Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Námskeið um innleiðingu Barnasáttmálans

Í dag, fimmtudaginn 18. október, stóð umboðsmaður barna fyrir námskeiði um innleiðingu Barnasáttmálans.

Námskeiðið var haldið í Norræna húsinu og var fyrirlesari Hjördís Eva Þórðardóttir, meistaranemi í mannréttindum barna við Háskólann í Stokkhólmi. Hjördís var í starfsnámi hjá umboðsmanni barna haustið 2011 og vinnur nú að meistararitgerð sinni ásamt því að sinna verkefnastjórnun við innleiðingu Barnasáttmálans í Garðabæ. Á námskeiðinu var fjallað um hagnýta nálgun við Barnasáttmálann, innleiðingu hans og erindi við íslenskt samfélag. Skoðaðar voru hinar siðferðislegu, uppeldisfræðilegu og pólitísku hliðar sem sáttmálinn hefur og mikilvægi þeirra ef innleiða á réttindi Barnasáttmálans í íslenskt samfélag. Jafnframt var skoðað með hvaða hætti hægt er að nýta Barnasáttmálann sem verkfæri til að auka þátttöku barna í samfélaginu.

Til að sáttmálinn geti orðið að veruleika á Íslandi er nauðsynlegt að fræða börn og fullorðna um réttindi barna á markvissan hátt. Auk þess er mikilvægt að tryggja að allir þeir sem bera ábyrgð á börnum á einn eða annan hátt þekki til og skilji hina einstöku sýn á stöðu barna í samfélaginu sem sáttmálinn boðar. En hvernig náum við því markmiðið og hvers vegna er það mikilvægt? Með hvaða hætti getum við tryggt að þau réttindi sem Barnasáttmálinn kveður á um verði að veruleika fyrir börn á Íslandi?

Fjölmargir mættu á námskeiðið sem heppnaðist með eindæmum vel. Eftir að Hjördís hafði lokið við fyrirlestur sinn var þátttakendum á námskeiðinu skipt í fimm hópa. Hver hópur fékk bunka af póstkortum sem hafði að geyma ákvæði úr Barnasáttmálanum. Í fyrsta verkefninu átti hópurinn að ímynda sér að hann væri að setja einu lögin sem fjölluðu um réttindi barna en ekki var nægt fjármagn til að tryggja börnum öll réttindi og þurfti því að fjarlægja tíu ákvæði úr sáttmálanum til að byrja með og svo önnur tíu. Var niðurstaðan sú að það hefði verið mjög erfitt að takmarka réttindi barna á þennan hátt en markmiðið með leiknum var að vekja þátttakendur til umhugsunar að Barnasáttmálinn var heildstætt skjal þar sem ekkert ákvæði væri mikilvægara en annað. Í seinna verkefninu voru ákvæðin tekin til skoðunar og þátttakendur áttu að meta hvernig Ísland væri að standa sig í að uppfylla ákvæðin. Almenn ánægja var meðal þátttakenda á námskeiðinu og vonast umboðsmaður barna að námskeiðið vekji aðila til umhugsunar og verði til þess að hver og einn vinni að því að innleiða Barnasáttmálann í sitt starf.