskra sveitarfélaga bréf til að koma á framfæri ábendingum um mismunandi aldursmörk þegar kemur að gjaldtöku fyrir þjónustu við börn. Telur umboðsmaður mikilvægt að ríki og sveitarfélög gangi á undan með góðu fordæmi og stuðli að því að aldursmörk barna verði samræmd og fullorðinsgjald miðað við 18 ára aldur á vettvangi sveitarfélaga. Bréfið er svohljóðandi:

Samband íslenskra sveitarfélaga
Borgartúni 30
Pósthólf 8100
128 Reykjavík

Reykjavík, 30. nóvember 2012
UB: 1211/16.3

Efni: Mismunandi aldursmörk þegar kemur að gjaldtöku

Nokkuð hefur borið á því að embætti umboðsmanns barna berist erindi frá börnum og fullorðnum sem varða aldursmörk þegar kemur að gjaldtöku. Í mörgum tilvikum eru börn, undir 18 ára aldri, að greiða sama gjald og fullorðnir en í öðrum tilvikum teljast þau ennþá börn og greiða gjald eftir því. Auk þess virðist lítið samræmi vera í því við hvaða aldur börn greiða barna- og unglingagjald. Börn greiða því ýmist svokallað barna-, unglinga- eða fullorðinsgjald hjá stofnunum og þjónustuaðilum sveitarfélaga, t.d. í sundlaugum, samgöngum og á söfnum.

Barn er almennt skilgreint í íslenskum lögum sem einstaklingur undir 18 ára aldri en sambærilega skilgreiningu er einnig að finna í 1. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umboðsmaður barna veltir því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegra að börn greiði ávallt barnagjald þegar það á við fyrir þjónustu hjá stofnunum og þjónustuaðilum sveitarfélaga hvar sem er á landinu.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að ríki og sveitarfélög gangi á undan með góðu fordæmi í þessum efnum. Taldi hann því ástæðu til að vekja athygli Sambands íslenskra sveitarfélaga á áðurnefndu málefni og hvetur það til að stuðla að því að aldursmörk barna verði samræmd og fullorðinsgjald miðað við 18 ára aldur á vettvangi sveitarfélaga.

Virðingarfyllst,

______________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna